13.08.1931
Neðri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (2245)

70. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Einar Arnórsson:

Mig minnir, að það liggi fyrir tvö frv. til laga um breyt. á lögunum frá 1928 um bann við dragnótaveiðum í landhelgi. Að þessum frv. standa menn, sem vafalaust hafa mikið vit á fiskveiðum, a. m. k. hv. þm. Vestm., og sjálfsagt líka hv. þm. Seyðf. Þessir menn segja, að það sé ekki einungis hættulaust, heldur muni það verða gott og gagnlegt mörgum þeim, sem fiskveiðar stunda, ef bannið verður rýmkað.

Þá kemur fram annar maður, sem ekki hefir síður gott vit á þessu máli, hv. þm. Borgf. Hann hefir með ekki minna kappi en þeir hinir haldið því fram, að það væri ekki einungis ástæðulaust að breyta lögunum frá því, sem þau nú eru, til rýmkunar, heldur hefir hanni líka með jafnmiklum dugnaði og honum er lagið og með góðum rökum bent á, að það megi alls ekki gera það.

Þegar nú lærðustu menn d. í þessum efnum hnakkrífast svona, þessir stórfiskar á sviði fiskveiðanna, þá er ekki von, að við, sem höfum lítið vit á þessu máli, getum gert okkur grein fyrir, hvorir hafi réttara fyrir sér, þar sem aðrir segja hvítt það, sem hinir segja svart, því að varla verður gert upp á milli þessara manna hvað vitsmuni og mannkosti snertir. En þar sem slíka menn greinir svo á, þá er torvelt okkur hinum að ákveða, hvorum við skulum fylgja.

Ég verð að segja frá mínu brjósti, að ég sé ekki, hvort brýn nauðsyn er á að afgreiða þetta mál nú jákvætt eða neikvætt. Við erum nú í ágústmánuði, og má búast við því, að þótt þetta frv. gengi fram, næði það ekki konungsstaðfestingu fyrr en í september eða október. Veiðitíminn fyrir þetta sumar yrði því liðinn. Það má vera, að einhverjir íslenzkir fiskimenn, og ef til vill ekki svo fáir, þori að fara út í haustmyrkrið og stormana. En þeir, sem bera vora elskulegu vini Dani fyrir brjósti, vita, að þótt þetta mál gengi í gegn í haust, þá geta þeir sjálfsagt ekki haft neitt gott af því, þeir búa í þessu bjarta, sólhýra og brosandi landi, og þeir hafa víst enga löngun til þess að hætta sér út í vetrarstormana hér. Svo að þótt beðið væri til næsta þings að opna gáttina fyrir þeim, þá mun það ekki verða þeim að tjóni. Danir munu fyrst á vori komanda geta hagnýtt sér þau gæði. Við getum því látið bíða þeirra vegna að samþ. þetta frv. í sumar.

Svo eru það okkar menn. Hv. sjútvn. vill ekki ganga að frv. eins og hv. þm. Seyðf. hefir borið það fram, né heldur eina og frv. hv. þm. Vestm. var. Nú geri ég ráð fyrir, að þessi frv. hinna hv. þm. verði ekki látin ganga fram í þessari d., því að é þykist vita, að þrátt fyrir hið mikla traust, sem d. hefir á þessum hv. þm., muni samt hv. sjútvn. yfirskyggja þá með sínum vísdómi. Ef svo fer, verðum við, sem erum fáfróðir í málinu, neyddir til þess að halla okkur að till. hv. n. En ef þær verða samþ., þá er komin löggjöf, sem heimilar stj. að gera rýmkanir fyrir eitt ár í senn á þessu veiðibanni.

Ég geri ráð fyrir því, að það mundi taka einhvern tíma fyrir hin einstöku héruð að senda umsóknir til hins háa stjórnarráðs, til þess að fá leyfða veiði með dragnót í einhverri víkinni, og stjórnarráðið mundi taka langan tíma að úrskurða, hvort þessi leyfi yrðu veitt. Afleiðingin af öllu þessu yrði því sú, að til næsta þings skipti það litlu eða engu máli, hvort frv. eftir till. hv. sjútvn. yrði samþ.; það kæmi ekki að verulegu gagni fyrir landsmenn á þessu tímabili.

Ég ætla að skjóta því inn i, að lögin um bann gegn dragnótaveiði yrðu dálítið hjákátleg, ef brtt. hv. sjútvn. verða samþ. Í 8. gr. þeirra er ákvæði, sem heimilar stj. að herða á banninu. Nú ætlar hv. sjútvn. að bæta inn í þessa sömu 8. gr. öðru ákvæði, þar sem stj. er heimilað að rýmka þetta bann. Ég vil ekki segja, að þetta reki sig beinlínis á, en það yrði dálítið skrítið í framkvæmdinni. Það er sagt, að margir hreppar í Þingeyjarsýslu vilji, að bannið sé hert. Ég býst ekki við, að hin velviljaða stj. daufheyrist við bænum sinna kæru Þingeyinga, og því verði bann gegn dragnótaveiði í landhelgi ef til vill sett allt árið norðan við Þingeyjarsýslur. En kjósendur hv. þm. N.-M. eiga land að sjó þar nálægt, og þeir koma e. t. v. og biðja um leyfi. Svo getur maður haldið áfram. Vera kynni, að kjósendur hv-. þm. Seyðf. bæðu um leyfi. Aftur á móti yrðu aðrir, kannske líka kjósendur hv. þm. Seyðf., sem vildu ekkert hafa með þetta leyfi. Þá kem ég að kjósendum hv. þm. S.-M. Hann er leiðandi maður þar í sýslu, og því er líklegt, að einhverjir verði sömu skoðunar og hann, að hættulegt sé að drepa ungviðið og eyðileggja gróður í sjávarbotni. Mér er ekki vel ljóst, hvernig stj. ætti að ráða fram úr þessu. Í víkinni x má ekkert veiða, en í víkinni y kynni það að vera fullkomlega heimilt. Ég sé ekki betur en að þetta mundi lenda allt í tómum glundroða. Þess vegna yrði það ekki neinn stórskaði, þótt hv. d. gæfi okkur tóm til þess að athuga málið til næsta þings.

Ég ætla því að leyfa mér að koma með rökst. dagskrá, svo hljóðandi:

„Með því að mjög orkar tvímælis, hvort rétt sé að rýmka bannið í gildandi lögum um dragnótaveiðar í landhelgi, þá telur d. ekki rétt að afgr. málið að efni til að þessu sinni, og í trausti þess, að stj. rannsaki það til næsta reglulegs þings, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá“.