13.08.1931
Neðri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (2246)

70. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Frsm. (Jóhann Jósefsson) [óyfirl.]:

Ég ætla að lýsa því yfir fyrir mitt leyti, og ég ímynda mér, að það sama geti flm. að frv. á þskj. 52 sagt fyrir sitt leyti, að þetta mál hefir ekki verið borið hér fram fyrir hv. d. til þess að sér væri gert að leik að draga umr. úr hófi fram eða draga dár að þessu máli. Það er alls ekki af léttúð fram komið frá þeim, sem óska eftir, að eitthvað sé leyft meira af dragnótaveiði en nú er. Það eru allt aðrar og alvarlegri ástæður fiskimanna, sem liggja þar á bak við.

Hv. 2. þm. Reykv. sagðist ekki sjá, að það bæri neina nauðsyn til þess að samþ. þetta nú, þar sem það kæmi engum að gagni frekar en það væri dregið til næsta þings. Það er misjafnlega ástatt á ýmsum stöðum og ég býst við, að þeir, sem standa að frv. á þskj. 52, frá hv. þm. Seyðf. og Ísaf., og hafa farið fram á, að veiðin væri leyfð frá 1. jan.–l. marz, hafi haft þá hugsun á bak við, að þetta ákvæði gæti orðið fiskimönnum að gagni, með öðrum orðum, að komið gæti til mála, að rýmkunin yrði notuð vetrarmánuðina janúar og febrúar. En sé málinu skotið fram af sér á þessu þingi, þá er þar með útilokað, að neinn geti haft gagn af því næsta janúar- og febrúarmán. Það ynnist með því að samþ. dagskrá hv. 2. þm. Reykv. En á hinn bóginn ynnist það engan veginn, að kröfurnar um að fá þennan veiðirétt rýmkaðan myndu fyrir það þagna.

Ég man ekki til þess, að ég hafi gefið mig út í þessari hv. d. sem sérfræðing í fiskveiðum, en ég hefi í þessu máli bent á, hvað sérfræðingarnir hafa haldið fram, og, þá einkum þeir sérfræðingar, sem hafa gert kolaveiðina sérstaklega að rannsóknarefni, t. d. Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson. En hitt er ekkert nýtt nú, það hefir verið síðan talað var fyrst um bann gegn dragnótaveiði, að ýmsar skoðanir séu uppi, bæði hér og í öðrum löndum; það hefir upplestur hv. þm. Borgf. leitt í ljós. En þótt menn greini á um það, þá er það svo, að sérfræðingarnir bæði hér og í Noregi hallast að því, að ekki sé eins skaðlegt og sumir vilja vera láta, að veitt sé með dragnót.

Hv. þm. fannst það hjákátlegt, að sjútvn. skyldi hallast að þeirri leið að gefa stj. heimild til þess að fara eftir vilja landsmanna sjálfra. Ef eitthvað er hjákátlegt í þessu máli, þá er það þegar því er hnoðað inn í þessi lög í byrjun, að fram yfir þetta þann 9 mánuði ársins geti einstök héruð fengið aukabann lagt á. Það stendur í lögunum nú, að þetta aukalega hann eigi að byggja á vilja þeirra, sem þar búa, og yfirlýsingu stjórnar Fiskifélags Íslands. Það er því ekkert hjákátlegt við það, þótt sjútvn. vilji láta héraðsbúa, sem hafa annan vilja en þann að herða á banninu, njóta sama réttar fyrir landamærum síns héraðs, heldur er aðeins farið inn á þá braut, að héruðin hafi nokkurn sjálfsákvörðunarrétt um, hvort þessi veiði er leyfð eða bönnuð fyrir þeirra eigin landi.

Ég ætla, að ekki verði mikill tími til þess að fara út í hina löngu ræðu, sem hv. þm. Borgf. hélt, enda er þess ekki þörf. Þótt hann hafi talað um frv. eins og hér lægju fyrir óskir um að nema lögin um þann gegn dragnótaveiði alveg úr gildi, þá er það vitanlegt, að hér er aðeins um að rærða heimild til lítilsháttar rýmkunar.

Hv. þm. Borgf. hefir flutt þetta mál af miklu kappi, eins og hv. síðasti ræðumaður komst að orði. — ég vil segja ofurkappi — og reynt að gera úlfalda úr þessari mýflugu. Hann hefir jafnvel gengið svo langt að afsanna það í öðru orðinu, sem hann var að sanna í hinu. Hann las upp grein úr norsku blaði, sem átti að vera mikilvægt sönnunargagn í þessu máli. Hann var nýbúinn að segja, að við Jaðarinn í Noregi, þar sem mótmælin komu frá, væri dragnótaveiði stunduð bæði af Jaðarsbúum og aðkomumönnum, en síðan las hann upp þetta skjal, sem sýnir beint fram á, að dragnótaveiðin er á þessum stað eingöngu stunduð af aðkomumönnum. Þá verður andúð Jaðaramanna skiljanleg, því að þeir taka það fram, að þeir geti aðeins fiskað á smábátum, sem eru svo litlir, að það verður að draga þá á land í hverju óveðri. Og það, að aðkomumenn koma og stunda veiðina við bæjardyrnar hjá þeim, er undiraldan fyrir mótmælum þeirra, eins og líka ekki er óhugsandi, að eigi sér stað í Þingeyjarsýslu, að þeir, sem mótmæla, stunda ekki veiðina sjálfir, en horfa á útlendinga stunda hana. Það er skiljanlegt, þótt mönnum á slíkum stöðum sárni, að aðrir taki veiðina frá þeim, ef þeir hafa ekki efni eða ástæður til þess að taka þátt í henni sjálfir.

Hinsvegar er t. d. svo í Vestmannaeyjum, þaðan sem áskoranir hafa komið um rýmkun, að þar eru 20 bátar með nýtízku veiðarfærum. Þeir taka sjálfir þátt í veiðinni, og dönsku bátarnir, sem komu um árið, hafa ekki staðið þeim fyrir þrifum, og við erum ekki svo hræddir við þessa keppinauta, að við þorum ekki fyrir okkar leyti að taka þátt í veiðinni, þótt nokkur rýmkun verði á gerð.

Hv. þm. Borgf. minntist á það, sem ég sagði, að fiskimenn okkar lifðu ekki á eintómum bönnum og takmörkunum, og vildi benda á það, að takmörkun landhelgisveiðanna hjálpaði á óbeinan hátt afkomu fiskimannanna. Ég skal ekki neita því. En til munu ákvæði í ísl. löggjöf, sem reynslan hefir leitt í ljós, að ekki hafa orðið til stórra búbóta fyrir íslenzka atvinnurekendur. Það þarf ekki annað en að kynna sér lögin frá 1922 og ástandið á sumum stöðum, þar sem átti að setja undir lekann, til þess að fá nægilega greinilega bendingu um, að þessum bönnum verður að beita með fullri varúð og skynsemi.

Mér er svo yfir höfuð alveg sama, hvað hv. þm. Borgf. les margar blaðagreinar, danskar eða norskar. Staðreyndirnar tala betur en allar blaðagreinar, og þær sýna, að afkoma íslenzkra fiskimanna er ákaflega slæm sem stendur, og þar sem þess er kostur að reka dragnótaveiði sér til hagsmuna, þar sem menn hafa veiðarfæri og báta og manndóm til þess að bera sig eftir björginni, er ekki skynsamlegt að bægja frá lítilsháttar meiri rýmkun en nú er, bara til þess að nokkrir danskir bátar fái ekki titt úr sjó.

Ég get vel tekið undir, að það væri ekki ánægjulegt að afhenda Dönum alla landhelgina til ótakmarkaðra afnota, en á hinn bóginn vil ég ekki, að meira sé gert úr hættunni en rétt er, en það virðist mér hv. þm. Borgf. hafa fulla tilhneigingu.

Það vita allir, að verðið á saltfiski nú er því miður svo lágt, að ekki er hugsanlegt annað en að tap verði á öllum framleiðslustöðum, þar sem saltfiskur er framleiddur. Og hvernig afkoma þeirra verður, sem eiga hana alveg undir þessu, því þarf ég ekki að lýsa. Það veit hv. þm. Borgf. vel. Og það var með tilliti til þess, að sjútvn. réðst í að vilja heimila stj. að veita nokkra ívilnun á dragnótum.

Þó að stj. notaði þessa heimild út í ýtrustu æsar, mundi bannið þó haldast óskert í 7 mánuði. Það gæti í hæsta lagi orðið leyfð veið á sumum stöðum í mánuði. Og þegar það er svo, að þessi rýmkun á að vera tímabundin og fyrir eitt ár í senn, er óábyggileg fyrir útlendan flota að treysta því, að þetta leyfi verði veitt á hverju ári.

Það er talað um það í fullri alvöru á Alþingi að veita stórfé úr ríkissjóði eða með beinum skattaálögum á landsfólkið, jafnvel svo milljónum skiptir, til þess að bæta afkomu manna út af yfirvofandi og aðsteðjandi atvinnuleysi. Því miður er ekki útlit fyrir annað en að það reki að því, að einhverra slíkra aðgerða þurfi við. En þegar menn búast við, að þurfi að láta svo hundruðum þúsunda eða milljónum skiptir beint úr ríkissjóði, eða gegnum þungar nýjar álögur á landsmenn, til þess að létta undir með afkomu manna, þá virðist mér næsta broslegt, að frv. um dálítið meira aukinn rétt manna til þess að bera sig eftir þeirri veiði, sem hægt er að umsetja allra fisktegunda bezt í peninga, skuli gert að deiluefni á Alþingi eins og gert hefir verið. Og það, sem er kjarninn í allri ádeilu hv. þm. Borgf., er þetta: Eigum við að vinna það til að geta haldið nokkrum dönskum bátum frá okkur, að geta a. m. k. með lagastaf eða í orði lokað veiðinni algerlega fyrir þeim. — að útiloka alveg okkar menn, sem hafa tæki til þess að stunda þennan veiðiskap? Með tilliti til þess ástunda, sem ég þekki sjálfur, að er í vændum, svara ég þessari spurningu neitandi. Ég vil ekki vinna það fyrir að útiloka langtum fleiri af mínum eigin landsmönnum, til þess að standa í vegi — a. m. k. í ímyndun sjálfs sín — fyrir Dönum. Það er samt ekki rétt að draga dár að dönskum fiskveiðum. Við höfum meira að segja þegið af þeim nytsamar bendingar í þeim efnum, sem eru haf- rannsóknir Dana hér við land: Veit ég ekki annað en að allir hafi verið ánægðir með þá starfsemi Dana.

Það getur vel farið svo, að þröngsýni og ofstæki í þessum efnum verði til þess að hindra aðgerðir í að bjarga þessu okkur til handa, af ákafa í það að gera Dönum brellur. Ég fyrir mitt leyti hefi lýst yfir því, að ég álít þessa hættu frá Dönum aðeins vera ímyndun þeirra, sem hugsa eins og hv. þm. Borgf.

Annars mætti virðast eins og hv. þm. Borgf. ætti annað takmark með kenningu sinni, en það er að varðveita handa togurum, og þá einkum enskum, þær fiskitegundir, sem hér ræðir um. Það er náttúrlega fallega gert af honum að vera að hugsa um Englendinga. En það er ákaflega lítill búhnykkur að vilja vinna það til, að fáeinir danskir bátar geti ekki veitt hér, að útiloka bátaútveginn íslenzka frá því að hagnýta sér þessar dýru fisktegundir. Englendingar eru nú þeir, sem mest fiska kola hér við land. Ég býst við, að 1/10 af því, sem hér er veitt, sé veitt af Íslendingum; hitt að langmestu leyti af Englendingum, en lítið af Dönum og Færeyingum. — Sé ég svo ekki ástæðu til að eltast frekar við einstök ummæli, en vil ógjarnan láta varðveita þetta til hagsmuna fyrir Breta, en til skaða fyrir íslenzkan útveg.