13.08.1931
Neðri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (2249)

70. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Einar Arnórsson:

Ég ætla fyrst að svara hv. 1. þm. S.-M., sem talaði á móti dagskránni, sem ég ber fram enda þótt ég gæti ekki tekið þessa ræðu hans algerlega alvarlega. Því að mér virtist í rauninni, að sú fyrri ræða, sem hann hélt hér í gær, væri svo gagngert rothögg bæði á frv. og líka á till. sjútvn., að ég hefi þar engu við að bæta. Hv. þm. áleit, að það mundi verða fiskimönnum að miklu ógagni, ef dagskráin yrði samþ. En ég held ekki, að þetta sé rétt hjá hv. 1. þm. S.- M. Eins og ég hefi áður vikið að, þá mundi heimild sú, sem í till. hv. sjútvn. felst, eigi verða að miklu liði þar til næsta þing gæti afgr. málið með einhverjum hætti.

Aldrei hefi ég sagt, að það væri hjákátlegt að taka tillit til vilja manna á einstökum stöðum, en hitt sagði ég, að það yrði nokkuð hjákátlegt í framkvæmdinni að leyfa á einum stað það, sem bannað er í næsta nágrenni. Býst ég ekki við, að slíkt fyrirkomulag yrði svo auðveldlega framkvæmt. Ég ímynda mér, að menn yrðu nokkuð ósammála um það í nærliggjandi sveitarfélögum. Það gæti t. d. verið, að þeir á Vatnsleysuströndinni vildu alls ekki hafa neitt með slíka rýmkun að gera, en menn suður í Garði vildu fá leyfi til dragnótaveiða hjá sér.

Annars nefndi hv. þm. Vestm. líka fiskveiðasamþykktirnar gömlu, og einnig hv. 1. þm. S.-M. En ég býst nú við, að þeir menn, sem kunnugir eru við Faxaflóa, hafi ekki sérstaklega hugljúfar endurminningar frá þessu fiskveiðasamþykktatímabili, því að ég man svo langt, að þessar samþykktir voru eilíf uppspretta brota, leynt og ljóst, og eilíf uppspretta til haturs manna á milli.

Svo var hv. þm. Vestm. að gefa í skyn, og ég drægi dár að dönskum fiskimönnum. (JJós: Nei, það átti við þm. Borgf.). Jæja. Að vísu fór ég þeim orðum um þá, að þeim þætti sennilega ekki fýsilegt að koma hingað í skammdegismyrkri og vetrarstormum, svo að dagskráin skipti ekki máli þeirra vegna. En ég verð að segja það við hv. þm. Vestm., úr því að hann er að bera blak af dönskum fiskimönnum, að það sé hann, sem sé að gera lítið úr þeim. Því að hann hefir margstaðhæft, að það sé ekki minnsta hætta, þótt þeir fengju meiri möguleika til fiskveiða hér en þeir hafa nú. Danir eru um 3 millj. að tölu og 30–50 sinnum ríkari en við. Ég ætla, að það væri ekki með öllu hættulaust að hleypa þeim stórlöxum inn í íslenzka landhelgi. Það kalla ég að gera lítið úr dönskum sjómönnum og danskri útgerð, að álíta, að engin hætta stafi okkur frá henni að þessu leyti.

Út af því, sem hv. þm. talaði um fiskirannsóknir Dana hér við land, þá ætla ég ekki að gera lítið úr þeim. En mér dettur þó ekki í hug að fara að bráðna upp af þakklæti fyrir þessar rannsóknir. Þeir hafa sem sé haft jafnan rétt við okkur til veiða, og svo verður meðan sambandslögin standa.

Úr því að að landhelgisvörn Dana bar á góma, þá get ég gjarnan sagt, að mér finnst hún síðustu árin meiri í orði en á borði. Það gæti jafnvel verið ástæða til að athuga það, hvort eigi væri réttast að biðjast undan þátttöku þeirra í gæzlu fiskveiða hér við land, ef þeir gera engar bætur á henni frá því, sem nú hefir verið um stund. Þeir hafa fiskveiðaréttinn hér jafnt sem við, og meðan svo er, þá virðist ekki til of mikils mælzt, að þeir ræktu betur gæzluskyldu sína en verið hefir.

Það er nú svo, að alltaf þegar harðnar í ári eða kreppu ber að höndum, þá leita menn ýmissa ráða og óráða til að komast fram úr vandræðunum. Það var t. d. hérna um árið, að Hafnfirðingar beindu tilmælum til stj. um undanþágu frá fiskveiðalöggjöfinni. Þá var sagt, að þessi kaupstaður mundi bíða mikið tjón, nema undanþágan fengist. Þessi nauðsyn var blásin mjög uppa. Undanþágan var ekki veitt, og allt fór vel. Kaupstaðurinn bjargaðist vel út úr vandræðunum þá. Svo að jafnvel þótt einhverjir einstakir þm. komi með svona málaleitanir, þá finnst mér ekki ástæða til að hrapa að framkvæmdum að ekki fullathuguðu máli.