01.08.1931
Neðri deild: 18. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (2345)

138. mál, sundhöll í Reykjavík

Magnús Jónsson:

Þetta litla frv. er hv. þdm. vel skiljanlegt. Það er svo til komið, að þegar lögin um sundhöll í Reykjavík voru sett árið 1928, lá fyrir Alþingi áætlun húsameistara ríkisins um, að kostnaðurinn við byggingu sundhallarinnar myndi verða um 200 þús. kr. Reynslan hefir sýnt, að þessi áætlun er alröng og út í bláinn og byggingin muni verða meira en helmingi dýrari en áætlað var.

Árið 1928 voru einnig sett lög þess efnis, að ríkið greiddi helming kostnaðar við yfirbyggðar sundlaugar. Ákvæði þessara laga og laganna um að ríkissjóður leggi fram allt að 100 þús. kr. til sundhallar í Reykjavík, stangast því algerlega, en sanngjarnt er að álíta, að ríkið eigi að styrkja þessa sundhöll sem aðrar yfirbyggðar sundlaugar landsins og skoða upphæðina í lögunum sem áætlunarupphæð, sem breytist í hlutfalli við það, sem er um sundlaugar annarsstaðar, enda er farið fram á það í þessu frv.

Ég vil svo mæla með því, að þetta frv. fari til 2. umr. og allshn. (Forsrh.: Ég legg til, að því verði vísað til fjvn.). Ég sé ekki ástæðu til þess að vísa þessu máli til fjvn., en vitanlega fær hún að segja álit sitt um málið. Ég get upplýst hæstv. forsrh. um það, að allshn. heldur sjaldan fundi, en fjvn. hefir stundum haldið fundi tvisvar á dag. Annars finnst mér þetta vera svo nauðaeinfalt mál og ekki sé mikil þörf að vísa því til nefndar.