03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (2348)

154. mál, raforkuvirki

Flm. (Jónas Þorbergsson):

Frv. þetta er að mestu samhljóða frv., sem hv. þm. Seyðf. flutti hér í fyrra að tilhlutun verkfræðings útvarpsins, en með dálitlum viðauka þó. Tilgangur frv. er einkum sá, að varna því, að einstakir menn og félög, sem fá leyfi til að setja upp raforkuvirki, geti selt raforku með óhæfilega háu verði. Því er svo ákveðið í frv., að sveitar- og bæjarstjórnir skuli hafa íhlutunarrétt um verð raforkunnar.

Annað aðalatriði frv. er í því fólgið, að ráðherra skuli setja reglur til varnar gegn hættu af raforkuvirkjum og óleyfilegum notum þeirra og truflunum á útvarpi og loftskeytum.

Í þriðja lagi er ætlazt til, að skipaðir verði eftirlitsmenn með raforkuvirkjum. Slíkt tíðkast alstaðar erlendis, enda er orðin full þörf hér á skipulagsbundnu eftirliti. Þess má líka geta, að þegar hefir verið skipaður eftirlitsmaður til bráðabirgða eftir till. raforkumálanefndar. Vænti ég, að hv. deild taki vel í þetta mál og vísi því til 2. umr. og allshn.