26.04.1938
Efri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2758)

112. mál, stýrimannaskólinn

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég hefi í grg. fyrir þessari till. gert ýtarlega grein fyrir því, sem fyrir mér vakir. Í till. er farið fram á rannsókn um það, hvar byggja skuli stýrimannaskólann, og á henni að vera lokið fyrir næsta Alþ. Helzt á að reisa skólann á tilteknum stað utan bæjar. Þetta mál er að vísu ekki alveg nýtt, því að það hefir verið skrifað um þetta í öll dagblöð bæjarins í vetur. Greinarnar hafa fyrst og fremst snúizt um nauðsyn þess að byggja stýrimannaskóla, en á hvaða stað hann yrði reistur, var ekki beinlínis slegið föstu, heldur á Alþ. að fá að vita um grundvöll fyrir því, hvernig hann skuli reistur, ef til þess kæmi, að hann yrði byggður vestur á Valhúshæð. Í grg. er því lýst nokkuð ýtarlega, að stýrimannaskólinn myndi verða mjög áberandi á þessum stað, og sú myndi verða raunin á, að sjómannastéttinni þætti vænna um hann þar heldur en ef hann væri byggður inni í bænum á lítið áberandi stað. Það, sem hefir einkum lyft undir þessa till., er trú okkar flm. á, að sjómennskan og sjómannastéttin eigi mikla framtið fyrir höndum. Hér er ekki aðeins um það að ræða að byggja litla stofnun, heldur eiga þarna líka að koma allskonar nýbyggingar viðvíkjandi öllum greinum sjómennsku og siglinga. Það er mjög skynsamlega gert að koma því þannig fyrir, að þarna yrði einskonar ríki sjómannanna. Þess vegna virðist bezt að reisa eina aðalbyggingu fyrst og minni byggingar yrðu reistar siðar til annara þarfa. Ég hygg ennfremur, að það muni mega hafa talsverða fjármuni upp úr núverandi stýrimannskóla, því að hann stendur á heldur góðum stað í bænum sem íbúðarhús, og er svo rúmgóður, að þar gætu verið nokkrar íbúðir, auk þess sem lóðin, sem hann stendur á, er nokkuð verðmæt.

Sá skipstjóri, sem á Valhúshæðina, ætlar að gefa nægilega stóra landspildu handa þessari stofnun, og byggingarefni má fá þar rétt við.

Af viðtali við skipstjóra og stýrimenn skilst mér, að líkindi séu til, að hægt myndi að fá sérstakt innanlandslán handa þessari stofnun, líklega um 100 þús. kr. til 30 ára með lágum vöxtum. Ef það fengist, myndi það algerlega tryggja, að unnt yrði að byggja skólann eftir eitt ár eða tvö fyrir þetta lán fyrir endurgjald gamla stýrimannaskólans. Þetta myndi hrökkva vel fyrir kostnaði.

Það er ekki vansalaust hvað sjávarútveginn snertir, að ekki sé meira hlynnt að honum en gert hefir verið hingað til. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta, en þykist viss um, að allir geti orðið sammála um að láta þessa athugun fara fram, hvort sem menn vilja láta byggja skólann innan bæjar eða á þessum stað.