26.04.1938
Efri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (2759)

112. mál, stýrimannaskólinn

*Árni Jónsson:

Ég þarf tæplega að taka það fram, að ég stend hér ekki upp til þess að andmæla till., en til þess að menn megi sjá, að ég er hlynntur því, að hv. d. samþ. þessa till. Ég vildi segja það allra fyrst, að sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda hélt fund um mánaðamótin okt. og nóv., og í samsæti við lok hans kom einn fundarmanna fram með till. um, að hér yrði reist á Íslandi minnismerki yfir drukknaða sjómenn. Barátta sú, sem þeir heyja, er töluvert lík því, sem aðrar þjóðir heyja á ófriðartímum. Ég tel víst, að ýmsir hér í d., og þar á meðal hv. flm., muni hafa séð hjá ýmsum frændþjóðum vorum minnismerki yfir ókunna hermanninn. Þessu máli var mjög vel tekið á þessum fundi og kosin n. til þess að hrinda því í framkvæmd, ræða fyrirkomulagið og leita opinberra samskota. Í n. voru nokkrir þjóðkunnir menn, þar á meðal hv. þm. Vestm., Magnús Sigurðsson bankastjóri og Benedikt Sveinsson bókavörður, fyrrv. forseti Alþ. Nöfn hinna tveggja man ég ekki fyrir víst. Nú er um það að spyrja, hvernig þetta verði framkvæmt. Ég geri ráð fyrir, að það sé ekki neinn ágreiningur um það, að þetta sé æskilegt. Það kemur fram hjá hv. þm. S.-Þ., að honum finnst, að þessi stýrimannaskóli geti verið minnismerki fyrir ísl. sjómenn. Það er rétt og skiljanlegt, að íslenzka þjóðin reisi minnismerki yfir hina drukknuðu sjómenn, en það er aðeins vafamál, á hvern hátt það skuli reist. Slíkt minnismerki er eðlilegt, að sé annaðhvort myndastytta eða þessháttar, eða þá að það yrði sameinað því hagnýta, og það fé, sem annars yrði varið til að reisa líkneski, lagt í stofnun þá, sem hér er um að ræða. Þetta er eins og nú standa sakir líklegt til að geta verið sjómannastéttinni til hins mesta gagns. Ég man eftir því, að það var viðurkennt, að hægt væri að gera samanburð á íslenzku sjómönnunum og hermönnum erlendis. Manntjónið á íslenzka sjómannaflotanum er alveg sambærilegt við það mannfall, sem hernaðarþjóðir verða að liða, þegar þær eiga í ófriði. Þegar íslenzku sjómennirnir leggja af stað heiman frá sér, þá er raunar í mörgum tilfellum vonin um endurfundi við ástvini sína og kunningja ekki meiri en þegar hermennirnir eru að kveðja ástvini sína og fara til vígstöðvanna. Það eru ákaflega fáar þjóðir, sem hafa þann atvinnuveg fyrir aðalatvinnu, sem er jafnmannfrekur sem fiskveiðarnar eru hér við Ísland. Meðal hernaðarþjóðanna þykir það hin mesta frægð að falla fyrir föðurland sitt. En íslenzku sjómennirnir falla fyrir sitt föðurland, — því að hvar værum við staddir, ef þeir héldu ekki uppi þessari atvinnu? Munurinn er aðeins sá, að íslenzku fiskimennirnir hafa ekki með starfi sínu valdið þjáningum og dauða annara, eins og hermennirnir hafa oft gert, en báðar þessar stéttir eru háðar sömu örlögum. Atvinna sjómannanna er því mjög hættuleg. Sannleikurinn er sá, að erfiðleikar þessa atvinnuvegar gera þá, sem hann stunda, áræðna, og hann er nauðsynlegur til þess að halda við harðfylgi þjóðarinnar og til að koma í veg fyrir, að ættstofninn úrkynjist. Meðan við Íslendingar höfum þann aðalatvinnuveg, sem er jafnmannfrekur sem sjómennskan er, þá er engin hætta á því, að hér búi ekki harðfeng þjóð né að þjóðin úrkynjist.

Það hefir verið bent á ýms vandkvæði við að byggja stýrimannaskólann vestur á Valhúshæð, m. a. að hann yrði of langt frá Reykjavík, eins og nú standa sakir. Ekki má gera of lítið úr þeim vandkvæðum, sem fjarlægðin veldur. Hún hlýtur að valda óþægindum og talsverðum kostnaði fyrir nemendur. En ég held, að með því móti að sameina þetta tvennt, að þessi skóli yrði jafnframt minnismerki yfir drukknaða sjómenn, og samskot rynnu til hans, myndi fást svo mikið fjárframlag, að hann yrði að mestu leyti heimavistarskóli. Ég vil taka þetta fram og skjóta því til ríkisstj. til athugunar, að hún ráðfæri sig við þá nefnd, sem kosin var á fundi sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda síðastl. haust.