26.04.1938
Efri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (2761)

112. mál, stýrimannaskólinn

*Bjarni Snæbjörnsson:

Aðeins örfá orð. Það er öllum vitanlegt, að skólahús það, sem nú er fyrir stýrimannaskólann, er algerlega ónothæft, enda gamalt hús. Verður því að vinda bráðan bug að byggingu nýs skólahúss. Er þess vegna ekki nema þakklætis vert, að slík till. er komin fram. En það verður að viðurkennast, að það er oft og tíðum erfitt mál að ráða fram úr því að sameina það praktíska við það, sem fallegt er; og sérstaklega ef það „monumentala“ á að koma í viðbót, að samrýma það allt við hina praktísku hlið. Það hefir verið minnzt á í þáltill. að setja upp stýrimannaskólann á þessum áberandi stað, og meðfram til þess að vera einskonar minnismerki, er gnæfði hátt fyrir augum farmanna, þegar þeir kæmu að landi, — minnismerki fyrir sjómannastéttina. Hv. 10. landsk. undirstrikaði þetta atriði. En það hefir samt sem áður verið minnzt á ýmislegt, sem gæti orðið því til fyrirstöðu, að skólinn yrði reistur á nefndum áberandi stað. Og þó að skiptar hafi verið skoðanir um allt það, sem heitir smávægilegt, eins og t. d. fjarlægðina, þá er það samt sem áður atriði, sem ég álit, að eigi að taka með í reikninginn. því að þá hugmynd, sem kom fram hjá hv. 10. landsk., að það mætti nota samskotaféð til þess að gera þarna heimavistarskóla, álit ég alls ekki hugsanlega. Það er þannig í verunni, að þó að menn vilji leggja eitthvert fé til einhvers minnismerkis, þá er óvíst, að menn vilji eins leggja sömu upphæð til skólans. Því að það er hér um bil ætíð svo, að menn eru tregari til slíkra hluta, þegar um fyrirtæki er að ræða, sem á að vera í opinberum rekstri; þá verður í framkvæmdinni álítið, að hið opinbera eigi að sjá fyrir þessu að öllu leyti. Samskotin hætta, eða verða miklu minni en búizt var við í upphafi.

En svo er hitt atriðið, fjarlægðin. Það eru óneitanlega alltaf óþægindi að sækja langt burt til daglegrar vinnu. Og þó að miklu sé nú auðveldara að komast út á nesið en áður og kosti ekki svo mikið með strætisvögnum, þá er það nú svo, að slíkir skólapiltar eru margir fátækir, og þá munar um hvern eyri, í fargjöld eins og annað. En auk þess eru tvö atriði, sem ég vildi minnast á. Þó að ekki sé slegið föstu í þáltill. að byggja skólann á Valhúshæðinni, þá skoða ég það samt sem áður svo, að ef þingdeildin samþ. þetta svona án þess að nokkur rödd komi á móti því, verði hún yfirleitt talin hafa verið sammála um, að þetta sé heppilegasti staðurinn. Þess vegna vil ég minnast á þessi tvö atriði í viðbót, sem ég álit, að geri staðinn ekki hentugan. Annað er það, hvað staðurinn stendur hátt. Það er dálítið öðru máli að gegna hér hjá okkur en viða í útlöndum, t. d. í Noregi og annarsstaðar þar, sem slíkar byggingar eru reistar við innsiglingu fjarða, því að þar er oft prýðilegt hlé fyrir byggingarnar. En þarna á þessum stað er eilifur gjóstur. Það er ekki nokkurt hlé að neinu leyti, á hvaða átt sem hann blæs, og þess vegna hlýtur alltaf að verða þar gjóstursamt. Og þó að segja megi um þá menn, sem þarna eiga að nema, að ekki sé neitt nýtt, þótt um þá blási, þá er það samt svo, að ólíku aðgengilegri hefði staður verið, sem væri hlýlegri og í hléi.

Í öðru lagi er annað atriði, sem ekki hefir verið enn minnzt á, og það er vatnið. Þessi staður liggur töluvert hátt, og mér vitanlega nær ekki vatnsveitan nema stuttan spöl á nesið. Og a. m. k. á sumum stöðum, eins og t. d. Lambastöðum, sem liggja dálítið lægra, þar veit ég um af sérstökum ástæðum, að vatn er ónóg, a. m. k. uppi á lofti. Þó að nú eigi að gefa þessa lóð og byggingarefni sé nærtækt, þá kemur spurningin, hvort ekki sé annar eins kostur og meiri en það, að þangað liggi góð og næg vatnsleiðsla. Ef ekki er hægt að leiða nægilegt vatn upp á efstu hæð hússins, þá er verr farið en heima selið að flestu leyti.

Nú var einmitt verið að ræða þáltill. áðan, þar sem hæstv. forsrh. tók til máls og minntist á, hve margt það væri, sem þyrfti að gera, þar á meðal að reisa þetta skólahús, og kostaði það um hálfa milljón; væru vandkvæði á ýmsum slíkum framkvæmdum, með því að ekki væru nægir peningar fyrir hendi. Er það því áhyggjuefni fyrir þeim, sem hafa áhuga fyrir því að fá góðan skóla fyrir sjómenn, að málið verði ekki dregið vegna atriða, sem gera framkvæmdina alla dýrari og umfangsmeiri að óþörfu. Nú hefir mér dottið í hug annar staður, og þó að ég hafi ekki minnzt á hugmyndina við stýrimenn né fagmenn, þá get ég rétt slegið henni fram. Mér hefir dottið í hug, hvort ekki væri heppilegur staður fyrir svona skóla, svo framarlega sem hann er ekki hafður í miðbænum eða á Skólavörðuholtinu, eins og minnzt hefir verið á, — að reisa hann í norðanverðu Bráðræðisholtinu. Þar er ljómandi fallegt um að litast og blasir allvel við innsiglingunni, og þaðan er líka syttra í bæinn en af nesinu. Og ég veit ekki til. að byggingar t. d. á norðanverðu Bráðræðisholtinu séu orðnar það miklar, kringum Sjávarborg og þar í kring, að ekki mætti hugsa sér að reisa þar slíkan skóla. Ég skal játa, að þetta er bara hugmynd, sem mér kom í hug bara undir umræðunum. En ég vildi samt sem áður slá henni fram, vegna þess að fyrir mér vakir það fyrst og fremst, að það geti orðið úr skólabyggingunni undir öllum kringumstæðum, og auðvitað líka, að hún mætti verða sem bezt úr garði gerð; en að hún yrði þó ekki svo dýr og erfið, að það út af fyrir sig seinkaði framkvæmdinni.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta. Mér finnst sjálfsagt að samþ. þessa þáltill. og er henni fyllilega meðmæltur. En ég vildi bara undirstrika það, að með samþykkt till. er ekki að neinu leyti slegið föstu, að byggingin yrði reist á þessum stað, sem um getur í till., frekar en á einhverjum öðrum stað, sem farmenn og aðrir, sem ætla að búa við þessa stofnun, álitu heppilegastan.