26.04.1938
Efri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (2763)

112. mál, stýrimannaskólinn

*Árni Jónsson:

Ég álít ekki, að þetta mál sé á því stigi, að nein ástæða sé til kappræðna. Ég ætla ekki að endurtaka neitt af því, sem ég sagði áðan. Hæstv. forsrh. hefir sýnt fram á, hve mjög væri aðkallandi, að Ýmsar stofnanir kæmust á fót, og því veltur mest á peningaspursmálinu. Með hugmynd minni var tilætlunin að samræma peningaspursmálið öðrum kröfum, því að hægt væri að reisa veglega skólabyggingu, sem væri um leið minnisvarði.

Það kom fram lítilsháttar misskilningur hjá hv. 3. landsk. þm. Hann var hræddur um, að S.Í.F. ætlaði að einoka þetta mál, en það er fjarri lagi. Í n. eru menn, sem standa utan við sölusambandið, eins og t. d. Benedikt Sveinsson, og ég má segja, að Geir Sigurðsson sé í n. líka. Ég efast um, að þetta mál sé fyrst og fremst mál sérstakrar stéttar. Þetta er mál alþjóðar, og þegar því verður skotið til þjóðarinnar, veit ég, að hún daufheyrist ekki við að leggja fram fé til þess. Á skömmum tíma mætti safna hundruðum þúsunda.

Það er fjarri því, að ég hafi slegið neinu föstu um fyrirkomulagið, eins og hv. 3. landsk. vildi halda fram. Orð mín hafa aðeins verið hendingar til ríkisstj. um það, hvað gera mætti. Að minnismerkið sé ekki samrýmanlegt skólabyggingunni, er sagt alveg út í bláinn, því að í grg. segir, að þetta ætti að geta orðið minnismerki. Það er hugsunarháttur nútímans að reyna að sameina hið listræna og hið praktiska, og í þessu tilfelli er engin ástæða til að binda sig við venjulega myndastyttu, og má á margvíslegan hátt koma því svo fyrir, að um leið og skólinn er hagnýt stofnun, sé hann þannig útbúinn, að hann verði veglegur minnisvarði yfir okkar föllnu sjómenn.

Hv. þm. minntist á, að sjómenn legðu mikla áherzlu á að fá árlega sjómannadag. Það álít ég líka nauðsynlegt. Það á að neyta sem flestra ráða til þess að hrinda þessu mikla máli í framkvæmd.

Hv. þm. var að tala um, að komið hefði fram till. um að reisa kapellu hér í bænum, þar sem rist væru á töflu nöfn þeirra sjómanna, sem hefðu drukknað. Ég álít, að hægt sé að koma þessu fyrir í sambandi við skólabygginguna engu síður. Ég efast ekki um, að í henni mundi verða fundarsalur eða hátíðasalur, og væri eðlilegt, að slíkum töflum væri komið fyrir þar.

Mér skildist á hv. þm., að honum þætti ekki viðeigandi að gera þessa hluti með samskotafé, en ég vil benda honum á, að það er þegar gert ráð fyrir slíku. Og ég get ímyndað mér, að það land, sem boðið hefir verið fram til skólans, geti orðið stærsti liðurinn á samskotalistanum. Hv. þm. virðist óttast, að ekki geti orðið áframhald á samskotafé. En með tilliti til þess, sem hv. a. landsk. hefir talað um sjómannadag, gæti einmitt orðið áframhald á því árlega á þeim degi. Einnig mætti — eins og var um Vífilsstaðahælið og landsspítalann — fá inn fé með minningarspjöldum, einnig með áheitum o. fl.

Ég mun ekki orðlengja þetta frekar. Ég vona, að ríkisstj. vilji gefa þessu máli gaum, því að hér er um það að ræða, að skólinn geti orðið ekki einasta hagnýt stofnun, heldur og veglegt og göfugt minnismerki.