26.04.1938
Efri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (2764)

112. mál, stýrimannaskólinn

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég ætla að segja örfá orð út af ræðu hv. frsm. Ég álít, að það fari oft töluvert eftir byggingunni sjálfri, hvort hún eigi að standa á rómantískum stað. Hv. frsm. minntist á 3 byggingar í Hafnarfirði, og mér finnst það rétt, að t. d. kirkjubyggingu er tilvalið að hafa á háum stað. Þar er hægt að sameina hið praktiska og hið monumentala. Kirkjubyggingar eru ekki notaðar daglega, og því hlýtur að gilda annað um þær en t. d. skólabyggingar. Við skulum taka t. d. barnaskólann og gagnfræðaskólann. Barnaskólinn stendur í kvos, en gott og indælt land í kringum hann. Og ætli það sé ekki betra að hafa börnin á skýlum stað til að leika sér en einhversstaðar hátt uppi, þar sem eilífur gjóstur væri? Það hljóta allir að sjá, að það er ólíkt skynsamlegra, þó að hitt gæti verið fallegra. Um Flensborgarskólann man hv. frsm. það sjálfsagt, að þegar hann var á döfinni, kom hv. frsm. suður eftir til að ræða um staðinn, og hann vildi ekki hafa skólann þar, sem hann er nú, heldur inni á Hvaleyri, langt frá bænum. Síðan var ritað um það í blaði, að bezti staðurinn væri þar, sem skólinn er nú, enda er sá staður ágætur, því að þó að hann liggi nokkuð hátt, er þar skjól, a. m. k. fyrir norðri og austri. Það varð og úr, að þarna var skólinn reistur, og allir Hafnfirðingar eru ánægðir. Ég segi fyrir mig, án þess að ætla að hrósa sjálfum mér, að það var ég, sem ritaði grein um, að þarna ætti skólinn að vera, svo að hv. frsm. getur ekki sagt, að ég hafi haft á móti því.