26.04.1938
Efri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (2765)

112. mál, stýrimannaskólinn

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Mér skilst á öllum þeim bv. þm., sem talað hafa, að enginn ágreiningur, sem máli skiptir, sé um till. Ég tók það fram í fyrri ræðu minni, að till. gerir ekki ráð fyrir öðru en að rannsaka möguleika fyrir því, að skólinn gæti verið á Valhúshæðinni. En ég er persónulega hlynntur því, að þarna gæti skólinn verið, og hefi enda ekki heyrt nein veigamikil rök gegn því í ræðum hv. þm. Hinsvegar kennir ofurlítils misskilnings hjá hv. 10. landsk. út af mínum ummælum um minnismerki um fallna sjómenn. Ég sagði ekki, að S.Í.F. væri að einoka málið, heldur rakti ég bara sögu málsins og minntist á, að S.Í.F. hefði skipað n. til að fjalla um það. Ég sló engu föstu um það, hvort heppilegt væri að blanda saman skólanum og minnismerkinu. Aðeins tel ég minnisvarðann annars eðlis en skólabygginguna. Hér er verið að koma á fót menntasetri, sem rúmað geti allar starfsgreinar sjómennskunnar. Þangað þurfa að sækja menntun sína stýrimenn og vélstjórar, auk loftskeytamanna, kokka og fleiri. Jafnframt þyrfti þarna að geta verið verklegur skóli. Ég veit ekki betur en að ríkið hafi álitið það skyldu sína að byggja slík skólahús, og hefir aldrei komið til greina, að samskota þyrfti við. Ríkinu ber sem sagt skylda til að gera þetta, og má hér ekki blanda saman óskyldum hugtökum. Ég skal ekki um dæma, hvernig minnismerkið á að vera. Ég skaut aðeins fram hugmynd, sem ég hafði heyrt talað um. En um það eiga auðvitað að fjalla færustu listamenn í landinu. Ég hefi óbreytta skoðun um það, að það ætti að vera í borginni sjálfri eða sem næst henni. Mér finnst ekki mega blanda þessu tvennu saman, enda hygg ég, að það eigi svo langt í land að safna fé til minnisvarðans, að skólabyggingin megi ekki biða eftir því. Mér skildist hv. þm. Hafnf. vera á líkri skoðun um þetta og ég.

Ég hygg, að það verði að síðustu sá almenni vilji, sem ræður, og enn er ekki tími til kominn að bera það undir atkv. manna.

Að síðustu vil ég óska þess, að ríkisstj. reyni að hraða þessu máli. Ástandið, sem nú ríkir, er með öllu ófullnægjandi. Bæði er um gamalt hús að ræða, sem var byggt með annað fyrir augum, og auk þess hefir starfssvið sjómannastéttarinnar víkkað og námsgreinar orðið fleiri en áður. Sú verklega kennsla, sem er talin nauðsynleg, hefir lítið húsnæði átt, loftskeytanemendur eru húsnæðislausir, matsveinar eiga hvergi heimili o. s. frv. Allt þetta þarf að taka til greina.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða meira till. sjálfa; það er ekkert atriði, hvar skólinn stendur, heldur aðeins að hann komist upp.