29.03.1938
Efri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

82. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

*Flm. (Jónas Jónsson):

Mikið af því, sem hv. 1. þm. Reykv. hefir minnzt á, eru atriði sem ég geri ráð fyrir, að verði ýtarlega rætt um í n., og ég segi fyrir mitt leyti, að ef málið kemur í þá n., sem ég á sæti í, en ekki í þá n., sem hann er í, þá vildi ég gjarnan, að hann kæmi á fund í n., af því að hann sem þm. Reykv. hefir mikið um þetta að segja.

Ég ætla ekki að fara beint út í umræður um mannaval í sambandi við þessa n. Það stendur þannig á, að Guðmundur Hannesson, fyrrv. heilsufræðisprófessor, er í raun og veru kominn út úr n., en þó getur hann að sjálfsögðu l. samkvæmt og vill gjarna vinna þarna lengur, og ég hygg, að eins og þessu er fyrir komið, þá sé það til bóta, frá því sem er nú, því að n. er tæplega fullskipuð, en annars held ég, að hv. 1. þm. Reykv. hafi gert of lítið úr því eðlilega við það, að vitamálastjóri sé í skipulagsnefnd. Það gæti vel verið, að hann eins og vegamálastjóri og húsameistari, væri miður heppilegur til þessa starfs. Þessir menn gætu verið frábitnir slíkum aðalstörfum. En hér í Reykjavík hefir það mjög mikið að segja fyrir skipulagninguna, hvernig hafnarmálunum er fyrir komið, og þar verður vitamálastjóri að vera eðlilegur þátttakandi sem hafnarmálastjóri.

Ef beinlínis er miðað við embættisstarf, og það er það eina, sem hægt er að gera, ef mennirnir eru ekki beinlínis valdir í n. á hverjum tíma, þá á að skipuleggja að höfnum, vegum og stærstu húsum sé ekki illa fyrir komið. En annars geta menn haft mismunandi skoðanir um þetta.

Hvað þessu 35% gjaldi viðvíkur, þá getur vel verið, að það mætti orða það ákvæði betur, eins og hv. þm. benti á, svo að ekki gæti leikið neinn vafi á, að þetta ætti að vera undir stjórn n. til þess að borga, samkvæmt ákvæðum, sem sett eru af henni og í sambandi við álit ríkisstj., kostnað og kaup þeirra föstu starfsmanna, sem að þessu vinna. Ég held, að þetta geti gengið eins og það er, en það er hægt að athuga það.

Um sjálfan skattinn er það að segja, að það er dálítill meiningarmunur um, hvernig hann eigi að vera, og ég get hugsað mér, að kannske eftir 2–3 ár þætti eðlilegt að breyta þessu að einhverju leyti, en þetta er í sjálfu sér lítill skattur, og settur eingöngu til þess, að hægt sé að hrinda þessu máli af stað yfirleitt og fá meiri vinnukraft til þess að vinna að skipulagsmálum, og kostnaðurinn, sem leggst á húseigendur með þessu, er eins og kostnaðurinn við byggingarleyfi, sem rennur til byggingarnefndar. Það er enganveginn fjarstæða að leggja það að jöfnu. Húsaeigendum kemur það mikið við, að gott skipulag sé á bænum, þó að það komi ekki sér í lagi við þeim, sem byggja ný hús. Ég lít meira á þetta sem bráðabirgðaákvæði, og mundi þingið þá taka ákvörðun um þetta síðar.

Viðvíkjandi því atriði, sem hv. 1. þm. Reykv. spurðist sérstaklega fyrir um, hvað langur tími mætti líða frá því, að skipulagsuppdráttur er lagður fram, þangað til hann er staðfestur, skal ég játa, að það er eitt af því, sem þarf að athuga vel í væntanlegri nefnd í samráði við borgarstjóra, og eins geri ég ráð fyrir, að húsamelstari og vegamálastjóri komi þar til greina. Ég vil slá því föstu, að það getur verið að þetta eigi að orðast öðruvísi, sérstaklega af því að þetta rekur sig á fyrirkomulagið í þessu efni hér í Reykjavík, þar sem hin venjulega vinna skipulagsnefndar hefir að nokkru leyti fallið niður, af því að það tókst ekki að fá staðfestan uppdrátt, og lóðarelgendur urðu að biða í óvissu, og það var ástæðan til þess, að hv. 1. þm. Reykv. kom með frv., sem samþ. var hér á þinginu 1932 og gaf Reykjavík vissa sérstöðu, en hún er dálitið hættuleg fyrir höfuðstaðinn, að því leyti, að það má segja, að skipulagsl. nái ekki nema að takmörkuðu leyti til Reykjavíkur, eins og stendur. Og ástæðurnar fyrir því að þessi undanþága var veitt, voru þær, að það hafði einhvernveginn verið of losaralega ákveðið áður, hvernig ætti að koma þessu fyrir. Vegna óánægju í bænum yfir töfinni á því, að endanlega yrði gengið frá skipulagsákvæðunum, var hér á Alþ. losað meira en góðu hófi gegnir um eftirlit og aðalreglur í þessu efni fyrir bæinn.

Eg þarf ekki að fara frekar út í þetta við þessa umr., en ég geri ráð fyrir, að það þurfi að athuga þetta atriði vel. Við höfum sett inn í frv. 2 ár sem tíma fyrir hverja bæjarstjórn og ríkisstjórn til þess að reyna að koma sér saman um, hvað sé heppilegt í þessu efni, en ég vil enganveginn slá því föstu, að það sé endilega alveg rétt, enda verða vafalaust teknar til greina skynsamlegar bendingar, sérstaklega að því er Reykjavík snertir, sem gætu orðið til þess að tryggja hennar skipulag.