26.02.1938
Neðri deild: 9. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

23. mál, byggingarsamvinnufélög

*Flm. (Gísli Guðmundsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 23, fer fram á það, að gerðar verði nokkrar breytingar á gildandi l. um byggingarsamvinnufélög, og er það tekið fram í grg., hverjar þessar breyt. eru. Aðalbreyt. er sú, að gert er ráð fyrir því, að í hverjum kaupstað sé aðeins eitt byggingarsamvinnufélag, í stað þess að samkvæmt núgildandi löggjöf geta þau verið og eru fleiri. Það verður að telja, að það sé á ýmsan hátt heppilegra, eins og nú hagar til um þessa starfsemi, að hafa eitt félag í hverjum bæ, m. a. sökum þess að l. gera ráð fyrir ríkisábyrgð á lánum þessara félaga, og þá er viðfelldnara, að ekki séu allt of mörg smáfélög, sem ríkið gengur í ábyrgð fyrir. Ef slíkt er lögtekið, verður að gera ráð fyrir, hversu með skuli fara þau félög, sem þegar eru stofnuð, og er ætlazt til þess í frv., að þegar slík félög ganga samar, í eitt stórt félag, þá komi félagsmenn í nýja félagið í þeirri röð, sem þeir gengu í eldra félagið, þannig að ekki raskist að neinu leyti við þetta sá réttur, sem menn kynnu að vera búnir að ávinna sér með því, að ganga inn í félögin. Svo eru smærri breyt. í frv., eins og niðurfelling stofnsjóðsgjalds, sem í rauninni verður að telja óþarft, og ákvæði um það, að þeir félagsmenn sitji fyrir lánum hjá slíkum félögum, sem hafa tekjur eða eignir undir ákveðnu marki.

Þetta frv. lá fyrir síðasta þingi og var þá visað til n., sem mun hafa leitað umsagnar núverandi byggingarsamvinnufélaga hér í bæ um þær breyt., sem farið var fram á, en hvort þær umsagnir hafa borizt, er mér ekki fullkunnugt um.

Ég vil leggja til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og allshn.