18.12.1942
Neðri deild: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

74. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Þetta frv. um skattfrelsi Eimskipafélags Íslands er sama efnis og frv., sem samþ. hafa verið á undanförnum 15 árum. Einstakir nefndarmenn í fjhn., er flutti frv., hafa um það óbundnar hendur.

Það má segja, að tími sé til þess kominn að taka skattfrelsi Eimskipafél. Íslands til athugunar. Eimskipafélag Íslands hefur verið það mikill þáttur í þjóðlífi okkar og haft svo mikla þýðingu fyrir landsmenn. Það eru gerðar kröfur til þess, að það taki meira tillit til þjóðarhags heldur en almennt á sér stað um hlutafélög. Þess vegna hefur þótt rétt af ríkisins hálfu að veita Eimskipafélagi Íslands á móti ýmis hlunnindi og fríðindi, eins og skattfrelsið hefur verið. Hins vegar hefur það svo verið um stjórn Eimskipafélags Íslands, að ríkið hefur ekki haft völd þar og hefur aldrei gert gangskör að því að tryggja sér nein yfirráð yfir félaginu í staðinn fyrir þann styrk, sem það fær. Ég álít nauðsynlegt, að Alþ. geri ráðstafanir til þess að tryggja sér meiri íhlutunarrétt en verið hefur yfir stjórn Eimskipafélags Íslands. Það er ósamrímanlegt til lengdar, að félagið sé algert hlutafélag annars vegar, en sé hins vegar knúð til að taka tillit til þjóðfélagsþarfa, en ríkið hafi samt ekki afgerandi áhrif á stjórn þess. Það hefði t.d. verið æskilegt, að Eimskipafélag Íslands hefði notað sér betur þau tækifæri, sem það hefur haft til að auka skipakost sinn.

Ég hygg, að nauðsynlegt væri milli 2. og 3. umr. að athuga, hvort ekki væri tímabært að gera þarna nokkra breyt. á. Ég geri ráð fyrir, að skattfrelsi félagsins verði á einhvern hátt að haldast. En það virðist eðlilegast, að ríkið fengi aukinn úthlutunarrétt um stjórn félagsins. Væri það hægt t.d. með því að lagður væri á það skattur, sem væri lægri heldur en annars mundi verða og borgaður með hlutabréfum, sem ríkið eignaðist.

Ýmsir nefndarmenn hafa óbundnar hendur um efni frv., þó að samkomulag væri um að flytja það, og hef ég nú gert grein fyrir því.