04.02.1943
Efri deild: 47. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

47. mál, hafnarlög fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Sjútvn, hefur fengið þetta frv. til athugunar og hefur orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt.

Þegar hafnarl. voru sett fyrir Hafnarfjarðarkaupstað árið 1929, var gert ráð fyrir því, að byggður yrði hafnargarður til skjóls fyrir höfnina. Það var aðeins gert ráð fyrir einum hafnargarði þá, og var áætlað, að hann mundi kosta 1 millj. kr. Framlag úr ríkissjóði til verksins skyldi nema 1/3 kostnaðar, en ábyrgð ríkissjóðs á hlutum hans. Snemma á síðasta ári var byrjað að byggja þennan eina hafnargarð, og er hann orðinn 165 m langur. Eftir er því að byggja af honum 85 m, og er ekki eftir af fénu til þessa verks nema 200 þús. kr.

Það hefur komið í ljós, að nauðsynlegt er að byggja annan hafnargarð inn af þessum hafnargarði, til þess að þessi áformaði garður komi að fullum notum. Það er áætlað, að kostnaður við að fullgera garðinn, sem byrjað er á, verði 700 þús. kr., en 3 millj. kr. kosti þeir báðir. Í frv. er lagt til, að bærinn fái 1 millj. kr. styrk og ríkisábyrgð fyrir 2 millj. kr.

Sjútvn. telur nauðsynlegt og sjálfsagt, að haldið sé áfram með þann garð, sem byrjað er að byggja, þangað til honum er lokið, vegna þess að ef hætt væri við garðinn nú, lægi hann undir skemmdum. Sjútvn. telur því tvímælalaust sjálfsagt að veita fé og ríkisábyrgð til þess að fullgera viðstöðulaust þennan garð. En um hinn garðinn óskar n. að taka fram, að þótt hún að sjálfsögðu viðurkenni, að sá garður sé nauðsynlegur og óhjákvæmilegt að byggja hann, þá sé það álitamál, hvort rétt sé að ráðast í það nú með því verðlagi, sem er í landinu. Telur n. nauðsynlegt að athuga vandlega hvaða tíma sé heppilegast að velja þessu verki. N. hefur hins vegar ekki séð ástæðu til að taka í frv. nein sérstök ákvæði um þetta, vegna þess að í 9. gr. hafnarl. fyrir Hafnarfjarðarkaupstað er svo ákveðið, að bænum er ekki heimilt að ráðast í neinar framkvæmdir sem þessar, nema fyrir liggi samþykki ráðh., áður en byrjað er á framkvæmdum. Sjútvn. telur þetta ákvæði fullnægjandi til þess að tryggja það, að vandlega sé rannsakað, áður en byrjað er á þessum framkvæmdum, hvenær tími sé heppilegastur til að ráðast í þær. Og með tilvísun til þessa ákvæðis, getur n. verið sammála um að mæla með, að frv. sé samþ. eins og það liggur fyrir.