09.02.1943
Efri deild: 51. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

133. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Mál þetta er flutt af meiri hluta allshn. Hv. þm.

Str. (HermJ) hefur tjáð sig eigi reiðubúinn til að taka afstöðu til málsins, en eigi lýst sig andvígan því. En meiri hl. n. flytur frv.

Þetta frv. fer í þá átt að samræma kosningu í útvarpsráð við það, sem er um Menntamálaráð, þannig að hvortveggja n. sé kosin á fyrsta þingi eftir hverjar almennar alþingiskosningar. Bæði þessi ráð eiga að starfa að menningarmálum og hafa hliðstæðum og þýðingarmiklum störfum að gegna. Og sýnist eðlilegt, að sami kosningaháttur gildi um hvorttveggja. Enda er ljóst, að þar sem ætlazt er til þess, að útvarpsráð sé spegill af vilja Alþ., þá er rétt, að sá spegill sé í samræmi við vilja kjósendanna á hverjum tíma, eins og hann hefur komið fram við alþingiskosningar. Hér er því um sjálfsagða réttarbót að ræða. Og vil ég mælast til þess, að hv. d. afgreiði málið fljótt og vel. Málið hefur verið til rækilegrar umr. og íhugunar í þeirri n., sem flytur það, og sé ég ekki ástæðu til, að því verði vísað til n., en vonast til, að það gangi til 2. umr.