12.01.1943
Neðri deild: 30. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (2474)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Frsm. 3. minni hl. (Jón Pálmason). Herra forseti. Hv. þdm. hafa sjálfsagt veitt því athygli, að við hv. 2. þm. Rang., sem myndum 3. minni hl. n., höfum lagt til á þskj. 174, að frv. verði fellt. Til þess liggja þær orsakir, eins og fram er tekið í nál., að við teljum bifreiðaeinkasöluna hafa gefizt illa, og úr því að búið er að afnema hana, þá sé það engan veginn réttmætt að gera ráðstafanir til að endurvekja hana. Við lítum svo á, að það sé á allan hátt heppilegast, að þessar vörur séu allar í frjálsri verzlun, og sú reynd, sem þegar er fengin af þessari stofnun, ætti að færa mönnum nokkurn veginn heim sanninn um það, að það fyrirkomulag, sem verið hefur á þessum hlutum, er ekki heppilegt. Það, sem vakir fyrir flm., er, að það skapi ríkissjóði tekjur og þá líka bæjar- og sveitarfélögum, og að heppilegt sé að hafa alla bifreiðasölu á einni hendi. Viðvíkjandi fyrsta atriðinu, þá vil ég segja, að við hv. 2. þm. Rang. lítum svo á, að það væri mjög auðvelt að fá a.m.k. eins háar tekjur í ríkissjóð og til bæjar- og sveitarfél. með því, að þessar vörur væru í frjálsri verzlun, eins og með þessu fyrirkomulagi, án þess að varan þyrfti að verða dýrar í. Þá er víst, að meginkostnaður rekstrar einkasölu, slíkrar sem þessarar, er kostnaður, sem hægt er að komast hjá með frjálsri verzlun. Þær verzlanir, sem höfðu verzlun með vöru þessa og mundu hafa hana aftur, þyrftu ekki að auka rekstrarkostnað sinn hennar vegna að neinum mun og mundu því vera færar um að borga hærri skatta og útsvör. Í öðru lagi er þess að geta varðandi það, að betra sé að hafa bílaverzlunina alla á einni hendi, vegna þess að með því móti sé unnt að komast af með færri tegundir og hafa meiri birgðir, að reynslan hefur sannað hið gagnstæða. Tegundunum hefur fjölgað á árunum 1936 til 1941 úr 75 í 102. Og þar með er ekki öll sagan sögð, því að þær tegundir, sem bera sama nafn og nú, eru ekki hinar sömu í öllum tilfellum og 1936; það hafa orðið breytingar á þessu tímabili og þær mjög stórkostlegar. Þessi röksemd hefur því fallið um sjálfa sig í reynslunni. Ég efast um, að það yrði nokkur framför á þessu sviði, þó að einkasalan væri endurreist. Varðandi það atriði, að hægt sé að hafa meiri birgðir, ef salan er á einni hendi, þá hefur það sýnt sig, að það hefur verið meiri skortur á þessari vöru, sérstaklega fyrir stríðið, en ætla mætti, að þurft hefði að vera, ef um frjáls viðskipti hefði verið að ræða. Þar af leiðandi hafa þær birgðir, sem keyptar hafa verið nú á stríðstíma, verið keyptar hærra verði, eins og eðlilegt er, en það hefði ekki þurft að kaupa eins mikið fyrir þetta háa verð, ef birgðirnar hefðu verið fyrir.

Ég þarf ekki að telja meira fram þessu til sönnunar. En ég tel, að það sé alveg eins hægt að ná tekjum af þessari vöru með talsverðum tollum og eins auknum skatti, þótt hún sé seld á frjálsum grundvelli, og mér þykir trúlegt, að hið opinbera mundi fá fullt svo miklar tekjur á þann hátt sem það fær með því að hafa einkasölu. Varðandi brtt. hv. 2. þm. Reykv. skal ég ekki að svo stöddu segja, hvort heppilegt sé að láta bílstjórafélögin hafa sæti í úthlutunarnefnd, vegna þess að ég vil ekki láta koma til greina, að einkasalan verði endurreist. En ef hún verður endurreist og n. þarf að vera, þá er tími til að athuga, hvernig hana skuli skipa.

Um það, sem segir í grg. frv., að á siðasta Alþ. hafi verið lagt fram frv. til l. um að leggja niður bifreiðaeinkasöluna, en það ekki hlotið samþykki þingsins, af því að slík ráðstöfun hafi ekki þótt hyggileg, eins og á stóð, þá er því til að svara, að því fer fjarri, að hér sé farið með rétt mál. Frv. var lagt fram seint og kom ekki til þessarar þd. Það er því engin sönnun fyrir vilja Alþ., að frv. þetta var ekki samþ.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en vil mælast til þess við forseta, að hann láti ekki fara fram atkvgr. um þetta mál nema flestir hv. þdm. séu viðstaddir.