05.01.1943
Neðri deild: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Frumvarpi því, sem ríkisstj. hefur hér lagt fram um innflutning og gjaldeyrismeðferð, er fyrst og fremst ætlað að bæta úr þeirri þörf, sem skapazt hefur um breyttar ráðstafanir á innflutningsverzlun landsins vegna síbreytilegrar aðstöðu, sem styrjöldin hefur haft og mun hafa í för með sér.

Höfuðástæðan til þess, að núverandi innflutnings- og gjaldeyrisl. voru sett, var sú, að gjaldeyrir þjóðarinnar hrökk ekki fyrir venjulegum innflutningi, þess vegna þurfti að draga saman seglin og leitast við að láta gjaldeyriseignina standast á við innflutningsþörfina.

Á þessu hefur orðið gagnger breyting. Sú nauðsyn, er skapaði þau gjaldeyrislög, sem í gildi hafa verið undanfarið, er úr sögunni. Í stað þess hafa komið önnur viðfangsefni, er krefjast úrlausnar. Nú hafa hinir tveir gjaldeyrisbankar landsins undir höndum meiri erlendan gjaldeyri en þjóðin þyrfti að nota fyrir öllum nauðsynlegum innflutningi í heilt ár, þótt ekkert bættist við á þeim tíma. Gjaldeyrisskorturinn er því ekki sem stendur eitt af viðfangsefnunum. En styrjöldin hefur skapað okkur ný viðhorf og lagt okkur á hendur fleiri en eitt vandasamt viðfangsefni.

Greiðslujöfnuður landsins, þegar eingöngu er tekið tillit til útflutnings og innflutnings, hefur verið óhagstæður á þessu ári, sem nemur um 181/2 milljón kr. til nóvember loka. Þetta er einkenni sjúkdóms, sem er að búa um sig, og það er eins með þenna krankleika og flesta aðra, að það er hægara að koma í veg fyrir hann í byrjun en að lækna hann síðar, þegar sjúklingnum fer að elna sóttin. Ég mun ekki, meðan ég er ráðherra viðskiptamála, horfa á það aðgerðarlaus, að verðmæti innflutningsins verði til lengdar meira en gjaldeyristekjur landsins af útflutningnum og á þann hátt gangi til þurrðar sá gjaldeyrir, sem safnazt hefur erlendis undanfarin þrjú ár.

N. sú, er hafði á hendi samninga við Bandaríkin í fyrra, áætlaði, að landsmenn mundu þurfa að flyt ja að vestan um 120 þús. tonn af vörum, ef gengið væri út frá venjulegum óhindruðum innflutningi og gert væri ráð fyrir, að frá öðrum löndum fengist flutt kol, salt, olía og nokkrar aðrar vörur. Nú er svo komið af orsökum, sem ekki er ástæða til að rekja hér, að landsmenn hafa skipakost, sem aðeins getur flutt um helming þess vörumagns, sem gert var ráð fyrir, að þyrfti að flytja frá Ameríku.

Það getur því engum dulizt, að hér verður að sníða stakk eftir vexti og við verðum að nota þann skipakost, sem fyrir hendi er, á þann hátt, að þjóðin geti haldið áfram að lifa og starfa. Skipakostinn verður að nota til þess að flytja þær nauðsynjar, sem landsmenn þarfnast mest, og þær vörur, sem hægt er án að vera, verða látnar sitja á hakanum eða útilokaðar, þótt slíkt kunni að valda óþægindum einstaklingum eða félagsheildum.

Bandaríkin gerðu við okkur í fyrra hagkvæman og vinsamlegan viðskiptasamning. Bandaríkin hafa haldið þennan samning í hvívetna í orði og anda og þau hafa áframhaldandi sýnt okkur hjálpfýsi og vinarhug. En þrátt fyrir þetta verður íslenzka þjóðin að hafa það ríkt í huga, að þessi mikli vinveitti nábúi hennar berst nú fyrir lífi sínu í hinum stórfelldustu styrjaldarátökum, sem heimurinn hefur séð.

Þess vegna verða kröfur okkar, þrátt fyrir samninga, að vera sniðnar og mótaðar af fullri sanngirni og góðgjörnum skilningi á hinum risavöxnu og margþættu víðfangsefnum, sem Bandaríkin verða að fást við í baráttu sinni. Það má segja, að þarfir okkar séu litlar á mælikvarða hins mikla stórveldis, en þrátt fyrir það getum við ekki búizt við né gert kröfu til að vera miklu betur settir en þess eigin þegnar.

Með þeirri breytingu á innflutningsverzlun landsins, sem frv. þetta stefnir að, er gert ráð fyrir að geta á auðveldari hátt en nú er fullnægt þeim sjónarmiðum, er ég nú hef nefnt, og brugðizt skjótar og betur við þeim breytingum í verzluninni, sem nauðsynlegar verða, eftir því sem styrjöldin sogar til sín meira af hráefnum og vinnukrafti þjóðanna.

Eins og frv. ber með sér, er gert ráð fyrir, að Viðskiptaráð hafi með höndum ráðstöfun á öllum innflutningi til landsins, öllu farrými og á öllum gjaldeyri til vörukaupa og annarra nauðsynja. Enn fremur er því ætlað að hafa yfirstjórn verðlagseftirlits og vöruskömmtunar, lögum samkvæmt. Auk þessa verður því falið innkaup á vörum, sem nú eru keyptar frá Láns- og leigustofnuninni í Washington, fyrir milligöngu íslenzku innkaupsn. í New York.

Eins og sjá má af þessu, verður Viðskiptaráði falið mikið starf og mikið vald, enda er hugmyndin sú, að sameina í hendur velskipaðrar, sterkrar n. flest þau víðfangsefni, sem styrjöldin hefur snúið í fang landsmönnum á sviði viðskiptanna. Eins og nú standa sakir er þetta allt í brotum og þjóðinni er jafn nauðsynlegt að skipa þessum málum í samræmi við ástandið eins og að sporna gegn flóðbylgju dýrtíðarinnar.

Í 2. gr. frv. 5. lið er gert ráð fyrir, að Viðskiptaráð geti annazt innflutning brýnna nauðsynja, ef sýnilegt þykir, að innflytjendur sjái ekki þörfum þjóðarinnar borgið.

Ég vil taka fram, að hér er ekki landsverzlun á ferðinni, heldur heimild handa ríkisstj. til að sjá lífsafkomu þjóðarinnar borgið, ef bresta skyldi framkvæmd þeirra aðila, sem nú annast innflutning lífsnauðsynja. Ég ætla ekki hér að ræða með eða móti landsverzlun, en ég vil segja það og ætla, að ég tali af nokkurri þekkingu, að engin ríkisstofnun kaupir matvörur í Vesturheimi hagkvæmara verði en þeir tveir aðilar, sem nú annast þessi innkaup. Að því leyti eru opinber afskipti ekki nauðsynleg fyrir þjóðina, því að þau færa henni ekki lægra innkaupsverð né lægri dreifingarkostnað. Auk þess væri látið ónotuð tækni, starfskraftar, þekking og fjármagn, sem þessir innflytjendur hafa yfir að ráða. Ef hins vegar er deilt um það, hvort of mikill hagnaður er tekinn á dreifingunni, vil ég benda á það, að ríkishaldið hefur í hendi sér að koma í veg fyrir slíkt með algeru og skynsamlegu verðlagseftirliti, sem nú er verið að undirbúa. Í þessu sambandi vil ég lýsa yfir því, að þessi heimild verður því aðeins notuð, meðan ég fer með viðskiptamálin, að ekki verði á annan hátt séð þjóðinni fyrir lífsnauðsynjum, svo viðunandi sé. Sökum þess, að Viðskiptaráði er ætlað að hafa með höndum verðlagseftirlit, skal ég taka fram, að ríkisstj. mun næstu daga leggja fram nýtt frv. um það mál, og í samræmi við það frv., sem hér liggur fyrir.

Að síðustu vil ég minnast á breytingu á gjaldeyrisverzluninni, sem fram kemur í frv. Þar er gert ráð fyrir, að Landsbankinn fái eftirlitsrétt með kaupum á gjaldeyri með því að ákveða, að hann hafi einn kauparétt á erlendum gjaldeyri og Útvegsbanka Íslands verði falið umboð til að kaupa erlendan gjaldeyri, en að öðru leyti engin breyting á þeim viðskiptum, frá því sem nú er. Enn fremur að lögboðin verði ákveðin skipting milli bankanna á þeim gjaldeyri öllum, sem inn kemur. Ég tel nauðsynlegt, að einhver aðili hafi eftirlit með kaupum á erlendum gjaldeyri og því, að öllum gjaldeyri sé skilað fyrir útfluttar afurðir. Tel ég eðlilegt, að slíkt sé falið þjóðbankanum.