05.01.1943
Neðri deild: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Pétur Ottesen:

Herra forseti. — Það hefur nú þegar verið rætt allmikið um einstaka liði þessa frv., en það er þó eitt atriði, sem enn hefur ekki verið minnzt á, en mér þykir ástæða til að vekja athygli á og leita skýringa á hjá hæstv. ríkisstj.

Það er talað um það í 2. gr. frv., að eitt af verkefnum viðskiptaráðs sé að fara með verðlagseftirlit o.s.frv. Nú vildi ég spyrja hæstv. fjmrh., sem reifar þetta mál fyrir hæstv. ríkisstjórn, hvað í þessu felist, hvort það eigi einnig að felast í því verðlagsákvörðun. Ef svo væri, þá ætti viðskiptaráð einnig að taka að sér störf dómn. í verðlagsmálum í víðbót við þau störf, sem um ræðir í frv., og auk þess störf þeirra n., sem ákveða verðlag á innlendum afurðum. Þetta kemur ekki skýrt fram í frv., en það er nauðsynlegt, að það komi greinilega í ljós á þessu stigi málsins, hvað í þessum orðum felst.

Það hefur verið talað um, að viðskiptaráði væru falin mikil störf, og að með tilliti til þess mikla valds, sem það hefði, geti oltið á miklu fyrir afkomu alþjóðar, hvernig það hagar störfum sínum. Ríkisstj. getur þó gert starfssvið ráðsins enn víðtækara, sbr. það, sem stendur í 6. tölul. 2. gr.: „Fer með verðlagseftirlit og vöruskömmtun lögum samkvæmt svo og önnur þau mál, er ríkísvaldið kann að fela því.“ Ríkisvaldið getur því falið ráðinu hvers konar störf, sem vera skal og þá einnig framkvæmd þá, sem felst í ýmsum l. Í fyrri málsgr. 8. gr. frv., þar sem talað er um, hvaða lög séu úr gildi felld, stendur: Frá gildistöku þessara laga falla lög nr. 99/.1941 og önnur lög, sem fara í bága við þau, úr gildi: Það er, ef ríkisstj. ákveður, að viðskiptaráð skuli taka að sér framkvæmd, sem felst í einhverjum lögum, þá séu þau þar með úr gildi felld. Þess vegna getur vald og verksvið ráðsins orðið mun víðtækara en fram kemur á yfirborðinu í frv.

Ég vildi sem sagt vekja athygli á þessu við 1. umr. málsins, og ég óska upplýsinga hjá hæstv. fjmrh. um það, hvort vald víðskiptaráðs taki einnig til verðlagsákvörðunar. Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta frv., sem að sjálfsögðu gengur til n. og sætir að líkindum skjótri afgreiðslu með þeim breytingum, sem Alþ. kann að vilja gera á því. En ég vil bæta því við, að þótt þau tvö mál, sem hæstv. ríkisstj. hefur hingað til flutt, séu eðlilegur liður í baráttunni gegn dýrtíðinni í þessu landi, þá er þetta ekki nema lítið skref til þess að koma þessum málum í það horf, sem nauðsynlegt er fyrir íslenzkt atvinnulíf, því að mér skilst, að ef ekki verður hægt að koma verðlaginu innanlands, bæði afurðaverði og kaupgjaldi, í samræmi við verðlag á útfluttum afurðum, þá verður, ég vil ekki segja til einskis barizt, en það verður engan veginn tryggð eðlileg framþróun atvinnulífsins í landinu. Þess vegna verður annað og meira að koma fram, ef árangurs má vænta í baráttunni.