14.01.1943
Efri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Jónas Jónsson:

Ég vildi segja fáein orð um þetta mál, áður en það fer til n., og það fyrst, að þótt það sé eðlilegt um svo mikið nýmæli, að það sé rætt, er ef til vill óþarfi að hafa miklar umr. um það, meðan það er á þessu byrjunarstigi. En mér finnst ástæða til að taka það fram, að mikið af því, sem þetta frv. felur í sér, hefur sá flokkur, sem ég er í, Framsóknarflokkurinn, samþykkt að vilja styðja að í sambandi við umr. í 8 manna n. Hugsun okkar framsóknarm. var sú að setja ráð, sem hefði með þessi mál að gera og gæti haft stjórn þeirra á hendi á auðveldari hátt en hægt er með þessum mörgu n. Innflutnings- og gjaldeyrisn. hafði mikið vald, en starf hennar var í molum, vegna þess að hún var sameinuð af mörgum aðilum. Þar með er ég ekki að segja, að allir hafi ekki viljað það bezta, en þar komu fram öll þau mismunandi sjónarmið víðvíkjandi gjaldeyrismálum, sem hægt var að fá í landinu. Það hefur verið unnið vel af þessum mönnum, og það er ekki hægt að kvarta neitt í sambandi við störf þeirra, en þetta kerfi vantar þann einhug, sem þarf á tímum eins og núna eru. Ég vildi ekki láta þetta frv. fara svo til n., að það kæmi ekki fram, að sú hugsun, sem í því er, hefur verið rædd a.m.k. í einum flokkanna. Hitt er annað mál, að það er ekki hægt að segja, að í þessu frv. komi fram allt það, sem við framsóknarmenn töldum æskilegt, en hinu er ekki hægt að neita, að við vildum, að um þennan samdrátt gæti verið að ræða. Það var ekkert talað um það, hvernig þessi n. ætti að vera skipuð, og það, sem ég segi um það, er frá mínu eigin brjósti, en hitt virðist mér koma bert fram í tilraunum þeirrar ólukkulegu 8 manna n., sem reyndi í 6 vikur að finna sameiginlegan grundvöll, að þessi grundvöllur er ekki til, og það er ekki af því, að menn vilji ekki vinna saman, heldur af því, að menn hafa svo mismunandi skoðanir á því, hvernig eigi að taka á málunum í augnablikinu, og þess vegna get ekki ver ið um myndun stj. að ræða. Það er heldur ekki úr vegi að minna á það, að þegar ekki eru liðnar nema nokkrar vikur, síðan þ. gafst upp við að mynda 5 manna ráð, þá eru ekki miklar líkur til, að menn úr þessum flokkum verði nægilega samtaka um það að gera það, sem gera þyrfti í þessu efni. Ég efast a.m.k. um það. Og það er ekkert annað, sem gerir það, að mér finnst ég geta greitt atkvæði með þessu, en það, að mér finnst þetta vera eina ráðið, til þess að n. geti haft framkvæmdamöguleika. Nú getur komið til mála, þótt þingið samþykki, að stj. skipi þetta ráð og stj. geri það, að það verði lélegt og stj. verði að skipta um menn í því, svo að vinna þess komi að gagni, og sömuleiðis hitt, ef að því kæmi, að stj. færi, þá virðist mér eðlilegt, að ný stj. mundi hafa annað sjónarmið og skipta um alla mennina í ráðinu. Ég veit ekki, hve ánægðir við yrðum með þá stj., sem kæmi í febrúar, marz eða í vor, en við vitum, hvernig skilyrðin eru nú, ag viljum, að stj. fái — þótt við séum ekki að öllu leyti sammála henni — möguleika til að starfa og fella hana svo, ef hún getur ekki unnið, en það versta, sem fyrir eina stj. getur komið, er það, ef hún missir trúna á, að hún geti gert gagn. Ég álít, að undir eins og svo er komið eigi stj. að skila af sér til ríkisstjóra, að hún eigi að segja af sér, þegar hún getur ekki stjórnað lengur, vegna þess að sundrungin í þjóðfélaginu er orðin svo mikil.