14.01.1943
Efri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég þurfti ekkert að leiðrétta og leiðrétti ekki neitt. Hv. þm. tók skakkt eftir. Annars er sannleikurinn sá, að það er ekki eins og ríkisstj. sé án allrar heimildar frá þ. Hún hefur þegar í höndunum víðtækar heimildir til ráðstafana gegn dýrtíðinni, þó að hún sé ekki búin að fá allt það samstarf, sem hún þarf að hafa. Hún hefur kallað eftir meira fé, og ég býst við, að nokkuð mikill hluti af þeim ráðstöfunum, sem gera þarf, sé að veita ríkisstj. það fé, sem hún þarf.

Hv. þm. S.-Þ. talaði um, að heppilegra væri, að ríkisstj. leitaði nánara samstarfs við Alþ. um skipun þessarar n. Þetta er talað undir rós, og ég veit ekki, við hvað hv. þm. á. Ég held, að hann eigi við, að stj. hefði átt að biðja þ. að kjósa þessa n. Ég skal ekki um segja, hvernig það hefði gengið, en mig undrar það ekki, þó að ríkisstj. sé ekki að tefja sig frá öðrum störfum með því að ganga á milli þingflokkanna, eftir að hún er búin að horfa á Alþ. reyna að koma sér saman við sjálft sig um skipun annarrar n., nefnilega ríkisstj. sjálfrar, enda álít ég nauðsynlegt, að stj. tryggi sér, að hún geti starfað með þessu framkvæmdaráði. Mér skilst, að ríkisstj. hafi leitað hins eðlilega samstarfs við Alþ., nefnilega að koma fram með frv. Ef Alþ. samþ. það, hefur það náðst, sem hv. þm. S.- Þ. var að tala um. Alþ. sýnir stj. mikið traust með því að samþ., að hún skuli sjálf skipa þetta ráð. Ég vil láta í ljós þá innilegu ósk, að ríkisstj. geti náð samstarfi við Alþ. í þessu máli, því að það er rétt h já hv. þm. Str ., að mikil átök eru framundan, sem engin ríkisstj. getur valdið, nema í samstarfi við Alþ. En það er ástæðulaust að vera með hótanir eins og hv. þm. S.- Þ. Ríkisstj. er einmitt að óska eftir samstarfi við Alþ.