14.01.1943
Efri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Dómsmrh. (Einar Arnórsson):

Ég skal ekki lengja umr., en vil aðeins taka fram frá eigin brjósti fáein atriði, og mæli ég þá ekki fyrir hönd ráðuneytisins. Það, sem fyrir mér vakir um nefndarskipunina og að ráðuneytið skipi hana, er, að í hana fáist menn, sem ráðuneytið getur treyst vegna þreks þeirra, réttvísi, kunnáttu og óhlutdrægni. Það má ekki skilja orð mín svo, að ég álíti ekki, að stjórnmálaflokkarnir hafi sama sjónarmið um þessa menn, en ég þykist vita, að hver flokkur mundi velja mann, sem honum væri flokkslega háður, þannig að hætta yrði á, að flokks- eða stéttarsjónarmiða gætti um of og erfitt yrði að komast að niðurstöðu. Ég vil ekki neita því, að okkur ráðherrunum getur missýnzt líka, en fram hjá þessum ásteitingarsteini mætti þó stýra. Ef við yrðum svo óheppnir að velja vonda menn, höfum við líka rétt til að skipta, en ef þingflokkarnir kysu mennina, hygg ég, ef við reyndum að skipta, færum við út fyrir það vald, sem okkur væri gefið.

Það er líka annað, sem vakir fyrir mér. Það er vitanlegt, að um margar n., sem þingflokkarnir hafa skipað, hefur staðið mikill styr í blöðum landsins. Sumar þær ádeilur eru e.t.v. ekki á rökum byggðar, en það er svo, að hvert flokksblað finnur hjá sér köllun til að ráðast óvægilega á fulltrúa andstæðingaflokka í ýmsum n. Nefndarmenn hafa meira að segja hlaupið í að svara slíku, oft af litlu tilefni. En fyrir mér vakir að fá fullkominn vinnufrið um n., að enginn fyndi köllun til að ráðast á hana, af því að hún væri skipuð pólitískum andstæðingum. Hins vegar vil ég ekki mæla n. undan réttmætri gagnrýni, heldur vil ég, að hún sé í friði fyrir persónulegum árásum að tilefnislausu.

Það þarf ekki að taka það fram, að þetta er framkvæmdarráðstöfun, sem heyrir undir framkvæmdarvaldið, þó að sá háttur hafi verið á nú um nokkurt skeið, að þingflokkarnir hafi tekið meiri þátt í administratíóninni en nokkurn tíma var til ætlazt. En það er auðvitað, eins og hv. þm. S.-Þ. minntist á, ef þ. trúir ekki stj. fyrir að fara með þetta mannakjör, ætti stj. að mælast til þess við Alþ., að það skipi aðra stj. Ráðuneytinu leikur ekki hugur á að sitja í óþökk meiri hl. Alþ. Alþ. og stjórnmálaflokkarnir mega ekki halda, að það sé tilætlun ráðuneytisins að reita flokkana til reiði. Við álítum, að þetta sé rétt aðferð, og við verðum ekki ásakaðir, þó að við höldum fram því, sem við teljum réttast.