16.01.1943
Efri deild: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Gísli Jónsson:

Í sambandi við till. mína á þskj. 213 vil ég leggja mjög mikla áherzlu á, að d. athugi þetta vel, þegar gengið er til atkvgr. um þetta mál. Við höfum sorglega reynslu af því

frá fyrri tíma, að þær vátryggingaupphæðir, sem fengust í erlendum gjaldeyri fyrir skip, sem töpuðust, voru teknar til annars en að halda við flotanum. Tilgangur till. er sá að fyrirbyggja, að þetta geti komið fyrir. Það er tvímælalaust ekki aðeins réttlátt, heldur viturlegt að setja undir allan þann leka, að ekki sé hægt samkvæmt lagafyrirmælum að ganga á útveginn íslenzka. En það eru fyrst og fremst framleiðslutæki útvegsins, sem langmest skapa gjaldeyrinn annars vegar og langmest veita atvinnu hins vegar. Þetta er engan veginn til þess að rýra vald Viðskiptaráðs. Þetta væri víðurkenning Alþ. á því, að því bæri að setja um þetta atriði sérstök lagaákvæði, vegna þeirrar nauðsynjar, að flotinn fái a.m.k. að standa í stað og helzt að aukast. Þegar skattfrelsi var veitt fyrir það fé, sem sett var í nýbyggingarsjóð, var ákveðið takmark sjóðsins eingöngu endurbygging flotans. Alveg sjálfsögð afleiðing af þeirri ráðstöfun er, að því fé sé haldið innan slíkra takmarka og ekki sé leyfilegt að taka það fé til nokkurs annars. Í útlöndum er a.m.k. andvirði tveggja stærstu togara Íslands, sem við höfum misst, og hefur ekki enn þá verið flutt heim. Ég hygg, ef þessi brtt. verður felld, þá séu engar hömlur á því, að féð verði yfirflutt og notað til alls annars. Annað mál er, að það er að vísu hægt að tryggja þetta með reglugerð. En ef það er meiningin, að nota þetta til flotans aftur, þá má alveg eins setja þetta strax í l., því að reglugerð er að sjálfsögðu hægt að breyta, ef breytt er um menn í stj. og Viðskiptaráði. Ég hygg því, ef þessi till. mót von minni verður felld, þá sé nauðsynlegt að setja l. á þessu þ. til að tryggja þetta fé, og tel ég það ekki heppilegri úrlausn en að koma sér saman nú um að bæta þessu við 4. grein. Það verður ekki annað hægt en að láta undan þeim kröfum sumpart sjómanna og sumpart annarra stétta um að viðhalda flotanum, eftir því sem hægt er, og taka ekki fé frá þeim atvinnuvegi til að setja, hvort heldur sem er í verzlun eða húsabyggingar eða eitthvað annað, sem þáverandi stjórn og Viðskiptaráði kann að þykja heppilegt á hverjum tíma.