16.01.1943
Efri deild: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Hermann Jónasson:

Það er út af brtt. á þskj. 213. Í sjálfu sér álít ég rétt, að ekki verði færð frambærileg rök fyrir því, að ekki sé eðlilegt að flytja þetta fé heim, ef nægilega vel er um hnútana búið, þannig að því verði eingöngu varið í því skyni, sem í till. segir.

Annað atriði vil ég sérstaklega benda á í sambandi við þessa brtt. Þegar l. voru sett, sem ákváðu, að fjármunir væru lagðir til hliðar til nýbyggingarsjóða, þá voru gefnar þær skýringar á því atriði af þeim hæstv. viðskmrh., sem þá var við völd, hv. 2. þm. S.M. (EystJ), að í raun og veru væri þetta fé sameign ríkissjóðs og þeirra, sem þetta fé væri tekið frá til að leggja það til hliðar. Og það hafa átt sér stað nokkur skrif um þetta atriði. Og m.a. hefur fyrrverandi hæstv. forsrh., hv. þm. G.-K. (ÓTh), tekið upp þessi ummæli fyrrverandi viðskmrh., þar sem hann virðist fallast á þessa skoðun hans, og hefur sett það fram sem skýringu á því, hvað löggjöfin hafi í raun og veru gengið langt í skattamálum, að unnt væri að taka a.m.k. helming af tekjum þessara sjóða, ef ekki meira, til eignar í ríkissjóðinn. Og það er ekki langt síðan komið hefur fram til viðbótar þessu skýring frá einmitt núverandi hæstv. dómsmrh., skýring, sem hlýtur að vekja mjög mikla athygli vegna þess að hér er um mjög merkan lögfræðing að ræða. En af þessum ástæðum og þeim skýringum, sem fram hafa komið víðvíkjandi þessu geymda fé — og án þess að ég fari nánar inn á þau atriði — þá tel ég vafasama aðferð, að með brtt. sé verið að blanda saman við annað að einhverju leyti fjármunum, sem mér þykir líklegt, að útgerðarmenn vilji líta á öðrum augum, og líta þannig á, að þeir hafi meiri réttindi til heldur en þessara, sem lagðir hafa verið í nýbyggingarsjóðina, ef skýringar, sem fram hafa komið viðvíkjandi þeim, eru réttar. En ég hygg, að ég muni það rétt, að vátryggingarféð og það fé, sem nú er bundið erlendis, komi ekki undir ákvæði um nýbyggingarféð, og þess vegna ekki undir þau ákvæði, sem skýrð hafa verið með þessum hætti, sem ég hef nú greint. Ég álít, ef nýbyggingarféð er háð þessum reglum, þá sé vafasamt að taka fjármuni sem þessa, vátryggingarféð, eins og gert er ráð fyrir í brtt. á þskj. 213, og blanda því að einhverju leyti saman við fjármuni, sem nú er litið á, að séu sameign ríkis og útgerðarmanna, ef þá ekki fremur eign ríkissjóðs, samkvæmt þeim skýringum, sem fram hafa komið um það atriði.