05.11.1952
Sameinað þing: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (2495)

57. mál, bátaútvegsgjaldeyrir

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Sá hv. þm., sem síðast talaði, og einnig hv. 8. landsk. hafa lagt mikla áherzlu á það, að ríkisstj. hefði borið að leggja undir Alþ. þær breyt., sem gerðar voru með svo kölluðum bátalista. Ég hef nú haldið því fram, en ætla ekki að fara nánar inn á það hér, að þetta sé löglega gert og hafi ekki þurft að bera undir Alþ.

En eitt vekur talsverða furðu, þegar litið er til fortíðarinnar, og það er, að hv. 8. landsk. þm., sem var forsrh. á árinu 1949, samþykkti þá sem form. stj., að sett væri á stofn nákvæmlega sams konar skipulag eins og þeir nú eru að fordæma. Þetta skipulag var þá kallað hrognagjaldeyririnn. Nú er það kallað bátagjaldeyririnn. Við skulum sjá, hver munur er á þessu tvennu skipulagi. Hv. 8. landsk., form. Alþfl., var forsrh., þegar þetta gerðist. Hv. þm. Hafnf., einn aðalforingi Alþfl., var þá viðskmrh. Það var því undir forsæti þessara tveggja hv. þm., sem eru mestu valdamenn Alþfl., að þessi aðferð var tekin upp í byrjun. Og það getur vel verið, að bátagjaldeyrisskipulagið hefði aldrei komizt á laggirnar, ef þessir hv. þm. hefðu ekki verið búnir að leggja áður á ráðin um, að hrognagjaldeyririnn kæmist á. En af hverju er hrognagjaldeyririnn settur á laggirnar? Af þeirri einföldu ástæðu, að margar greinar sjávarútvegsframleiðslunnar báru sig ekki. Það voru afurðir, sem ekki var hægt að selja til útlanda á framleiðslukostnaðarverði, og þess vegna höfðu menn ekki neinn hag af því að hirða þessar vörur og því síður að selja þær. Þeim var gert kleift að selja afurðirnar með því að gefa þeim viss fríðindi. Það er nákvæmlega sama aðferðin og hefur verið höfð við bátagjaldeyrinn. Framleiðendum er hjálpað til að framleiða sjávarafurðirnar á bátaflotanum með því að gefa þeim fríðindi. Og þessi framleiðsla, sem er stærsta framleiðslugrein sjávarútvegsins, mundi ekki vera í starfi í dag, ef þetta hefði ekki verið gert eða eitthvað annað, sem hefði komið að sömu notum. En hvernig var svo þessi hrognagjaldeyrir? Hann lá í því, að mönnum var gefin heimild til þess að ráðstafa andvirði nokkurra útflutningsvara og kaupa fyrir erlendar vörur til innflutnings. Innlendu afurðirnar voru hrogn, gellur, faxasíld, smásíld, sundmagi, hákarlalýsi, reyktur fiskur o. fl. Fyrir þessar vörur var mönnum gefin heimild til þess að flytja inn m. a. gólfteppi, snyrtivörur, reiðhjól, ljósakrónur, niðursoðna ávexti o. fl. Menn máttu leggja á þessar aðfluttu vörur eftir því, sem þeir þurftu, til þess að framleiðslukostnaður innlendu afurðanna fengist greiddur. Mér finnst nú, að hv. þm. Alþfl., sem hér hafa talað mjög digurbarkalega um þetta í dag, ættu að líta til fortíðarinnar, og er ekki líklegt, að eins hátt verði á þeim risið, þegar þeir eru búnir að gera sér grein fyrir, hver upphafinu veldur.