26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (2499)

57. mál, bátaútvegsgjaldeyrir

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það er nú liðinn hálfur mánuður síðan ég kvaddi mér hljóðs í sambandi við þetta mál, svo að ég man nú kannske ekki nákvæmlega, hvað ég hafði ætlað mér að segja. En það, sem var orsökin til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var, að hæstv. viðskmrh. lét þau orð falla um bátagjaldeyrisfyrirkomulagið, að það væri í fyrsta lagi verk okkar Alþfl.-mannanna og í öðru lagi væri það nákvæmlega sama fyrirkomulagið sem gilti nú eins og við hefðum komið á og kallað hefði verið hrognapeningakerfi hér fyrir nokkrum árum. Ég vildi ekki láta þessum ummælum ráðh. ómótmælt, og þess vegna kvaddi ég mér hljóðs.

Út af fyrra atriðinu, að hrognagjaldeyririnn hafi verið verk Alþfl., skal ég leyfa mér að segja það, að þetta greiðslukerfi, ef kerfi skyldi kalla, var sett á gegn okkar mótmælum, en ekki fyrir okkar tilstilli. Það vorum ekki við, sem áttum frumkvæðið að því, heldur allt aðrir, en hitt er það, sem er rétt 5 ummælum ráðh., að við gerðum ekki gegn því það ströng mótmæli, að við víkjum úr stjórninni þess vegna. En ég vil alveg frábiðja mér, að við höfum átt nokkurt frumkvæði að því.

Í öðru lagi vil ég halda því fram, að þetta kerfi hafi verið allt annað en það, sem nú gildir um bátagjaldeyrinn. Nú er bátagjaldeyriskerfið þannig, að það er lagt á innflutning fjölda neyzluvara skattgjald til þess að bæta útflytjendum, sem flytja út sjávarafurðir, verðið á aðalútflutningsvörunni, en kerfið, sem tekið var upp 1948 og 1949, var eingöngu á því byggt að reyna að koma út úr landinu vörum, sem voru á annan hátt óseljanlegar, og í mjög smáum stíl. Þessar vörur voru smásíld, gellur, kinnfiskur, sundmagi, hákarls- og háfsskrápur, hákarlslýsi, alls konar fiskroð, reyktur fiskur, fryst faxasíld og eitthvað smávegis af öðrum álíka útflutningsvörum, sem alls ekki höfðu verið fluttar út áður. Ég tel því, að það standi mjög öðruvísi á um útflutning þessara vara, sem þarna eru nefndar, heldur en nú, þegar flutt er út aðalútflutningsvaran með þessu svo kallaða álagi.

Ég skal að öðru leyti ekki blanda mér í það efni málsins, sem hér liggur fyrir, að Alþ. lýsi yfir ólögmæti þessara ráðagerða, en ég taldi, að þessi ummæli ráðh., sem ég hef nú nefnt, mættu ekki standa ómótmælt, og þess vegna hafði ég kvatt mér hljóðs.