26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (2500)

57. mál, bátaútvegsgjaldeyrir

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Mig furðaði allmikið á því, að hv. þm. Hafnf. skyldi nú fara að ómaka sig til þess að mótmæla þessu, sem ég sagði um gotugjaldeyrinn. Ég skil ekki, að hann græði mikið á þeirri samlíkingu, sem þar verður að gera. Hann sagði, að þetta skipulag hefði verið sett á gegn mótmælum sínum og þáverandi forsrh. og gegn þeirra vilja. Ef þeir ekki vildu, að þetta væri gert, þá áttu þeir náttúrlega að segja af sér embætti. Ef þeir sitja áfram og þetta er gert gegn vilja þeirra, þá bera þeir að sjálfsögðu sömu ábyrgð á þessari framkvæmd og aðrir ráðh., enda skildist mér á hv. þm., að hann viðurkenndi það, að hann, sem þá var viðskmrh., og forsrh. hefðu borið sömu ábyrgð á þessu máli og aðrir ráðh.

Þetta svo kallaða gotufyrirkomulag var byggt upp á sama hátt og nú er um bátagjaldeyrinn, þótt framkvæmdin væri lítils háttar öðruvísi. Það voru fjöldamargar vörur, sem þarna komu til greina, eins og t. d. niðursuðuvörur, gólfteppi, olíukyndingartæki, reiðhjól, snyrtivörur, skjalaskápar, ljósakrónur, þvottavélar, íþróttavörur, þakjárn og þakasbest, gúmmískófatnaður, linoleum, grammófónplötur, vélar í verksmiðjur, ljósmyndavörur og ljósmyndaefni, pípur og pípuhlutar, tilbúinn fatnaður frá Tékkóslóvakíu. Menn sjá af þessu, að það eru svipaðar vörutegundir, sem þeim hefur nú hugkvæmzt að taka inn á gotulistann, eins og þær, sem þeir eru nú á hverjum degi að fárast yfir að hafi verið teknar inn á bátalistann.

Þeir tala mikið um það, hve mikið sé álagið á bátalistanum, þar sem útvegsmenn leggi 60% á þann gjaldeyri eða þau réttindi, sem þeir selja innflytjendum. Ég vil í því sambandi upplýsa, að í viðbót við innkaupsverð með öllum kostnaði og venjulega verzlunarálagningu var lagt á gotuvörurnar í sumum tilfellum yfir 100%, svo að menn sjá af því, að það hefur ekkert vægara verið farið í sakirnar þá í sambandi við þetta skipulag heldur en nú er við bátagjaldeyrinn. Ég er satt að segja alveg hissa á því, að hv. þm. Alþfl., og þá ekki sízt hv. þm. Hafnf., skuli vera að reyna að berja í brestina og neita því, að þetta skipulag sé það sama og nú er með bátagjaldeyrinn, sem hv. þm. gera sér mikið far um að telja fólki trú um að sé óferjandi og óalandi á allan máta.