26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (2502)

57. mál, bátaútvegsgjaldeyrir

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af síðustu ræðu hæstv. viðskmrh. Af ræðu hans hér fyrir hálfum mánuði varð ekki annað ráðið, en hann héldi því fram, að Alþfl. hefði staðið fyrir því kerfi, sem lögleitt hefði verið 1949 og 1948 og almennt gekk undir nafninu gotupeningar. Hann viðurkenndi það þó nú, að svo hefði alls ekki verið, enda kom frumkvæðið — og það er sannanlegt — allt annars staðar frá og Alþfl. var á móti því.

Þá var ekki önnur röksemd eftir hjá hæstv. ráðherra heldur en sú, að Alþfl. hefði þá, ef hann vildi ekki taka þetta upp, átt að segja af sér. Þegar um samstjórn er að ræða, þá verður hver flokkur um sig jafnan að meta það, hvort hann vill segja af sér fyrir þessar eða hinar sakir. Sum ágreiningsefnin eru það lítil, að það er látið kyrrt liggja, þó að menn séu á móti, en það er fyrst, þegar hin stærri koma fram, sem ágreiningurinn verður það mikill, að flokkur dregur sig út úr samstarfi.

Þá erum við komin að hinu atriðinu, sem ég tel máli skipta í þessu sambandi, að þetta fyrirkomulag, sem hér hefur verið stofnað til, bátagjaldeyrisfyrirkomulagið, tel ég vera á allt annan veg heldur en það fyrirkomulag, sem stofnað var til 1948 og 1949. m. a. vegna þess, að þær upphæðir, sem þar gat verið um að ræða, voru svo óskaplega misjafnlega háar. Árið 1948 og 1949 var eingöngu að tala um lítið verðmæti af torseljanlegum vörum, sem ég nefndi í minni fyrri ræðu. Og þetta litla magn af þessum torseljanlegu vörum gat aldrei haft í för með sér, að mikið magn yrði selt á þann sama veg sem nú er gert. Þetta er höfuðmismunurinn á því kerfi, sem nú hefur verið upp tekið, og hinu, sem kom til framkvæmda 1948 og 1949. Magnið var mjög lítið í öðru tilfellinu og hafði sáralitla þýðingu fyrir hina almennu efnahagsstarfsemi í landinu, en nú hefur verið samþ. með bátagjaldeyrisfyrirkomulaginu, að um helmingur alls útflutnings bátanna skuli vera með þessu álagi, sem kostar þjóðina svo tugum millj. króna skiptir og jafnvel allt upp að 100 millj. kr., en 1948 og 1949 var aðeins um smávægilegar upphæðir að ræða og lítið brot af þessu. Hæstv. ráðh. sagði, eins og ég tók fram, að ef alvara hefði verið í ágreiningi Alþfl. 1948 og 1949 við hina flokkana um þetta mál, þá hefði hann átt að segja af sér. Ég þori að fullyrða, að ef bátagjaldeyrisfyrirkomulagið, eins og það liggur nú fyrir, hefði verið uppi þá, þá hefði svo farið. En þar sem magnið var eins lítið og ég nefndi, þá var um allt annan hlut að ræða. — Þetta vildi ég aðeins láta koma fram og ekki láta ómótmælt fullyrðingum ráðherrans.