12.11.1952
Sameinað þing: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (2820)

223. mál, fjárhagsráð

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í umr. um verðlagsmál hefur þess mjög verið getið af hálfu þeirra, sem andvígir eru verðlagseftirliti, að það sé mjög dýrt í framkvæmd. Manni hefur jafnvel skilizt, að stórar fjárhæðir hafi sparazt, um leið og verðlagseftirlitið var nær alveg afnumið fyrir tveimur árum. Að minnsta kosti hefur það verið sagt hvað eftir annað í umr. hér á hv. Alþingi, að baráttan fyrir því, að verðlagseftirlitið yrði tekið upp á ný, sé barátta fyrir því að auka stórlega skrifstofubákn ríkisins. Af þeim sökum mundi skrifstofukostnaður fjárhagsráðs vaxa stórlega, manni hefur jafnvel skilizt um mörg hundruð þúsundir króna. Af þessu tilefni eru þessar fyrirspurnir fram bornar. Það er spurt um, hversu margir menn hafi unnið hjá fjárhagsráði 1950 og 1951 og hversu miklu launagreiðslur til þeirra hafi numið. Það er enn fremur spurt um, hversu margir menn hafi unnið við verðgæzlu og verðlagseftirlit á sömu árum og hversu miklu greiðslur til þeirra hafi numið. Og í síðasta lagi er spurt um, hversu mörgum mönnum hafi verið sagt upp störfum, um leið og verðlagseftirlitið var afnumið, og hversu miklu nemi sparnaðurinn af þeim sökum. Tilefni þessara fyrirspurna er sem sagt það eitt, að það hefur þegar verið látið í veðri vaka hér á hv. Alþingi, að kostnaðurinn af nýju verðlagseftirliti mundi verða gífurlegur.

Ég vona, að svör við þessum spurningum leiði í ljós, hvort það er rétt eða ekki.