12.11.1952
Sameinað þing: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í D-deild Alþingistíðinda. (2821)

223. mál, fjárhagsráð

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég minnist nú þess ekki, að í umr. um verðlagsmálin hafi því verið haldið fram, að aðalástæðan fyrir því, að gefið var frjálst verðlagið að verulegu leyti, væri það, hversu mikið eftirlitið kostaði. En hv. fyrirspyrjandi virðist bera þessa fyrirspurn fram til þess að sanna það. Ég skal ekki fara út í málið frekar, en gefa þær tölulegu upplýsingar, sem um var beðið.

Í ársbyrjun 1950 voru 70 fastráðnir starfsmenn hjá fjárhagsráði og deildum þess, þ. e. innflutnings- og gjaldeyrisdeild, skömmtunarskrifstofu og verðlagsskrifstofu. Í árslok 1951 voru 40 fastráðnir starfsmenn í þjónustu fjárhagsráðs og deilda þess. Launagreiðslur til fastra starfsmanna voru árið 1950 1.887.413 kr., árið 1951 1.703.089 kr.

Í öðru lagi er spurt um, hversu margir menn hafi unnið við verðgæzlu og verðlagseftirlit og hve miklu greiðslur til þeirra námu árið 1950 og 1951. Þegar verðgæzlustjóri tók við verðlagseftirlitinu 1. okt. 1950, störfuðu á skrifstofu hans 14 menn. En í lok ársins 1951 voru þar 8 fastráðnir menn og 1 lausráðinn. Launagreiðslur til starfsmanna verðlagsstjóra og verðgæzlustjóra námu árið 1950 366.505 kr., en árið 1951 voru þær 465.205 kr. Auk þess störfuðu að verðlagseftirliti bæði árin, 1950 og 1951, 9 verðlagseftirlitsmenn utan Reykjavíkur. Þóknun til þeirra nam árið 1950 118.465 kr., en árið 1951 146.028 kr. Hjá fjárhagsráði störfuðu árið 1950 og 1951 4 menn við verðlagsákvarðanir, sem einnig unnu önnur störf í þágu ráðsins, og eru laun þeirra talin með í svari við fyrstu spurningunni, þar sem rætt er um laun starfsmanna fjárhagsráðs.

Þá er spurt: Hversu mörgum mönnum var sagt upp starfi vegna afnáms verðlagseftirlits, og hve miklu nemur sparnaður af þeim sökum. Samkv. framansögðu var starfsmönnum við verðlagseftirlit fækkað um 5 frá því í okt. 1950 til ársloka 1951. Fækkun starfsmanna fór fram seint á árinu 1951 og hefur því ekki veruleg áhrif á heildargreiðslur fyrr en árið 1952. Þá var og þóknun til trúnaðarmanna utan Rvíkur verulega lækkuð á árinu 1951. Heildarlaunagreiðslur verðgæzlunnar voru 1951 635.000 kr., en eru fyrir yfirstandandi ár áætlaðar um 500 þús. kr. Í sambandi við þetta má geta þess, að hámarksverð hefur ekki verið afnumið af öllum vörum. Enn þá eru nokkrir vöruflokkar undir hámarksákvæðum. Auk þess hefur verðgæzlustjóra verið falið að líta eftir verðlagi þeirra vara, sem frjálst verðlag er á. Við samanburð milli ára er rétt að taka tillit til þeirrar vísitöluhækkunar, sem hefur orðið á þessum árum, en sérstaklega er þó þess að gæta, að sparnaðurinn af þessum ráðstöfunum hefur aðallega komið fram á seinni hluta ársins 1951.