08.10.1952
Neðri deild: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

11. mál, tekjuskattsviðauki

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og fram kom í umræðum þeim, sem fram fóru í gær við 1. umr. fjárl., þá þarf ríkissjóður á ekki minni tekjum að halda næsta ár, en hann hefur í ár, og verður þó fullerfitt að afgr. fjárl., ef hægt á að vera að komast af með þær tekjur.

Það var á síðasta þingi sett mþn. til þess að íhuga um skattalöggjöf ríkisins og tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga. Eins og ég lýsti yfir í umr. í gær um fjárlfrv., þá er mér nú kunnugt um það, að nefndin hefur unnið allmikið starf, en hún hefur ekki enn þá skilað áliti. Þetta er líka geysilega flókið og erfitt viðfangsefni, því að það mun láta nærri, að um 200 millj. kr. séu nú innheimtar með beinum sköttum, þegar saman er lagt það, sem ríkið innheimtir, og það, sem bæjar- og sveitarfélög taka. Ég veit ekki, hvenær mþn. skilar áliti. Þegar við í fjmrn. vorum að útbúa fjárlfrv. og tekjuöflunarfrv., þá fannst okkur við ekki geta tekið aðra stefnu, en þá að gera ráð fyrir tekjum í fjárlfrv. eftir þeirri löggjöf, sem í gildi er nú, og sömuleiðis fannst okkur rétt að leggja fyrir til framlengingar sömu tekjustofna og notaðir hafa verið. Ég get ekki verið viss um það á þessari stundu, hvort til mála kemur yfirleitt að afgr. nýja skattalöggjöf á þessu þingi. Ég hef því, eins og ég tók fram áðan, tekið það ráð að leggja fyrir þessar framlengingar, líka þær, sem varða tekjuskattsviðaukann og lækkun skatts á lágtekjum og eru í þessu frv.

Ef viðhorfið í þessum efnum breytist eitthvað, þá er að sjálfsögðu hægt að taka tillit til þess við meðferð þessa máls. Það er ekki hægt að segja, að þessu máli liggi svo ákaflega mikið á. Það gæti vel legið ofur lítið lengur í nefndinni, sem fær það til meðferðar, á meðan viðhorfið í þessum efnum skýrist eitthvað betur. Með þessum formála vil ég leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði vísað til hv. fjhn.

Ég vil aðeins taka það fram, að það eru náttúrlega engar horfur á því, að ný skattalöggjöf geti orðið afgr. á þessu þingi, jafnvel þó að álit mþn. kæmi, nema því aðeins að heilsteyptur meiri hluti gæti myndazt um þá löggjöf í þinginu. Það mál er svo viðurhlutamikið, að ekki er til þess að hugsa, að það geti orðið afgr. öðruvísi, en að því standi einhver slíkur ábyrgur meiri hluti. Það er ekki til þess að hugsa, að orðið geti nokkurt vit i, að málinu væri kastað inn í þingið og það algerlega látið ráðast, þótt hver höndin yrði upp á móti annarri og skattalöggjöfin tætt í sundur, þannig að fullkomin markleysa yrði máske út. En slíkt gæti óneitanlega átt sér stað, ef ekki væri ábyrgur meiri hluti, sem stæði að málinu. — Ég vil endurtaka óskina um, að þessu frv. verði vísað til hv. fjhn.