08.10.1952
Neðri deild: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

11. mál, tekjuskattsviðauki

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í sambandi við þetta fyrsta tekjuöflunarfrv., sem hæstv. stjórn leggur fyrir þessa hv. deild, læt ég í ljós mikil vonbrigði yfir því, að hæstv. stjórn skuli ekki hafa treyst sér til þess að leggja fyrir þetta Alþingi frv. til nýrrar skattalöggjafar.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, — um það ætla ég ekki að fjölyrða að þessu sinni, —að skattalöggjöfin íslenzka er í þvílíku ófremdarástandi, að lengi er búið að vera til mestu smánar og við svo búið má ekki lengur standa.

Manni skildist á s.l. þingi, að stjórnin hefði mikinn hug á því að láta vinna að endurskoðun löggjafarinnar í sumar, þannig að hægt væri að leggja frv. um einhverjar endurbætur á þessu sviði þegar fyrir í upphafi þingsins. Það virðist ekki hafa tekizt, og læt ég í ljós vonbrigði mín út af því.

En að öðru leyti er það eitt atriði í þessu frv., sem mig langar til að minnast á. Aðalatriðið, lækkun skatts á lágtekjum, er að efni til gott, og því er ég fylgjandi — og minn flokkur, en það er ákvæði í 4. gr., sem mig langar til að vekja sérstaka athygli á og beina til hv. fjhn., sem málið fær væntanlega til meðferðar, að athuga sérstaklega. Ákvæðið er um umreikning tekjuskattsins og ákvörðun umreikningstölunnar 457.

Svo sem hv. þm. er vafalaust ljóst, er það hlutverk þessarar umreikningstölu að koma í veg fyrir það, að hækkun á krónutölu tekna ein valdi því, að menn greiði hlutfallslega hærri tekjuskatt en ella, sem auðvitað er óeðlilegt. Það er óeðlilegt að láta tekjuaukningu, sem einungis á rót sína að rekja til dýrtíðar, en er ekki raunveruleg tekjuaukning, valda aukningu á skattgreiðslu. Og þess vegna er í gildandi skattalögum ákvæði um umreikning skattsins, og á hverju ári undanfarið hefur umreikningstalan verið ákveðin í lögum. Þessi tala, 457, sem nú á að ákveða fyrir þetta ár, mun vera miðuð einvörðungu við aukningu á tekjum samkv. vísitöluuppbót, þ.e.a.s., henni er ætlað að vera vísitala, sem sýni tekjuaukningu, miðað við vísitöluuppbót. Það er hins vegar alveg augljóst, og þekkir það hver maður, að minnsta kosti hver launamaður, af eigin reynslu, að kaupmáttur tekna nú á því herrans ári 1952 hefur rýrnað meira, en svarar til vísitölu 457, miðað við grundvöllinn 1939, eða fyrir stríð, þ.e., aukning peningateknanna er meiri. Það er að vísu rétt, að vísitöluuppbót, þ.e. sú aukning á tekjum, sem orðið hefur vegna vísitöluuppbótar, er minni heldur, en tekjuaukningin í heild, vegna þess að verulegur hluti tekjuaukningarinnar hefur orðið með hækkun á grunnkaupi. En verulegur hluti grunnkaupshækkunarinnar hefur í raun og veru aðeins verið til þess að mæta dýrtíðaraukningu, hefur ekki þýtt raunverulegar kjarabætur, svo að í raun og veru á alveg það sama að gilda um þann hluta tekjuaukningarinnar, sem leitt hefur af grunnkaupshækkunum að þessu leyti, eins og hinn hluta tekjuaukningarinnar, sem leitt hefur af vísitölufyrirkomulaginu.

Tekjur nú — að minnsta kosti ýmsar almennar tekjur — eru átt- til tífaldaðar miðað við það, sem þær voru fyrir stríð. Hins vegar eru tekjur til skattlagningar umreiknaðar aðeins með vísitölunni 457. Þetta veldur því auðvitað, að menn lenda í miklu hærri skattstiga með sömu tekjur, heldur en þeir gerðu fyrir stríð, og þetta er óeðlilegt og veldur mjög miklu um þann aukna skattþunga, sem nú hvílir á flestum stéttum launamanna. Í þessu sambandi er svo þess að geta, að umreikningnum er hætt við ákveðið tekjumark lögum samkv., og á s.l. ári mun það tekjumark hafa verið tæp 61 þús. kr., svo að á því tekjubili tekur tekjuskatturinn gífurlegt stökk upp í við. Þetta tekjubil er líka orðið of lágt, og það er tiltölulega miklu lægra nú heldur en það var, þegar gildandi lagaákvæði um þetta efni voru sett árið 1942, vegna þeirrar miklu breytingar, sem hefur orðið á tekjuhæðinni, fyrst og fremst vegna margs konar grunnkaupshækkana.

Þessi ákvæði þarf að taka til gagngerðrar endurskoðunar, og það er ekki hægt að afgr. þetta frv. án þess. Talan 457 er vafalaust rétt reiknuð, þ.e.a.s. miðað við það, að hún sýni breyt. á reiknuðum kaupuppbótum, en það, sem ég vil leggja áherzlu á, er, að þetta er ekki nægilegt. Það þarf jafnframt að taka tillit til þeirra grunnkaupshækkana, sem í raun og veru hafa reynzt ekki raunveruleg kauphækkun, sem réttlætti flutning í hærri tekjustiga, heldur aðeins til að mæta vaxandi dýrtíð, og þess vegna er nauðsynlegt að breyta þeim reglum, sem nú gilda um ákvörðun umreikningstölunnar, og því vildi ég beina til hv. fjhn. að athuga, hvort ekki sé tiltækilegt að gera það nú þegar í sambandi við afgreiðslu þessa frv. Það er mikið hagsmunamál allra launastétta, að þetta verði gert, því að ef skattumreikningstalan yrði gerð á þann hátt, sem ég nú var að lýsa, þannig að hún taki tillit til allrar þeirrar tekjuaukningar, sem orðið hefur og farið hefur til þess eins að mæta aukinni dýrtíð, þá mundi af því auðvitað leiða mjög verulega skattalækkun fyrir launastéttir, og það er mál, sem nauðsynlegt er að nái fram að ganga.