15.12.1952
Efri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

11. mál, tekjuskattsviðauki

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til endurnýjunar um eitt ár á l., sem gilt hafa að undanförnu. Ákvæði 1. gr. hafa gilt um allmörg ár, og öll ákvæði frv. gilda þetta ár, sem nú er að líða, nema eitt, og þetta eina er ákvæði 4. gr. um umreikningstöluna, m.ö.o. umreikningstalan sjálf. Í ár gildir umreikningstalan 406. Í frv. þessu að lögum fyrir næsta ár er umreikningstalan 459 og höfð þar til samræmis við núgildandi vísitölu, enda þarf svo að vera, til þess að umreikningurinn nái þeim tilgangi, sem honum er ætlað að ná. Hv. Nd. breytti umreikningstölunni úr 457 í 459 til samræmis við vísitölubreytingu, sem orðið hafði frá því að frv. var samið og þar til nú. Að öðru leyti var frv. samþ. óbreytt í Nd.

Fjhn. þessarar d. hefur athugað frv. eins og henni var falið að gera fyrir þessa umr. Hún leggur til, að frv. verði samþ. Tveir nm. skrifa þó undir þá yfirlýsingu í nál. með fyrirvara. Báðir telja þessir hv. þm. fyrir sitt leyti æskilegra, að gerðar séu á frv. breyt., en hvor á sinn hátt.

Hv. 1. landsk. flytur brtt. á þskj. 435. Þetta er sama till. og hv. 2. þm. Reykv. flutti í Nd. og þótti ekki koma til greina þar og var felld. Ég tel ástæðulaust að gagnrýna þessa till. og tefja með því umr., af því að hún ber dauðann í sér, enda varla flutt til annars hér í hv. d., en að sýna lit.

Hv. þm. Barð. hefur lagt fram till., sem ég hef ekki séð fyrr, en nú á augnablikinu, á þskj. 453. Þetta er í raun og veru ekki till. um breyt. á efni frv., heldur viðbótartill. Hún er í tveimur liðum, a og b. A-liðurinn hljóðar um það, að ríkisstj. skuli fela mþn. þeirri, sem vinnur að endurskoðun skattalaganna, að athuga, hvaða áhrif það hefði á fjárhagskerfi landsins, atvinnuvegina og ríkissjóð, ef lög um tekju- og eignarskatt, stríðsgróðaskatt og tekjuskattsviðauka yrðu afnumin frá 1. jan. 1954. Þessi till. er í samræmi við þær skoðanir, sem hv. þm. hefur látið í ljós hér á Alþ. áður um, að rétt sé að afnema l. um tekju- og eignarskatt. Það er skoðun út af fyrir sig, sem ekki hefur átt hér fylgi að fagna og ég býst tæplega við, að rétt þyki að ganga inn á. Það er nokkuð áhættusamt að hverfa frá því að reyna að leggja á skatta til ríkisþarfa eftir efnum og ástæðum og taka allar tekjur ríkisins með óbelnum sköttum, annaðhvort samkv. nefjafjölda ellegar þá eftir umsetningu þeirri, sem á sér stað í viðskiptalífi þjóðarinnar, án tillits til þess, hvernig þau viðskipti bera sig. En vitanlega má segja, að ekkert sé við það að athuga, þó að rannsakað væri, hvaða áhrif þetta kynni að hafa á þjóðarhaginn og ríkissjóðshaginn. En mér er spurn: Hvernig á það að athugast? Í raun og veru virðist mér, að hv. þm. hafi jafnan þegar hann hefur talað um þessi mál hér á Alþ., svo að ég hafi heyrt, verið að spá í spil um þessa hluti, en ekki getað, eins og eðlilegt er, haft neitt þar til rannsóknar, sem telja mætti raunhæft. Það er trú hans, að það væri rétt að gera þetta, en hann hefur ekki getað grundvallað þá trú á skoðun, sem hægt væri á nokkurn hátt að telja nálgast það að styðjast við útreikninga, sem hægt væri að treysta á. Mig langar mjög mikið til að heyra frá honum, um leið og hann að sjálfsögðu gerir grein fyrir sínum till. hér, á hvern hátt hann hugsar sér, að sú nefnd, sem starfar nú að endurskoðun skattalöggjafarinnar, gæti látið fara fram athugun, sem að gagni kæmi. Í till. kemur enn fremur fram, að það er vilji hv. flm., að þessi breyt. gæti komizt á, og þá ætlast hann til þess, eins og kemur fram í niðurlagi till., að fullt tillit sé tekið til þess í niðurstöðum þeim, er n. að lokum skilar. Till. er sem sé ekki laus við viljayfirlýsingu, og þess vegna tel ég, að þeir menn, sem ekki hafa sömu trú í þessum efnum og hv. þm., geti varla gengið inn á hana eins og hún er.

B-liður till. er um það, að ríkisstj. láti hraða svo endurskoðun skattalaganna, að till. um heildarlöggjöf um skattamálin liggi fyrir, er næsta reglulegt Alþ. kemur saman. N. sú, sem starfað hefur á þessu ári, hefur starfað fyrir það, að sameinað Alþ. fól ríkisstj. með þái. að láta endurskoða löggjöfina. Þessi endurskoðun er nú nokkuð langt á veg komin. Hún reyndist að vísu mikið verk, einkum fyrir það, að n. átti einnig að athuga tekjuöflunarleiðir sveitarfélaga og verkaskiptingu milli sveitarfélaga og ríkisins. Ef henni hefði aðeins verið falið að endurskoða löggjöf um tekju- og eignarskatta ríkisins, þá er ég viss um, að hún hefði skilað áliti fyrir þetta þing, en verkefnið var miklu meira en það, því þó að telja megi, að það sé mikið verk að endurskoða löggjöfina um tekju- og eignarskatt til ríkisins, þá er hitt þó mun meira, að athuga og endurskoða verkaskiptinguna milli ríkis og sveitarfélaga og tekjuöflunarleiðir sveitarfélaga. En vegna þess að nefndin er starfandi og komin nokkuð langt áleiðis í því efni, og vegna þess að hún starfar samkvæmt þál, sem þegar hefur verið gerð, þá tel ég fyrir mitt leyti óþarft að vera að setja í lög ákvæði um það, hvenær hún skuli hafa lokið störfum.

Ég álít þess vegna, að rétt sé af þessari hv. d. að samþ. frv. óbreytt, eins og við þrír úr fjhn. leggjum til að gert verði.