15.12.1952
Efri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

11. mál, tekjuskattsviðauki

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. hv. fjhn. með fyrirvara, ekki vegna þess, að ég muni ekki fylgja frv., enda þótt það komi til atkvæða óbreytt, heldur vegna hins, að ég tel, að það þurfi að gera á því breytingar, og mun freista þess og flyt þess vegna brtt. við frv. á þskj. 435.

Þessi till. hefur áður verið flutt á þessu þingi í Nd. af hv. 2. þm. Reykv., en náði þar ekki samþykki, eins og hv. frsm. tók fram.

Það er þó alveg sérstök ástæða til þess, að ég flyt hana hér aftur, og sérstök rök til þess, að mér finnst, að ég hafi ástæðu til þess að ætla, að möguleikar séu á því, að hún verði samþ. í þessari hv. deild. Eitt af þeim atriðum, sem nefnd hafa verið í umræðum þeim, sem fram hafa farið milli ríkisstj. og deiluaðila í því verkfalli, sem nú stendur yfir, var afnám og lækkun skatta á lágtekjum. Þetta mun vera eitt af þeim fáu atriðum, sem hæstv. ríkisstj. mun ekki hafa tekið fjarri að athuga. Hér er að vísu ekki um háar upphæðir að ræða fyrir hvern einstakling, en mundu þó áreiðanlega vera eitt af þeim atriðum, sem gætu stuðlað að því að leysa verkföll þau, sem nú standa yfir. Það var einmitt af þessum ástæðum, að ég lagði til í hv. fjhn., að málinu yrði frestað og að rætt yrði við hæstv. ríkisstj., áður en n. gengi frá nál. sínu. Á þetta vildi meiri hl. n. ekki fallast. Mér þykir þetta ekki bera vott um mikinn áhuga þessara hv. alþm. á því að stuðla að lausn þeirrar vinnudeilu, sem nú stendur yfir. Ég vona, að aðrir hv. dm. líti öðruvísi á, og mér finnst ég hafa fulla ástæðu til þess að vona það. Það er þess vegna mjög fjarri sanni, sem hv. frsm. sagði í sinni ræðu, að þessi till. væri aðeins borin fram til þess að sýna lit, vegna þess að mér finnst ég hafa fulla ástæðu til þess að vona það, að aðrir hv. dm. líti öðrum augum á þetta mál, en hv. frsm., ef maður á annað borð gerir ráð fyrir því, að þeir hafi nokkurn snefil af ábyrgðartilfinningu.

Það má að vísu segja, að ekki sé öll nótt úti, þó að málið gangi óbreytt gegnum þessa umræðu. Ég væri fús til þess að taka till. mína aftur til 3. umr., ef einhver von væri til þess, að hv. dm. hefðu þá frekar áttað sig.

Skattstjóri hefur nú samkv. beiðni samninganefndar verkalýðsfélaganna í verkfallinu gert athugun á því, hvaða áhrif það mundi hafa, ef till sú, sem hér er til umræðu og ég flyt á þskj. 435, yrði samþykkt. Og niðurstaðan er þessi, ef miðað er við skattaframtal s.l. árs, ársins 1951: Í Reykjavík mundi tekjuskattur lækka um 31/2 millj., en skattgreiðendum mundi fækka um 41%, ef till. yrði samþykkt. Þessi skattaívilnun mundi þess vegna ná til mikils fjölda manna, sem berst í bökkum vegna síversnandi afkomu almennings, en hún mundi kosta lítið. Úti á landi mundi hún ná til miklu fleiri manna. Lækkun skattsins úti á landi hefur skattstjórinn ekki getað reiknað út nákvæmlega, heldur hefur orðið að áætla hana. Og áætlun hans er, að það mundi nema 5 millj. kr., og sá fjöldi skattgreiðenda, sem mundi alveg sleppa við skatt, mundi vera meiri, en í Reykjavík, en þar er hann 41%. Alls mundi þess vegna tekjumissir ríkissjóðs af samþykkt till. verða um 9 millj. kr., nokkuð af þessu er áætlun og váfalaust mjög há áætlun. Þetta er svo lítil upphæð, að ríkissjóð mundi ekki muna miklu, og það mundi hafa harla lítil áhrif á rekstrarjöfnuð fjárl., sem nema nú á 4. hundrað millj. kr., vera m.ö.o. minna en 3% af fjárlagaupphæðinni. Jafnvel þó að ekki væru hinar sérstöku ástæður fyrir hendi, sem ég hef nú nefnt, þá væri samt sem áður sjálfsagt réttlætismál að samþ. þessa till. Það er í sjálfu sér alveg fráleitt að innheimta skatta af tekjum, sem ekki nægja til lífsframfæris. En nú er sem sagt alveg sérstök og rík ástæða fyrir hendi.