18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

11. mál, tekjuskattsviðauki

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil með nokkrum orðum minnast á þær ræður, sem fluttar voru hér áður við þessar umr. í sambandi við þær brtt., sem fyrir liggja.

Hv. 1. landsk. hélt því fram, að brtt. sín á þskj. 435, sem er samhljóða brtt., sem felld var í hv. Nd., hefði nú fengið nýtt erindi, þar sem hún gæti orðið til að greiða fyrir lausn á þeirri verkfallsdeilu, sem yfir stendur. Þetta er ekki rétt á litið. Verkfallsdeilan getur ekki orðið leyst nema með heildarsamningum, og að grípa inn í hana með samþykkt slíkra till. sem þessarar gæti orðið til truflunar. Það gæti sem sagt orðið til þess að setja snurðu á þann samningaþráð, sem þeir eru nú að spinna, sem til þess hafa verið kvaddir að leita lausnar á því vandamáli. Till. ætti því að bíða hér sömu örlög og í Nd.

Hv. 6. landsk. hélt allskemmtilega ræðu og minntist á jólasveina og líkti frv. því, sem hér liggur fyrir, við jólasvein. Látum það vera. En hvers vegna var hv. þm. með ólundarsvip gagnvart þessum jólasveini? Þetta er þó gamli jólasveinninn frá dögum þeirrar stjórnar, sem hv. þm. studdi. Hann hlýtur að kannast við skeggið, röddina, söngvana og gjafabögglana frá þeim gamla tíma. Breyting á afstöðu hv. þm. hlýtur að stafa af því, að hann gerir aðrar kröfur til jólasveina nú, en þá. Hann er orðinn keipóttari, en hann var á þeim árum, þegar hans stjórn lagði til jólasveina. (Gripið fram í.) Hvað heitir hann? Guðmundur Í. Guðmundsson. Það getur farið svona með góða krakka stundum og jafnvel með fullorðna menn líka, einkum í pólitík. Sá, sem ekki þarf að bæta nauðsyn sína sjálfur, hann getur heimtað. — Hv. 6. landsk. flytur ásamt hv. 4. þm. Reykv. brtt. á þskj. 470. Þetta er nákvæmlega sama brtt. og flutt var í hv. Nd. og felld þar. Ég efast ekki um, að hún verði líka felld hér í þessari hv. deild. Hún er í raun og veru eins og jólakeipar krakka, sem vilja ekki kannast við sinn gamla jólasvein. Hún er ekkert annað.

Hv. þm. Barð. mælti að sjálfsögðu með brtt. sinni, og sú till. er í raun og veru ekki brtt. um efni frv., heldur viðbótartill., og hún er að mínu áliti ekki skaðleg, en ég álít hana óþarfa. Hún getur tafið fyrir endurskoðun skattalöggjafarinnar og felur í sér viljayfirlýsingu, sem ég tel ólíklegt að þessi hv. deild vilji gefa út. Hún er óþörf, af því að skattalöggjöfin er í endurskoðun. Og hún gæti tafið fyrir þessari endurskoðun, ef hún yrði til þess, að mikið verk yrði lagt í að rannsaka, hvaða áhrif það hefði, ef hætt yrði að leggja á tekju- og eignarskatt, af því að sú rannsókn er svo torveld og í raun og veru eins og að ætla sér að drekka hafið upp. Áhrif af niðurfellingu tekju- og eignarskattslaganna eru nefnilega alveg órannsakanleg. Þar er ekki um annað að ræða, sem úr gæti skorið og upplýst, en reynsluna eina.

Ég spurði hv. þm. um, hvernig atriðin væru, sem hann teldi, að væri hægt að rannsaka. Og hann nefndi fjögur atriði. Fyrst: Hvað miklar tekjur hafa umræddir skattar gefið í ríkissjóð brúttó? Hann svaraði þessu sjálfur, og það þarf ekki mikillar rannsóknar. Það liggur ljóst fyrir í hvers árs reikningi ríkissjóðs. Í ár má telja, að þetta verði sem næst áttungur ríkissjóðsteknanna, eða rúmlega 50 millj. kr. — Í öðru lagi taldi svo hv. þm., að rannsaka ætti, hvað ríkissjóð kostaði að afla þessara tekna. Sjálfur svaraði hann því, að þetta mundi kosta um 8 millj. kr. í ár. Ég hygg, að þessi tala sé ekki ábyggileg, vegna þess að kostnaður af skattanefndum er líka útlagður vegna sveitarfélaganna. Skattframtöl og skattskrár eru ekki aðeins samdar nú orðið vegna ríkissjóðs, heldur einnig vegna sveitarsjóðanna og útsvarsálagningarinnar. Annars mundi það ekki vera mikið verk að gera áætlun um þetta, svo nákvæma að litlu skeikaði. — Í þriðja lagi taldi svo hv. þm. Barð. það rannsóknarefni, hvað mikið áynnist fyrir ríkið við það, að laun fastra starfsmanna mættu lækka, ef afnumdir yrðu hinir beinu skattar. Það var helzt á honum að skilja, að þar gæti orðið um væna fúlgu að ræða. En er það nú víst, að starfsmenn ríkisins þori að treysta því og ganga inn á, að laun sín lækki? Mundu þeir ekki á fyrsta stigi að minnsta kosti óttast, að þeir óbeinu skattar, sem í staðinn hljóta að hækka, mundu líka, þótt undir huliðshjálmi væri, höggva skarð í laun sín? Ég er viss um, að þeir mundu óttast þetta. Og reynslan yrði þarna að koma til, áður en miklar breyt. gætu orðið. Í fjórða lagi er svo aðalatriðið, þ.e., að þm. trúir á, að hægt sé að fá atvinnulífið og athafnalífið í landinu til að blómgast, ef felldir yrðu niður hinir beinu skattar. Hann telur líklegt, að þá muni drjúpa smjör af hverju strái í ríkiskassann, jafnframt því sem af honum mundi létta margs konar núverandi útgjöldum vegna atvinnubóta og stuðnings við fátækt fólk. Um þetta er hægt að spyrja og spá eins og í spil, en varla öllu meira. Og í raun og veru gekk nú hv. þm. inn á það, að í þessu sambandi yrði varla um annað en spádóm að ræða, en hann taldi, að þeir spádómar væru lítt erfiðari en í mörgum efnum þyrfti að viðhafa í fjármálalífi ríkisins. N. gæti vissulega reynt að reikna þetta út. Og hún gæti eytt í það miklum tíma, en mín skoðun er það, að upp úr því mundi ekki mikið hafast. Ég er þess vegna á móti því, að fyrirskipuð sé ýtarleg, vinnufrek rannsókn í þessu efni.

Hv. þm. benti á tvö fyrirtæki sem sönnun fyrir réttmæti trúar sinnar á gróskuna, sem mundi koma í efnahags- og atvinnulífið við afnám beinu skattanna. Annað fyrirtækið er Eimskipafélag Íslands. Vitanlega hefur því orðið skattfrelsið til ávinnings, af því að aðrir hafa borgað skattana. En svo mundi ekki geta orðið, ef allir beinu skattarnir yrðu niður felldir og hver fyrrverandi skattgreiðandi kæmist undan álöguþunganum, eins og Eimskipafélagið hefur komizt hingað til. Álöguþunginn legðist á eftir öðrum mælikvarða og hitti skattgreiðendur þannig í einhverri annarri mynd. — Hitt fyrirtækið, sem hv. þm. tók sem dæmi, var S.Í.S. Sá mikli misskilningur ríkir hjá ýmsum og er á loft haldið til áróðurs, að S.Í.S. og kaupfélögin yfirleitt séu sama sem skatt- og útsvarsfríar stofnanir. Þetta er reginvilla, sem rétt er að mótmæla alls staðar, þar sem hún skýtur upp kollinum. Ef litið er t.d. á skattskrá og útsvarsskrá Rvíkur frá yfirstandandi ári, þá blasir við, að Sambandið greiðir á þessu ári á þriðju milljón í skatta og útsvör. Velgengni Sambandsins og kaupfélaganna stafar ekki af skattfrelsi þessara stofnana, heldur af hagfelldu skipulagi þeirra og skynsamlegum rekstri yfirleitt.

Það liggja sem sé engar sannanir fyrir um gildi afnáms allra beinna skatta og verða ekki heldur fundnar með rannsókn, svo að á sé byggjandi. Þetta er hugmynd, sem raunveruleikinn einn gæti prófað. En stefnan, sem í hugmyndinni felst, er augljós. Og sú stefna hefur að vonum ekki átt því fylgi að fagna hér á Alþingi eða með þjóðinni, svo að vitað sé, að ástæða sé til að samþ. þá viljayfirlýsingu um afnámið, sem brtt. hv. þm. Barð. felur í sér og hann undirstrikaði, að hún ætti að fela í sér.

Hv. þm. Barð. leyfði sér að halda því fram, að formaður n. þeirrar, sem starfar nú að endurskoðun skattalaganna, og hæstv. fjmrh. hefðu komið í veg fyrir, að n. skilaði áliti og till. fyrir þetta þing. Ég mótmæli þessu sem alveg tilhæfulausu. Og ég geri það af kunnugleika, því að ég hef tekið þátt í starfi þessarar n. N. hafði ekki unnizt tími til að ljúka starfi. Það er ástæðan. Verkefnið var of stórt, víðtækt og vandasamt til þess. Hv. þm. getur spurt flokksbræður sína í n. um þetta, ef hann trúir mér ekki, og fengið að vita hjá þeim, — það er ég viss um, — að þeir höfðu engar úrslitatill. lagt fram eða tilbúnar. Þeim hafði ekki unnizt tími til þess.

Hv. 6. landsk. var, að mig minnir, að láta liggja að því, að verkefni n. hefðu átt að geta verið fljótunnin, og hann minntist á n., sem hann átti sæti í og skipuð var 1947 til þess að endurskoða tekju- og eignarskattslögin, og taldi, að hún hefði ekki verið lengi að ljúka sínu starfi. Nú er bezt að athuga þetta.

Nefndin, sem hv. 6. landsk. vitnaði í, tók til starfa í ágúst 1947 og skilaði af sér í des. 1948, eða eftir 16 mánuði. Verkefni hennar voru svo að segja eingöngu tekju- og eignarskattslögin til endurskoðunar. Hún viðaði að ýmsum fróðleik, sem kemur fram í áliti hennar, — það er alveg satt, — en till. hennar þóttu ekki vera úrlausnir að gagni og voru því aldrei lagðar fyrir Alþingi. Þannig var hennar sjóferð. Í hana finnst mér satt að segja ekki ástæða til að vitna sem fyrirmynd.

Skattanefndin, sem nú situr á rökstólum, hafði helmingi styttri tíma til umráða en hin n., ef hún átti að ljúka starfi áður en þetta Alþingi kæmi saman, en hún hafði meira, en helmingi erfiðara verk að vinna, en hin n. Hún átti að athuga auk tekju- og eignarskattslaganna verkaskiptingu milli ríkissjóðs og sveitarsjóða og endurskoða tekjuöflunarlög sveitarsjóða. Sú hlið, sem að sveitarsjóðunum veit, er miklu erfiðari og vandasamari viðfangs, en sú hlið, sem veit að ríkissjóði. Ríkissjóðurinn er einn aðili. Sveitarfélögin eru yfir 200 og með mjög sundurleitan hag og þarfir. Það eykur stórlega vandann við að finna úrlausnir þeirra vegna. Skattarnir til ríkissjóðs eru ekki nema rúmlega 50 millj. kr., eða 12–13% af tekjum ríkissjóðs. Útsvörin voru 1951 150 millj. kr. samtals, en verða líklega, að minnsta kosti á næsta ári, 200 millj. kr. Og þau eru 90% af tekjum sveitarfélaganna. Þessar tölur sýna, hve miklu meira er undir því komið, að útsvörin eða sú upphæð, sem sveitarfélögin taka, sé réttilega á lögð, heldur en þó ríkisskattarnir. Og þetta sýnir líka, hvað verkefnið, sem n. var falið, er geysilega erfitt og víðtækt. Ef n. hefði ekki viljað leitast við að undirbúa till., sem að gagni mættu koma, þá hefði hún vitanlega getað verið búin að skila till., t.d. á borð við till. n., sem hv. 6. landsk. vitnaði til, en hún vill vinna verk, er að gagni mætti verða, hvort sem henni tekst það eða ekki. Um það, hvort henni lánast það, fullyrði ég auðvitað ekki neitt.

Ég tel óþarft að setja í l., að n. skili áliti og till. fyrir næsta reglulegt Alþingi, því að svo lengi situr n. að sjálfsögðu ekki, hvernig sem verk hennar lánast, enda hefur hæstv. ríkisstj. í hendi sinni að segja henni fyrir um starfstíma.

Að lokum vil ég svo sem frsm. fjhn. taka það fram, sem ég áður sagði í upphafi þessarar umr., að langeðlilegast er að samþ. frv. óbreytt eins og það liggur fyrir og afgr. það sem lög frá þessari hv. d. Jafnvel meinlausar brtt. gætu tafið það um of, af því að svo nærri er nú komið jólum og áramótum, en strax með nýju ári eiga og þurfa ákvæði frv. að taka lagagildi.