18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

11. mál, tekjuskattsviðauki

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Mér datt í hug gamalt stef, þegar hv. þm. Barð. var að segja, að eina ljósið, sem n. gæti haft til þess að komast út úr völundarhúsi sins starfs og sinna verkefna, væri ljósið sitt. Stefið var:

„Ljósið mitt langa,

lýstu mér í paradís að ganga.“

Má vera, að í þessari till. sé eitthvert ljós, en það er langt undan og ekki bjart. Það varð ljóst af ræðu hans, eins og ég hafði reyndar grun um áður, eftir að hafa heyrt til hans hér á Alþ., að hann er ókunnugur samvinnufélögum, tel sennilegt, að hann hafi aldrei verið í samvinnufélagi. Hann talar um þau mál blindandi. Ég ætla ekki að lengja hér umr. með því að fara í þrætur um þau í þessu sambandi, og ég ætla ekki heldur að deila við hann um það, hvað það er, sem hefur verið til umr. í skattamálanefndinni. Þar gengur hann fram — bara sem spámaður og hittir ekki á að spá rétt, það heyri ég. Það, sem hefur verið erfiðast í n., er, eins og ég tók fram áður, hliðin, sem snýr að sveitarfélögunum, því að hún er margfalt torveldari en tekju- og eignarskattslöggjöf ríkisins. Það skiptir sem sé miklu meira máli fyrir þjóðfélagið, hvernig úr rætist í því efni, heldur en með tekju- og eignarskatt til ríkis. Þetta vildi ég undirstrika, af því að mér heyrðist á ræðumanninum, að hann vildi ekki við því lita. Ef við hefðum eingöngu átt að endurskoða tekju- og eignarskattslöggjöf ríkisins, þá hefði því starfi verið lokið, en að fara að tala um það hér, hver afstaða einstakra manna hefur verið í n., tel ég ekki viðeigandi og yfirleitt ekki viðeigandi að skýra frá ágreiningsefnum, sem orðið hafa í n. Ég skírskota bara til framtíðarinnar og þeirra till., sem á sínum tíma hljóta að koma frá n. Þær tel ég verða bezta svarið við því í ræðu hv. þm. Barð., sem fjallaði um það, hvað n. hefur starfað og hvernig hún muni taka á málinu.