18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

11. mál, tekjuskattsviðauki

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það bar til hér í þessari hv. d. fyrir nokkrum dögum við umr. um áfengismál, að hv. þm. Barð. hafði ummæli eftir hv. 8. þm. Reykv. og sagðist herma orðrétt. Mér fannst tilvitnunin vafasöm og athugaði þetta seinna og sannfærðist þá um, að hann hefði ekki farið rétt með tilvitnuð ummæli. Það var ekki aðstaða til þess þá að leiðrétta þetta. En satt að segja finnst mér það ákaflega harðleikið, að hv. þm. leiki sér að því að herma upp á menn orðrétt ummæli, sem ekki standast, þegar segulbandið er við höndina og hægt að ná öllu orðréttu.

Nú kemur það aftur fyrir, að þessi sami hv. þm. skýrir hér frá málum, sem eiga að hafa gerzt í þessari hv. d. fyrir tveimur árum, og fer rangt með. Það vill svo til, að það er hægt að slá upp á þeirri atkvgr., sem hann skýrði hér frá, í alþingistíðindunum, og ég skauzt fram áðan og gerði það. Þegar þetta mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands, var til meðferðar hér í hv. d. síðast, þá fóru að sjálfsögðu fram þrjár umr., svo sem venja er til. Við 1. umr. var frv. vísað til 2. umr. með 9 shlj. atkv. og til fjhn. með 10 shlj. atkv. Á 41. fundi d., 15. des., var frv. tekið til 2. umr., og mér skilst, að það hafi verið sú atkvgr., sem hv. þm. skýrði frá. (GJ: Nei, það var ekki sú atkvgr.) Sagði ekki hv. þm., að nafnakall hefði farið fram og að hægt væri að slá upp í þingtíðindum? Við þessa atkvgr. fer fram nafnakall, og þá eru báðir þeir þm., sem honum þótti smekklegt að segja, að hefðu verið leiddir út úr d. með valdi, viðstaddir og greiða atkv. gegn frv. Við 3. umr. fer ekki fram nafnakall. Frv. er þá samþ. með 8:5 atkv. og afgr. sem lög frá Alþingi. Og hvað sem því nú líður, þó að hv. þm. vilji reyna að skjóta sér undir það, að þetta hafi skeð við 3. umr., en þá er ekki nafnakall og því liggur ekki sannanlega fyrir, hverjir voru við eða hverjir ekki, þá sér hann það líklega, hv. þm., að þó að þessir tveir menn hefðu verið við og hefðu greitt atkv. gegn frv., þá hefði málið samt sem áður ekki fallið.

Annars verð ég að segja það, að mér finnst dæmalaust að heyra málflutning af því tagi, sem átt hefur sér stað, bæði nú og við það tækifæri, sem ég nefndi fyrr, og mig furðar það ákaflega og mig hryggir það, að jafnmætur þm. og mikilhæfur á marga lund og einhver okkar mesti starfsmaður í þinginu sem hv. þm. Barð. er, skuli telja sig þurfa að viðhafa svona vinnubrögð í umr.