18.03.1954
Neðri deild: 63. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

128. mál, verðlagsskrár

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Eftir því sem peningaviðskipti aukast manna á milli, því minna gildi hefur landaurareikningur í viðskiptalífi þjóðarinnar. Samt sem áður mun ekki fært enn sem komið er að fella niður verðlagsskrár þær, sem ákveðið er að staðfesta skuli ár hvert, en lög um það atriði eru, frá 1897. Í þeim lögum er það ákveðið, að undirbúningi verðlagsskráa skuli hagað þannig, að prestur, formaður skattanefndar og einn maður, er hreppsnefnd kýs í hverjum hreppi, skuli semja skýrslu um verðlag og senda til sýslumanns í því lögsagnarumdæmi. sem í hlut á. Sýslumenn eiga síðan að taka meðaltal af því verðlagi, sem þeim berst þannig úr hreppunum, og senda það með skilríkjum til stjórnarráðsins, sem staðfestir síðan verðlagsskrá fyrir hvert lögsagnarumdæmi fyrir sig.

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, var flutt í hv. Ed., og þar er lagt til að gera undirbúning verðlagsskráa einfaldari og óbrotnari en verið hefur á þann hátt að fela yfirskattanefnd í hverju lögsagnarumdæmi að ákveða það mat, sem inn í verðlagsskrá er fært, en heimilt er að leita umsagnar ríkisskattanefndar, áður en verðlagsskrá er staðfest, ef rn. þykir ástæða til.

Fjhn., sem hefur athugað þetta mál, telur frv. stefna í rétta átt og mælir með því einróma, að það verði samþ. í þeim búningi, sem það barst hingað frá hv. Nd.