02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í D-deild Alþingistíðinda. (3068)

149. mál, Kjarvalshús

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í skjölum fjmrn. finnast ekki nein bréf eða neitt skriflegt varðandi byggingu húss yfir málverkasafn Jóhannesar Kjarvals málara, annað en bréf það frá menntmrn., dags. 7. júní 1945, sem hæstv. menntmrh. hefur skýrt frá í svari sínu við fyrirspurninni.

Ef eitthvað fleira hefur farið á milli þáverandi fjmrh. og þáverandi menntmrh. um þetta mál, þá virðist það hafa verið munnlegt, og í ráðuneytinu finnst ekkert annað en þetta bréf frá þáverandi menntmrh. um það, að hann telji afskipti menntmrn. lokið af málinu.

Skrifstofa húsameistara, sem fjmrn. hefur snúið sér til af þessu tilefni, hefur upplýst, að þar séu geymd frumdrög að teikningu af húsi, sem þál. frá 2. marz 1945 gerði ráð fyrir að yrði reist, og hafi Guðjón heitinn Samúelsson, þáverandi húsameistari ríkisins, gert þessi frumdrög á árinu 1945.

Þær 300 þús. kr., sem þál. heimilaði ríkisstj. að verja til byggingar nefnds húss, hafa verið geymdar hjá ríkissjóði til ráðstöfunar í þessu skyni á sérstökum reikningi.

Eins og að líkum lætur, telur fjmrn. það ekki í sínum verkahring að annast um framkvæmdir í þessu máli fremur en öðrum málum, sem eftir eðli sínu heyra undir önnur ráðuneyti. En við munum í fjmrn. hafa samband við menntmrn. um þetta mál og eiga þar með þátt í því að koma því á sporið, en það virðist hafa farið út af sporinu 1945 eða fyrir 9 árum fyrir einhvers konar meting á milli ráðuneytanna.