02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í D-deild Alþingistíðinda. (3069)

149. mál, Kjarvalshús

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Fyrir hönd okkar fyrirspyrjendanna vil ég leyfa mér að þakka hæstv. ráðherrum greið svör þeirra við fyrirspurninni.

Ég vil í þessu sambandi minna á, að málið mun upphaflega hafa komið á dagskrá í sambandi við 60 ára afmæli listamannsins Jóhannesar Kjarvals.

Ef ég man rétt, þá var það m. a. hinn valinkunni maður, Pétur Magnússon fjmrh., sem átti mjög verulegan hlut að því, að málið var tekið upp á sinum tíma. Það fékk mikinn stuðning á Alþ., eins og það þá var skipað, svo sem hin samhljóða samþykkt á þáltill. sýndi.

Í fyrstunni virðast hafa verið gerðar allar eðlilegar ráðstafanir til þess að hrinda málinu í framkvæmd, en síðar, fyrir einhvers konar meting á milli ráðuneyta eða mistök, komizt út af sporinu, eins og hæstv. fjmrh. orðaði það.

Um orðinn hlut er ekki að sakast, enda ekki aðalatriðið, úr því sem komið er. Hitt er aðalatriðið, að nú verði hafizt handa, enda eru nú önnur tímamót í ævi listamannsins í vændum. Hann mun eiga sjötugsafmæli í október n. k., 15. okt., að ég hygg, og væri vissulega vel til fallið, ef hæstv. ríkisstj. vildi beita sér fyrir því, — bezt væri, að það yrðu menntmrn. og fjmrn. í sameiningu, — að málið fengi framgang þannig, að þessi hugmynd, sem virtist eiga óskipt fylgi alþm. 1945, næði nú fram að ganga. Engin ástæða er til þess að ætla, að hugur Alþ. sé ekki enn hinn sami, þó að það sé öðruvísi skipað. Ef það væri vefengt, mætti auðvitað á það reyna, en ég hygg, að það sé óþarfi. Vil ég láta það verða mín síðustu orð í þessu sambandi að vænta þess, að hv. ráðuneyti bæði tvö hafi samvinnu um að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd í sambandi við sjötugsafmæli listamannsins.