11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í D-deild Alþingistíðinda. (2779)

206. mál, fyrirætlanir bandaríska herliðsins á Íslandi

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta hér eina fullyrðingu frá hv. fyrirspyrjanda, þar sem hann dregur í vafa, að nokkur heimild sé fyrir ríkisstj. að leyfa gerð hafnarinnar í Njarðvíkum. Ég tel algerlega vafalaust, að hv. Alþ. hafi þegar samþykkt heimild fyrir ríkisstj. til þessa með því að samþykkja varnarsamninginn frá 1951, því að ákvæði í varnarsamningnum eru alveg ótvíræð um þetta.

Hins vegar skal ég geta þess, að það hafa ekki farið fram neinir samningar um land undir höfnina. Það hafa ekki heldur farið fram neinir samningar um stjórn hafnarinnar eða fyrirkomulag við höfnina. Það er allt saman ógert. Vitanlega hafa Íslendingar það í hendi sinni að gera þá samninga eins og þeir óska.

Ég get ekki farið að svara hér auka-fyrirspurnum um Hvalfjörð. Hv. fyrirspyrjandi verður þá að gera alveg sérstakar fsp. um það efni. Mér finnst það ósiður að vera að blanda inn í óskyldum málum, þegar fyrirspurnir eru gerðar hér á Alþingi. Það er velkomið að svara fyrirspurn um þetta efni síðar meir.

Um hitt atriðið skulum við ekkert deila, hvort hershöfðinginn hafi sagt, að Bandaríkjamenn óskuðu eftir að fá fleiri radarstöðvar á Íslandi. Ég hef spurt aðra blaðamenn, sem voru staddir samtímis í Keflavík, og það heyrði enginn þessa yfirlýsingu nema ritstjóri Þjóðviljans. Þó að Bandaríkjamenn hafi einhvers staðar í blöðum talað um net af radarstöðvum, þá hefur ekkert verið sagt um það, hvað það net á að vera þéttriðið. Það var þegar í upphafi farið fram á fjórar radarstöðvar hér á Íslandi, og þær voru leyfðar. Það hefur ekki komið nein ósk um frekari radarstöðvar hér á landi, og ég er algerlega sannfærður um, að það mun ekki koma fram nein slík ósk.