09.12.1958
Efri deild: 33. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

62. mál, almannatryggingar

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs, voru ekki komnar fram eins sterkar raddir um að hraða málinu svo mjög sem síðan hafa heyrzt og er það þess vegna nærri því með hálfum huga, að ég fer að tala í þessu máli og ég skal taka það fram þegar, að það er ekki mín ætlan að tefja fyrir málinu á neinn hátt. En mér var falið af mínum kjósendum að fara fram á hér á þingi vissa breyt. við 22. gr. almannatryggingalaganna, og þar sem hér er um breyt. á almannatryggingalögunum að ræða, þá flaug í huga minn, þegar málið kom fyrst fram, að mér mundi leyfast að orða brtt. við þá n., sem færi með málið, þá gekk ég út frá því, að það færi í nefnd. Nú tel ég það borna von, að svo verði. En ég vildi á hinn bóginn segja, hvað það væri, sem fyrir mér og mínum kjósendum vakir í þessu efni og um leið leita undirtekta hæstv. ráðh., þess sem talað hefur fyrir frv. hér í þessari d., um breyt. í þá átt. Þótt ekki sé annað, þá vildi ég feginn heyra „stemningu“ af hans hendi fyrir því.

Því er þannig varið, að í Vestmannaeyjum eru þess mörg dæmi, að eldra fólk, sem er vel fært um að inna af hendi léttari störf, hefur hætt störfum á miðju ári, með því að tekjur þess hafa þá verið komnar að því marki, að viðkomandi missti ellilaun sín, ef hann héldi áfram störfum. Þetta kann að gilda víðs vegar um land líka, en það ber þó sérstaklega á því í mínu kjördæmi, vegna þess að þar skortir oft vinnukraft og er vinnukraftur þessa aldraða fólks vel þeginn nærri því á öllum tímum. Þegar þess er gætt, að hjá okkur vantar flesta tíma árs vinnukraft við framleiðslustörfin, verkar þetta alveg neikvætt fyrir bæjarfélagið, þ.e.a.s. þær hömlur, sem eru á ellilaunum í l., ef fólkið vinnur eitthvað fyrir sér á annað borð.

Þetta verkar alveg neikvætt fyrir bæjarfélagið, auk þess sem það verður að teljast réttlætismál, að þeir, sem greitt hafa iðgjöld sín til trygginganna árum saman, eins og lög hafa staðið til, njóti fullra bóta, burt séð frá því, hvort þeir á gamalsaldri geta aflað sér einhverra atvinnutekna, sérstaklega þegar þess er gætt, að ellilaunin ein eru hvergi nærri nægjanlegur framfærslueyrir, jafnvel þó að við bætist sú tekjuupphæð, sem leyfileg er til þess, að ellilaunin skerðist ekki.

Þetta eru ástæðurnar fyrir þeirri breyt., sem ég hef verið beðinn um að reyna að fá hljóð fyrir á hinu háa Alþingi. Ég sé fram á það, að í sambandi við þetta frv. líðst mér ekki að fara að koma fram með breyt. í þessa átt og vil ekki heldur gera það, ef það yrði til að tefja fyrir gangi aðalmálsins.

Mér er hermt, að endurskoðun á almannatryggingalögunum kunni að vera höfð með höndum nú á þessu tímabili, en ég vildi feginn mega heyra álit hæstv. ráðh. á því, ef hann hefur numið mál mitt, hvort hann er fjarlægur eða nálægur þeirri hugsun, að gerð yrði breyt. á ellitryggingalögunum í þá átt, sem ég sagði nú og óskað er frá mínu kjördæmi, sem sagt, að breyt. yrði gerð við 22. gr., sem heimilaði öldruðu fólki aðgang að ellilaunum, þó að það á einhvern hátt tæki þátt í framleiðsluvinnunni og þægi þóknun eða laun fyrir, eins og oft á sér stað, bæði í Eyjum og víða annars staðar. Ég þykist vita, þótt ég hafi hér vitnað til Eyjanna, að þetta sé víðar á landinu þannig, að þegar vinnukraft vantar, þá sé leitað bæði til unglinga og líka til hins eldra fólks.