21.01.1959
Sameinað þing: 23. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í D-deild Alþingistíðinda. (2281)

173. mál, vegakerfi á Þingvöllum

Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh., sem hefur tekið að sér að svara þessari fsp. um breytingu vegakerfis á Þingvöllum, og heyri á því svari, að Þingvallanefnd hefur ekki verið jafntómlát í þessu eind og ástæða var til að ætla, af því að maður vissi ekki af neinu opinberu plaggi frá henni. En það hefur nú komið fram, að sú hv. n. hefur haft áhuga fyrir málinu líka. Áhugi fyrir málinu er líka hjá öllu Alþingi, þar sem það hefur fallizt á að breyta vegakerfinu á Þingvöllum. Ég vil vel trúa því, sem hv. vegamálastjóri ályktar í því efni, að það kosti fé, hversu mikið skal ég ekkert um dæma, en það er þá eiginlega hv. alþm. sjálfra að taka höndum saman um að fá fram fjárveitingu til að gera þetta. Mér skilst, að fjárvelting hafi ekki fengizt á síðasta þingi. Ég man nú ekki til að það kæmi neitt undir atkv. Sþ. við afgreiðslu fjárl., það hefur þá gerzt í hv. n., án þess að það kæmi beinlínis í dagsljósið. En mér finnst full þörf á því, að það sýni sig svart á hvítu, hver hugur fylgir máli hjá þeim hv. þm., sem hafa viljað koma þessu verki í framkvæmd, þegar fjárl. verða afgreidd. Hversu sem það er, þá er það gott að heyra, að hv. Þingvallanefnd virðist vera alveg á sama máli eða svipuðu máli um þessa breyt. eins og þeir, sem stóðu að þál. á sínum tíma, og er þá vonandi, að hún ljái sitt lið til afgreiðslu þess endanlega á þingi við afgreiðslu fjárlaga. Hér er um svo mikils vert mál að ræða, að það þarf vissulega að komast í framkvæmd, og það þarf líka að sjást greinilega, hvort þingið vill fylgja þessu eftir þann veg, að það sé gert mögulegt að framkvæma það.

Að svo komnu máli hef ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta, en vil gjarnan biðja hæstv. ráðh. að lána mér þessa skýrslu vegamálastjóra við tækifæri.