15.04.1959
Sameinað þing: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í D-deild Alþingistíðinda. (2316)

140. mál, verðbætur bátaútvegsins

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þessi fsp. hv. 2. landsk. þm. er í tvennu lagi og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „1) Hefur ríkisstj. samþykkt skiptingu þá á verðbótum bátaútvegsins, sem um ræðir í 15. lið samnings ríkisstj. um rekstrargrundvöll útvegsins við Landssamband ísl. útvegsmanna frá s.l. áramótum? 2) Hvaða fiskverð ber fiskkaupendum að greiða bátaútvegsmönnum samkv. þeim samningi?“

Mér þykir rétt að svara síðari liðnum fyrst. Með bréfi sjútvmrh., dags. 5. jan, s.l., var staðfest samkomulag, sem náðst hafði milli ríkisstj. og Landssambands ísl. útvegsmanna um starfsgrundvöll bátaútvegsins á árinu 1959. Í þessu bréfi var tekið fram, á hvern hátt fiskverð og uppbætur til báta skuli ákveðið fyrir línubát á vetrarvertíð við Faxaflóa. Gert var ráð fyrir, að tilkynning um fiskverðið yrði gefin út, þegar frv. til l. um breyt. á l. nr. 33 1958, um útflutningssjóð o.fl., yrði orðið að lögum, en frv. þetta lagði ríkisstj. fram í hv. Nd. í janúarmánuði s.l. En eins og hv. fyrirspyrjanda mun vera kunnugt, hefur þessu frv. aðeins verið vísað til hv. fjhn. þessarar deildar og setið þar fast síðan.

En eftir að þetta samkomulag, sem ég gat um í upphafi, var gert í janúarmánuði, hófust, eins og venja hefur verið undanfarin ár, samningaumleitanir milli Landssambands ísl. útvegsmanna og fiskvinnslustöðvanna um fiskverð og skiptingu fiskuppbóta og ýmisleg framkvæmdaatriði, allt á þeim grundvelli auðvitað, að gengið var út frá því, að lögin um útflutningssjóð, sem lögð hafa verið fyrir Alþingi, yrðu samþykkt í því formi, sem þau hafa nú verið lögð fyrir í. En þessar samningatilraunir báru ekki þann árangur, að báðir aðilar hefðu getað komið sér fyllilega saman, og óskuðu þeir þess vegna, að fulltrúar ríkisstj. reyndu að miðla málum.

Ég fyrir mitt leyti bar fram þá ósk við báða aðila, bæði sölusamtök hraðfrystihúsanna og við Landssamband ísl. útvegsmanna, að þeir freistuðu til hins ýtrasta að skipta þessum bótum, án þess að til úrskurðar ríkisstj. þyrfti að koma, vegna þess að ég taldi eðlilegt, að aðilarnir gætu komið sér saman um, hvernig bótunum yrði skipt, eins og gert hefur verið að undanförnu, og ég lagði líka til, að reglurnar um úthlutunina yrðu látnar gilda áfram.

En eftir að ljóst var, að samningar gætu ekki tekizt milli þessara aðila og afgreiðsla frv. hefur dregizt svo mjög sem raun er á í hv. Nd. Alþingis, þá ákvað ríkisstj. að gera út um þetta mál nú nýlega og skrifaði Landssambandi ísl. útvegsmanna svo hljóðandi bréf:

„Í bréfi rn. til Landssambands ísl. útvegsmanna, dags. 5. jan. s.l., er tekið fram, á hvern hátt fiskverð og uppbætur til báta skuli ákveðið á grundvelli rekstraráætlunar fyrir línubát á yfirstandandi vetrarvertíð í Faxaflóa. Gert var ráð fyrir, að tilkynning um fiskverðið yrði gefin út, þegar frv. til l. um breyt. á l. nr. 35 1958, um útflutningssjóð o.fl., yrði orðið að lögum og samningar hefðu tekizt á milli Landssambands ísl. útvegsmanna og fiskvinnslustöðvanna um verðið. En þar sem afgreiðsla frv. á Alþingi hefur dregizt og fullt samkomulag hefur ekki náðst milli fiskseljenda og kaupenda, vill rn. með skírskotun til 1. mgr. 7. gr. l. nr. 33 1958, um útflutningssjóð o. fl., ákveða eftirfarandi: Að verð á línufiski, þorski, skuli vera kr. 1.57 á kg og á öðrum fiski samkv. meðfylgjandi lista. Er þá miðað við, að af 80% útflutningsbótum fái vinnslustöðvarar 48.3% og bátaútvegsmenn 31.7%. Verð á óslægðum fiskí eða óslægðum þorski skal vera 1.36 á kg sbr. meðfylgjandi lista. Af þeim 24 aurum á kg, sem gert er ráð fyrir að greitt sé vinnslustöðvunum fyrir fisk, sem veiðist á tímabilinu 15. maí til 31. des. 1959, skal bátaútvegsmönnum greitt 7 aurar á kg. Verð á flatfiski skal vera eins og tilgreint er á meðfylgjandi lista.“

Þetta hefur fulltrúum vinnslustöðvanna verið tilkynnt, svo að þetta liggur fyrir af hálfu ríkisstj. sem lágmarksverð á fiski. En eins og kunnugt er, þá er ákvæði l. um þetta efni þannig, að ríkisstj. skuli hafa heimild til að setja á fiskinn visst lágmarksverð, sem vinnslustöðvarnar skulu greiða bátaútvegsmönnum, til þess að þeir eigi aðgang að þeim bótum, sem lögin ákveða. En vitaskuld er hér aðeins um lágmarksverð að ræða og annað ekki, og það er það, sem í þessu felst af hálfu ríkisstj. og hefur alltaf gert.

Þetta hygg ég nú að skýri, hvers vegna það hefur dregizt þetta lengi að ákveða verðið, í fyrsta lagi vegna þess, að aðilarnir hafa ekki komið sér saman til fulls um skiptinguna, og í öðru lagi vegna þess, að lögin um útflutningssjóð hafa ekki verið afgreidd. Ég skal taka fram, að n. sú, sem vann að samningum við útvegsmennina og bæði er skipuð fulltrúum frá öllum stjórnmálaflokkum og þeim sérfræðingum, sem við höfum beztum á að skipa í þessum málum, hefur unnið að útreikningum þessara talna og hún hefur verið einhuga í afgreiðslu málsins á þessum grundvelli, og rn. hefur staðfest þeirra till., eins og þær hafa frá n. komið.

Í fyrra lið fyrirspurnarinnar er vísað til 15. liðs samnings ríkisstj. um rekstrargrundvöll útvegsins eða 15. liðs í bréfi, sem skrifað var útvegsmönnum, eftir að samkomulag hafði náðst um þessi mál í janúar, og ég held, að það sé rétt, að ég lesi þennan lið upp, með leyfi hæstv. forseta, en hann hljóðar svo:

„Verðbætur bátaútvegsins úr útflutningssjóði verði greiddar í gegnum L.Í.Ú., eins og verið hefur, eftir reglum, sem sjútvmrh. samþykkir.“

Þessar reglur, sem farið hefur verið eftir, eru samdar í tíð fyrrv. ríkisstj., og það hafa engin tilmæli komið til mín um breytingu á þessum reglum, og þess vegna hefur ekki verið farið út í það að leggja til, að á því fyrirkomulagi verði höfð nein breyting frá því, sem verið hefur.