15.04.1959
Sameinað þing: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í D-deild Alþingistíðinda. (2317)

140. mál, verðbætur bátaútvegsins

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann hér hefur gefið, og jafnframt vil ég fagna því, að það virðist annaðhvort vera komið, — mér var nú ekki alveg ljóst, hvort það væri þegar komið til viðkomandi aðila, bréf stjórnarvaldanna, sem úrskurðar lágmarksverð til fiskseljenda, eða hvort það er ekki komið í þeirra hendur. (Gripið fram í: Það er ekki búið að senda það út, en það er afgreitt.) Já, ég vil sem sagt fagna því, að svo er þó komið, þótt seint sé.

Tölulega, hvort sá úrskurður sé réttlátur eða hvort honum sé áfátt, skal ég auðvitað ekki ræða hér, enda nefndi hæstv. ráðh. hér aðeins fáar tölur úr því plaggi. En til þess hefði ég viljað mega mælast við hæstv. ráðh., að hann gæfi Alþingi kost á því að fá með einhverjum hætti á skjölum upplýsingar um það, hvert þetta lágmarksverð er á einstökum fisktegundum eða á einstökum gæðaflokkum af fiski.

Ég vil aðeins benda á það, ja, svona eins og endurskoðendur ríkisreikninganna segja stundum: til athugunar framvegis, að það er býsna seint, sem þessi úrskurður er gefinn. Ég vil með þessum orðum ekki leggja neinn dóm á það, hvort þær ástæður, sem hæstv. ráðh. færði hér fyrir því, að ekki er fyrr frá þessum málum gengið, séu að öllu frambærilegar eða ekki, en það er býsna bagalegt, að þessi ákvæði um verð á fiski milli útvegsmanna og þeirra, sem fisk kaupa af þeim, skuli ekki vera til fyrr, en hér hefur raun á orðið, og alveg sérstaklega þar sem mér skilst, að enn sé hugsanlegt, að til samninga komi um þetta fiskverð, þar sem úrskurður ríkisvaldsins er ekki alger, heldur er hann um lágmarksverð.