07.04.1959
Efri deild: 96. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

105. mál, samband íslenskra berklasjúklinga

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Hv. frsm. fjhn. hefur að vísu gert mjög skýra grein fyrir skoðunum meiri hl. n. í þessu máli, og þarf ég í sjálfu sér engu við það að bæta. Það var svo vel fram sett að mínum dómi. Síðan hafa fleiri hv. þm. talað hér, og má segja, að þar hafi hver ræðan verið annarri betri og virðulegri og í rauninni allar af fullum góðvilja til þessa máls. Ég álít samt skylt að viðurkenna með þakklæti ræðu hv. 8. landsk. þm. og get að öllu leyti tekið undir hans ummæli um það, hversu samtök berklaveikra sjúklinga, sem fyrir 20 árum munu fyrst hafa fengið stuðning, þótt óbeint væri, af Alþingi, hversu þau hafa gefizt vel og þeirra starf hefur verið blessunarríkt, ef ég mætti svo að orði kveða, til ánægju fyrir alla landsmenn og mikils gagns fyrir berklasjúklinga.

Eigi síður vil ég votta hv. 8. landsk. þm. þakklæti fyrir það, að hann lýsti yfir því, að þrátt fyrir það, þótt hann hefði gjarnan viljað hafa einhverja breyt. fram, þá liti hann á, að nauðsyn samvinnu í málum berklasjúklinganna væri svo mikil, að hann vildi ekki trufla þá samstillingu, sem verið hefði hjá Alþingi, með flutningi á brtt. við þetta frv. Þetta þótti mér af hálfu hans vera mjög drengilega mælt.

Að lokum vildi ég segja það, að hv. 8. landsk. þm. fór rétt með, þegar hann lýsti, að við aðrir í hv. fjhn., sérstaklega þeir, sem meiri hl. skipa, hefðum tjáð okkur fúsa til þess að leggja lið félagi annarra öryrkja eða félögum á þann hátt að fá gerða samþykkt á Alþingi, annaðhvort hér í hv. d. eða annars staðar, til að hjálpa þeirra starfsemi og þar með létta byrði öryrkja yfirleitt. Þessu var að vísu lýst yfir í ræðu hv. frsm. fyrir okkar hönd, meiri hl. n., en að gefnu tilefni hjá hv. 8. landsk. þm. vil ég endurtaka þá yfirlýsingu, sem við gáfum í n. að þessu lútandi.

Loks vil ég viðurkenna og þakka hv. þm. fyrir þá brýningu, sem hann flutti til hv. deildar um að láta hendur standa fram úr ermum, að því er snerti þann stuðning, sem um var rætt í hv. fjhn. Þeirrar brýningar ætti að vísu ekki að vera þörf fyrir þá af okkur, sem sátum nefndarfundinn, en það er svo góð vísa, að hún verður aldrei of oft kveðin og Alþingi þarf vissulega að hefjast skjótt handa um það að styðja þá sjálfsbjargarviðleitni, sem fram kemur hjá félögum þessara manna, þessara þegna þjóðfélagsins, öryrkjunum; hvort sem þeir heita nú Sjálfsbjörg eða Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra.

Ég vil, að hv. flm., þeir sem að brtt. standa, geri sér það ljóst, að þó að meiri hluti fjhn. hafi ekki viljað fallast á að flytja brtt. við frv. á þessu stigi, þá er það ekki af því, að við höfum á nokkurn hátt viljað amast við rétt mætum stuðningi til félaga fatlaðra og lamaðra, heldur liggur sú hugsun að baki, sem hv. 8. landsk. þm. lýsti, að enginn okkar vildi trufla þá samstillingu, sem verið hefur hjá Alþingi í málefnum berklasjúklinganna, og þar með töldum okkur verða að leggjast gegn breytingum á frv., og fyrir því leggjum við áherzlu á, að það verði samþykkt óbreytt.