14.03.1968
Neðri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

157. mál, Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt samkv. ósk stúdentaráðs Háskóla Íslands og háskólaráðs. Frv. er upphaflega samið af stúdentaráði, en háskólaráð fjallaði síðan um það. Að síðustu var það athugað ítarlega í menntmrn. m.a. af n., sem rn. skipaði og í áttu sæti fulltrúar þess, fjmrn., háskólaráðs og stúdentaráðs. Varð n. sammála um frv., eins og það er flutt hér.

Upphaf þessa máls er það, að stúdentaráð gerði á sínum tíma till. um breytingar á stjórn stúdentagarðanna. Var það höfuðefni breytingartillagnanna, að stúdentar fengju meiri áhrif á stjórn garðanna. Niðurstaðan varð hins vegar ekki sú að gera breytingar á stjórn stúdentagarðanna einna, heldur að efna til allsherjarathugunar á félagsmálum stúdenta. Hingað til lands komu tveir af forustumönnum stúdentamálefna í Noregi, þeir Kristian Ottosen, forstjóri Studentsamskipnaden í Ósló, og Tönnes Andenæs, forstjóri háskólaforlagsins í Ósló. Á ráðstefnu, sem stúdentaráð efndi til og þessir menn tóku þátt í, urðu til þær grundvallarhugmyndir, sem þetta frv. er byggt á. Aðalnýmæli þess er, að það gerir ráð fyrir því, að við Háskóla Íslands verði komið á fót nýrri stofnun, Félagsstofnun stúdenta, er gegni eftirfarandi hlutverki:

1) Standi fyrir og sjái um byggingu allra fyrirtækja í þágu stúdenta, svo sem stúdentagarða, mötuneyta og húsnæðis til félagslegra iðkana.

2) Annist rekstur þessara fyrirtækja og sjái um aðra þjónustu fyrir stúdenta, svo sem heilsugæzlu, ferðaþjónustu, bóksölu, bókaútgáfu og ef til vill aðstöðu til íþróttaiðkana.

3) Afli fjár til að sinna þessum verkefnum.

4) Verði sjálfstæður, ábyrgur eignaraðili allra þessara fyrirtækja.

Nú þegar er um að ræða allumfangsmikinn rekstur í þágu stúdenta, og er ætlazt til, að allur þessi rekstur verði sameinaður innan Félagsstofnunarinnar. Sá rekstur, sem nú er um að ræða, er fyrst og fremst þessi:

1) Reknir eru tveir stúdentagarðar samkv. skipulagsskrá, sem menntmrn. staðfesti 1948, og er þeim stjórnað af fimm mönnum, tveimur kosnum af háskólaráði, tveimur af stúdentaráði og formanni tilnefndum af menntmrh.

2) Rekin er bóksala fyrir stúdenta, og er hún undir stjórn, sem kjörin er af háskólaráði og stúdentaráði.

3) Í kjallara Háskólans er rekin kaffisala, og annast stúdentaráð rekstur hennar.

4) Stúdentaráð rekur einnig ferðaþjónustu, og hefur skipulag hennar verið mjög til umræðu undanfarið, en Félagsstofnunin mundi taka þann rekstur að sér, ef þetta frv. verður að lögum.

Og í fimmta og síðasta lagi hefur stjórn stúdentagarðanna í 8 ár leigt stúdentaráði garðana til rekstrar sumarhótels. Hefur leigunni verið varið til viðhalds á görðunum, en sérstök hótelstjórn annazt reksturinn. Mundi stjórn Félagsstofnunarinnar einnig taka við hótelrekstrinum.

En auk þess að sjá um þau verkefni, sem nú er þegar starfað að í þágu stúdenta, ætti Félagsstofnunin að taka að sér ný verkefni. Ber þar fyrst og fremst að nefna byggingu nýrra stúdentagarða og fjáröflun til þeirra. Stúdentagarðarnir voru á sínum tíma reistir, þegar tala stúdenta var 300. Nú er hún orðin meira en þreföld og brýn nauðsyn á byggingu nýrra garða — og þá fyrst og fremst hjónagarðs. Ein ástæða þess, að ekki hefur enn verið hafizt handa í þessum efnum, er sú, að ekki hefur tekizt að samhæfa krafta þeirra, sem hagsmuna eiga að gæta í þessum efnum, en hér er Félagsstofnun stúdenta ætlað að koma til. Þá má geta þess sem annars meginverkefnis Félagsstofnunar stúdenta að koma á fót félagsheimili fyrir stúdenta, en fé hefur verið veitt til þess á fjárlögum nokkur undanfarin ár. Félagsstofnunin mundi ekki aðeins annast byggingu félagsheimilisins, heldur einnig hafa rekstur þess með höndum. Þá er og um að ræða allmikil stúdentaskipti milli stúdenta við Háskóla Íslands og stúdenta við erlenda háskóla. Eðlilegt er, að Félagsstofnun taki að sér skipulagningu þessarar starfsemi. Verkefni hennar verða enn fleiri, þótt ekki verði það rakið nánar hér.

Frv. gerir ráð fyrir, að stjórn stofnunarinnar verði skipuð fimm mönnum. Yrðu þrír þeirra kosnir af stúdentaráði, einn af háskólaráði og einn tilnefndur af menntmrh. Hér er sú breyting gerð frá því, sem verið hefur varðandi stjórn stúdentagarðanna, að gert er ráð fyrir, að stúdentar hafi meiri hl. í stjórninni, en gert er ráð fyrir því, að einn fulltrúi stúdenta hafi lokið háskólanámi. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að í reglugerð verði sett ákvæði um, að minni hl. stjórnar geti skotið veigamiklum ágreiningsefnum til úrskurðar menntmrh. Stjórn stofnunarinnar ber að afla fjár til starfsemi hennar og framkvæmda á vegum hennar. Er gert ráð fyrir því, að þetta verði gert í samvinnu við háskólarektor og háskólaráð. Stofnunin á að njóta góðs af tekjum þeim,sem fyrirtækið hefur aflað, en auk þeirra skulu tekjur hennar vera þessar:

1. Hluti árlegra skrásetningargjalda stúdenta við Háskóla Íslands. Nú eru stúdentar ekki skráðir nema þegar þeir innritast í upphafi námsins eða eru endurskráðir, vegna þess að þeir hafa fallið af skrá Háskólans. Um það hefur hins vegar verið rætt að taka upp árlega skráningu stúdenta við Háskólann, og er það nauðsynlegt af mörgum ástæðum. Má gera ráð fyrir, að sú breyting verði komin til framkvæmda næsta haust. Í frv. er við það miðað að þessi breyting komi til framkvæmda, og ætti það að geta aukið tekjur stofnunarinnar frá því, sem ella yrði.

2. Gert er ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram fé til stofnunarinnar, enda hefur í fjárl. undanfarin ár verið veitt fé til stúdentaskipta, almennra félagsstarfa og félagsheimila stúdenta. Auk þess hefur ríkissjóður lagt fram fé til mötuneytis stúdenta og endurbóta á görðunum.

3. Gert er ráð fyrir, að Félagsstofnun stúdenta berist gjafir, og skulu þær þá vera undanþegnar sköttum.

4. Að síðustu er gert ráð fyrir því, að stjórn stofnunarinnar geti gripið til sérstakra fjáröflunaraðferða, t.d. í því formi, að leitað verði til sveitarfélaga um stuðning við byggingu stúdentagarða eins og gert var, þegar núv. stúdentagarðar voru reistir.

Með þessu held ég, að ég hafi gert grein fyrir aðalatriðum þessa frv. Ég tel hér vera um æskilegt og skynsamlegt nýmæli að ræða. Ég er viss um, að sameiginleg yfirstjórn á allri félagsstarfsemi stúdenta í einni stofnun mundi verða félagsstarfseminni mikil lyftistöng og sameina alla aðila til nýs átaks í þessum efnum, en á því er tvímælalaus nauðsyn. Í þessu sambandi vil ég vekja sérstaka athygli á, að í frv. ríkisstj. um lækkun á útgjöldum er ekki gert ráð fyrir niðurfellingu á framlagi ríkisins til Félagsstofnunar stúdenta. Er í þessu fólgin viðurkenning af hálfu ríkisvaldsins á því, að hér sé mikið nauðsynjamál á ferðinni.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.