19.02.1968
Efri deild: 59. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það hefur áður verið skýrt frá því í sambandi við meðferð fjárl., að ríkisstj. hefði til athugunar að setja nýja heildarlöggjöf um embættisbústaði, þar sem byggt væri á öðrum reglum en nú gilda um það efni jafnhliða því, sem lögð væri áherzla á að samræma þau sjónarmið, sem lægju að baki þeim ákvæðum, er í gildi hafa verið til þessa varðandi embættisbústaði. Svo sem hv. þm. er kunnugt, gildir um þá bústaði ýmiss konar löggjöf, sem ég mun víkja að fáum orðum. Þessi löggjöf er með mjög mismunandi hætti, og það er meira og minna tilviljun háð og hefur mjög breytzt, eftir því sem tímar hafa liðið, hverjir embættismenn hafa slík hlunnindi, og það liggur í augum uppi, að miðað við stjórnkerfið, eins og það er í dag eru viðhorf svo breytt, að það er ekki ástæða til þess — og raunar óeðlilegt með öllu, að ekki séu tekin til gagngerðrar athugunar og grundvallarbreytingar þau sjónarmið, sem gilt hafa um þessa bústaði. Meðan tiltölulega fáir embættismenn voru, má segja, að þessi löggjöf hafi að verulegu leyti náð til þeirra, en nú er kominn mikill hópur embætta, sem er utan við þetta kerfi, þó að segja megi, að það væru alveg jafngild rök fyrir því, að þeir embættismenn nytu þessara hlunninda. Til undirbúnings á þessu máli var fulltrúum frá þeim rn., sem embættisbústaðir falla undir, falið að rannsaka þetta mál, athuga þá löggjöf, sem í gildi væri, og gera síðan till. um það, hvernig hægt væri að samræma þessi ákvæði og samrýma þau núverandi viðhorfum og aðstöðu í sambandi við stjórnsýslukerfið. Það hefur tekið talsvert langan tíma að vinna að þessu máli af ýmsum ástæðum. Bæði er hér um margvíslega löggjöf að ræða og enn fremur kom það til, að mjög skorti á, að til væru nægilega ljósar upplýsingar um allt það húsnæði, sem ríkið á. Það hefur verið á vegum margra rn., og heildarskýrslur tók alllangan tíma að fá, þar sem hvergi var á einum stað til yfirlit yfir allar þær íbúðir og hús, sem voru í eigu ríkisins, og er þetta eitt út af fyrir sig að sjálfsögðu mjög miður farið, því að æskilegt er, að til sé á einum stað yfirlit yfir allar þær húseignir, sem ríkið á.

Ég mun víkja nokkuð síðar að húseignum þessum og hvaða aðilar það eru, sem hafa þær til ráðstöfunar nú, og hver fjöldi þeirra er, en áður vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um þær reglur og lagaákvæði, sem nú gilda um embættisbústaði. Um embættisbústaði héraðsdýralækna er í l. frá 1957 mælt svo fyrir, að ríkisstj. skuli, þar til fullnægt er húsnæðisþörf héraðsdýralækna, láta byggja, eftir því sem fé er veitt til í fjárl., íbúðarhús handa héraðsdýralæknum. Sérstök heimild er þar til að kaupa íbúðarhús, þar sem það þykir hagkvæmara, og það er tekið fram, að þar skuli fyrst byggt, sem þörfin er talin brýnust að dómi landbrh. Bústöðum hefur verið komið upp, bæði húsum og íbúðum, fyrir kennara og skólastjóra bændaskólanna og Garðyrkjuskóla ríkisins. Það er ekki séð, að nein lagaákvæði gildi um þessa bústaði, en þar sem skólarnir eru staðsettir úti á landi, hefur það reynzt sjálfgert, að það yrði að koma slíkum bústöðum upp. Sama er að segja um húsmæðraskóla í sveitum. Þá er enn fremur svipað, sem gildir um Sandgræðslu ríkisins, að hún er staðsett að Gunnarsholti og leiddi því af sjálfu sér, að það þyrfti að koma upp íbúðarhúsnæði fyrir starfsmenn, enda þótt ekki sé sérstaklega gert ráð fyrir því í lögum. Varðandi Skógrækt ríkisins eru ekki heldur nein ákvæði um embættisbústaði, en það hefur einnig leitt af eðli málsins, að það hefur þurft að byggja yfir skógarverði á skógjörðum ríkisins. Um embættisbústaði kennara og skólastjóra gilda hins vegar ákveðin fyrirmæli í l. um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, og er þar enda um að ræða nú langmestan fjölda þeirra íbúða, sem ríkið á, og í þessu tilfelli í sameign með viðkomandi sveitarfélögum. Um embættisbústaði héraðsdómara gilda sérstök lög frá 1947, og þar er svo ákveðið, að ríkisstj. skuli, þar til fullnægt er húsnæðisþörf héraðsdómara eða hæstaréttardómara, láta byggja eða kaupa, eftir því sem fé er veitt til þess í fjárlögum, 1–2 íbúðarhús á ári handa dómurum þessum, enda sé þar rúm fyrir skrifstofu þeirra, skjalasafn o.fl., eftir því sem við á. Um embættisbústaði presta gilda einnig sérlög frá 1947 og í þeim eru ákvæði um skipulag á hýsingu prestssetra. Þar segir svo, að reisa skuli árlega prestsseturshús samkv. fyrirmælum þessara l., svo fljótt sem auðið er og eftir því sem fé er veitt til þess í fjárl., þar til lokið er að byggja upp sómasamlega öll prestssetur landsins. Og jafnframt segir, að heimilt sé ríkisstj. að kaupa íbúðarhús handa presti, þar sem slíkt þykir hagkvæmara, enda mæli biskup með kaupum. Um embættisbústaði lækna er svo fyrir mælt, að ríkissjóður greiði sveitarfélögum 3/5 hluta kostnaðar við að reisa almenn sjúkrahús og sömu aðilum 2/3 hluta kostnaðar við að reisa héraðslæknabústaði. Engin sérstök lög eru til um embættisbústaði vitavarða, en það hefur leitt af eðli málsins, að það hefur orðið að byggja yfir vitaverðina, þar sem þeir hafa verið staðsettir.

Samkv. þessu, sem ég hef hér sagt, virðist það ljóst, að ríkissjóður sé skyldugur að byggja embættisbústaði dómara og presta, hann sé skyldur til þátttöku í kostnaði við byggingu íbúða fyrir skólastjóra skyldunámsstigs og nauðsynlegt starfsfólk heimavistarskóla barnafræðslustigsins, en að öðru leyti leiðir það af eðli málsins, að það hefur þurft að koma upp embættisbústöðum fyrir allmarga aðra starfshópa. Ákvæði um húsaleigu er ekki að finna í neinum þessum l. um embættisbústaði utan þeirra ákvæða, er fjalla um hýsingu á prestssetrum. En í 12. gr. prestssetursl. segir, að prestur skuli á eigin kostnað annast árlegt viðhald íbúðarhúss samkv. reglum, sem rn. setur, og greiða við burtför hæfilegt álag samkv. mati úttektarmanns. En síðan segir, að árgjald prests af prestsseturshúsi, sem reist er samkv. l. þessum, skuli reiknast þannig, að kvaðalaust framlag ríkissjóðs er 3/5 hlutar byggingarkostnaðar að frádregnu andvirði niðurlagðra húsa og innstæðu fyrningarsjóðs, og hinum 2/5 hlutum kostnaðar skal deilt með byggingarvísitölu þess árs, er bygging eða endurbót fór fram, svo að í ljós komi byggingarkostnaður þessara 2/5 hluta, eins og hann hefði orðið áður en verðhækkun styrjaldarinnar skall yfir. Og af þeirri upphæð, sem þá kemur út og talin skal í heilum þúsundum að viðbættu vísitöluálagi kauplagsnefndar, greiðir prestur árlega 31/3%. Samkv. þessu ákvæði er leigugjald af prestssetrum mjög lítið og mun lægra heldur en af flestum öðrum íbúðum, sem embættismenn hafa til afnota. Þess skal þó geta að allmikið ósamræmi er á milli leigugreiðslna hjá hinum einstöku starfshópum, þó að lögð hafi verið áherzla á að reyna að samræma þær greiðslur. Varðandi útreikning þann á húsaleigu, sem ég gat um hjá prestum, má geta þess, til að menn geri sér nokkra grein fyrir því, hvað óeðlileg ákvæði þessi eru, að það er talið, að Reykjavíkurklerkar greiði frá 2 þús. og að 4 þús. kr. á ári fyrir íbúðarhúsnæði í opinberri eigu, sem þeir hafa umráð yfir, og mundi það vist þykja flestum harla hófsamleg húsaleiga. En prestar eru þeir einu opinberra starfsmanna, sem fá greidda húsaleigustyrki, og er sérstök fjárveiting aftur til þeirra í fjárl. Önnur lagafyrirmæli eru ekki um greiðslu húsaleigustyrkja. Þetta eru þau lagaákvæði, sem gilda um þá embættismenn, er eiga að hafa til afnota íbúðarhúsnæði frá ríkinu í samræmi við gildandi lög þar um.

Í grg. með þessu frv. er tekið fram, að ríkissjóður muni eiga einn og í sameign með sveitarfélögum um 500 íbúðir. Til þess að gera sér lítillega grein fyrir því, hvers konar íbúðir hér er um að ræða, skal ég geta þess, að mér telst svo til, að af þessum íbúðafjölda séu 14 íbúðir á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, 8 íbúðir fyrir héraðsdýralækna, 8 bústaðir eða íbúðir á vegum búnaðarskólanna, 15 íbúðir á vegum Tilraunastöðvar landbúnaðarins, 7 íbúðir Skógræktarinnar, 13 íbúðir í sambandi við húsmæðraskóla í sveitum, 106 prestssetur, 23 dómarabústaðir, 40 læknisbústaðir, 13 vitavarðarbústaðir, 50 íbúðir á vegum Pósts og síma og um 200 íbúðir vegna barnaskóla, gagnfræðaskóla og ýmissa framhaldsskóla.

Sú meginregla, sem þetta frv. byggist á, er, að hér eftir leggi ríkið starfsmönnum sínum ekki til íbúðarhúsnæði, nema þeir gegni störfum í þeim landshlutum, þar sem sérstakir staðhættir gera slíkt nauðsynlegt. Og enn fremur, ef um er að ræða sérstaka starfsaðstöðu, þannig að starfsmaður þarf nauðsynlega að búa á sínum vinnustað, enda þótt í þéttbýli sé. Þetta merkir það, að í þéttbýlli stöðum hérlendis — og er þar fyrst og fremst um Reykjavíkursvæðið og nágrenni þess að ræða og væntanlega einnig Akureyri, þ.e.a.s. þau svæði, þar sem ætla má að íbúðarhúsnæði sé í fullu verði, þar sé ekki gert ráð fyrir því, að embættismenn fái húsnæði til afnota. Hér í Reykjavík er orðið mjög áberandi misræmi í sambandi við þessi hlunnindi embættismanna. Hér er, eins og ég áðan sagði, kominn stór hópur af embættismönnum, sem gegna hinum þýðingarmestu embættum og hafa ekki neina embættisbústaði til umráða og eiga ekki rétt á þeim, þannig að það er orðið hér um algert ósamræmi að ræða. Það er hins vegar sýnt, að þar sem svo hagar til, að embættismaður getur ekki búizt við að fá fullt verð fyrir það hús, sem hann byggir sér í þágu síns starfs á viðkomandi stað, er hann flytur á brott, hann mundi verða mun verr settur heldur en embættismenn í þéttbýlinu að þessu leyti. Þess vegna þykir eðlilegt og óumflýjanlegt að gera hér mun á, og það verður að sjálfsögðu að metast eftir því, sem þróun þjóðfélagsins verður, hvenær og hvar ástæða sé til þess að byggja embættisbústaði, hvaða svæði það eru, sem verður að telja að falli undir meginreglu laganna, þá, að embættisbústaðir skuli ekki vera til, vegna þess að menn geti alltaf fengið fullt verðgildi fyrir sitt hús, og hvaða svæði það eru, sem falla undir 2. lið l., að þar sé nauðsynlegt að byggja embættisbústaði af þeim sökum, að ella yrðu embættismenn að sæta því eða hætt við, að þeir yrðu að sæta því að selja húsnæði sitt á lægra verði heldur en það hefði kostað þá að koma því upp. Þetta er sem sagt meginreglan, sem lögð er í þessum l., og jafnhliða eru felld niður öll þau lagaákvæði, sem nú eru í gildi um embættisbústaði, þannig að hér eftir verður það að metast, hvaða embættismenn skuli fá slíkt húsnæði, miðað við aðstöðu og þarfir hverju sinni, á grundvelli þeirra meginreglna, sem ég hef hér gert grein fyrir.

Það er ætlazt til þess, að hlutaðeigandi ráðh. ákveði það í samráði við fjmrh., hvar ríkið skuli leggja starfsmönnum sínum til íbúðarhúsnæði, og er gert ráð fyrir því, að fjmrh. setji um það reglugerð í samræmi við hin almennu sjónarmið, sem gilda skulu í þessu efni.

Þá eru settar ákveðnar reglur um það, sem eðlilegt er, eins og nú standa sakir, að hér eftir verði óheimilt að byggja embættisbústaði, nema sérstaklega sé veitt fé til þess í fjárl. og fyrir liggi samþykki hlutaðeigandi ráðh. um, að í byggingu slíks húss skuli ráðizt, og þetta leiðir af sjálfu sér, að það verður að ákveðast með fjárl. eftir að ákvæðin um embættisbústaði og hin sérstöku lög um þá hafa verið niður felld. Þá er sett almenn regla um það, hvernig reikna skuli húsaleigu eftir embættishúsnæði og þá gert ráð fyrir því, að í fyrsta lagi sé það meginregla, að samræmi ríki varðandi húsaleigugreiðslur embættismanna, hverrar tegundar sem embættið er, og enn fremur hitt, að tekið sé tillit til aðstöðunnar á hverjum stað, hvað sé venjuleg leiga eftir húsnæði á viðkomandi stað, þannig að misræmis gæti ekki í því efni og embættismaður sé þar ekki látinn búa við lakari kost heldur en fólk á viðkomandi stað eða aðrir leigutakar þar búa við.

Þá er í 9. gr. gert ráð fyrir því, að strax og íbúðarhúsnæði losnar, verði það selt. Og það eru ákveðin fyrirmæli um, að húsnæði skuli selt til þess að tryggja, að ekki sé hætta á, að haldið verði áfram að nota þetta húsnæði og settir inn í það aðrir embættismenn, og það þykir jafnframt rétt að setja í l. ákveðin fyrirmæli um það, hvernig húsnæðið skuli selt. Það hefur þótt stundum við brenna, þegar um mat á húsnæði er að ræða, að það sé tilhneiging til þess að meta húsið hátt, ef ríkið á að kaupa það, en meta það lágt, ef ríkið er að selja það. Og þess vegna þykir eðlilegt, að það sé meginreglan við sölu þessa húsnæðis, að það sé leitað tilboða í það og leitazt við að selja það á sem hagstæðustu verði. Hins vegar þykir sanngjarnt, að fráfarandi embættismaður fái að eiga forkaupsrétt að húsnæðinu, ef hann vill kaupa það, þegar hann á að víkja úr því og ber að selja það eftir lögum.

Undanþegnir þessum l. eru embættisbústaður forseta Íslands, sendiherrabústaðir erlendis og biskupsbústaður í Reykjavík. Um nokkurra ára skeið hefur Alþ. veitt sérstaklega fé til biskupsbústaðar, og það má segja, að það sé ekki ósanngjarnt, að um hann gildi nokkur sérákvæði. Það hefur verið áformað svo lengi af kirkjunni að koma upp nokkurs konar biskupsstofu, sem kallað hefur verið, hér í Reykjavík, sem er hugsuð að vissu leyti sem aðsetursstaður biskups að sjálfsögðu, en einnig sem móttökustaður fyrir presta og að vissu leyti sem heimili þeirra hér, og það þykir ekki óeðlilegt, að það sé þá undan skilið í þessum l., að biskupinn yfir Íslandi skuli hafa hér þennan bústað sinn, svo lengi sem hann verður búsettur hér í Reykjavík. Það er svo annað mál, hvort Alþ. kýs að flytja hann héðan, þá gilda um það aðrar og almennar reglur þessara laga.

Þá þykir einnig sjálfsagt, og um það fjallar 11. gr. frv., að setja um það ákveðnar reglur, hvað húsnæði, sem byggt er fyrir embættismenn, skuli vera stórt og hvernig það skuli búið. Í því hefur verið mikið ósamræmi og tvímælalaust í mörgum tilfellum orðið mistök í því efni. Það hefur stundum verið látið ráða meiru, hvað embættismennirnir, sem hafa verið að flytja í húsnæðið, hafa viljað, heldur en það, sem samrýmdist hagkvæmustu sjónarmiðum frá ríkisins hendi, og eðlilegast virðist vera að reyna að standardisera þessar íbúðir með það í huga að geta komið þeim sem ódýrast upp.

Svo sem ég sagði áður, gilda nú ýmiss konar lög, sem veita embættismönnum réttindi til embættisbústaða, og í sumum tilfellum mismunandi réttindi. Sum lögin, t.d. varðandi prestana, kveða á um sérstök fríðindi þeim til handa í húsaleigu, og allt er þetta með þeim hætti, að embættismennirnir, sem hafa tekið við þessum störfum, hafa mátt vænta þess, að þeir fengju þarna lögum samkv. tiltekin hlunnindi. Það þykir því ekki fært að selja nú þegar embættisbústaði þá, sem eru til afnota í þéttbýlinu, ekki fyrr en þeir losna, þ.e.a.s. núv. embættismenn hætta störfum eða fara úr þeim. Og jafnframt þykir ekki heldur auðið að breyta húsaleigureglum, sem festar eru í l. nú varðandi þá embættismenn, sem nú eru í starfi. Lögin miða því við það, að þau taki gildi eftir því sem nýir embættismenn komi til, og þá verði viðkomandi embættisbústaðir smám saman seldir.

Þetta er meginefni l., og ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara um þau fleiri orðum, nema frekara tilefni gefist til, og vænti þess, að hv. þm. hafi skilizt það, hvaða meginhugsun liggur að baki þeirra.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.