19.02.1968
Efri deild: 59. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. Varðandi síðasta atriðið, sem hv. 2. þm. Austf. benti á, l. um skólakostnað, er það alveg rétt hjá honum, að það er vitnað í hin eldri lög um þetta efni, og er nauðsynlegt að breyta því. Eldri l. eru að vísu enn þá í gildi, en það er alveg rétt hjá honum, að þau koma ekki til með að gilda nema út þetta ár eða þangað til í haust, þannig að vitanlega þarf að breyta því, og er ég honum þakklátur fyrir þá ábendingu og vonast til, að hv. n. taki það til athugunar.

Varðandi önnur atriði hans máls, aðallega það, að það þyrfti að tryggja betur réttindi embættismanna úti á landi, held ég, að ekki sé mikill ágreiningur okkar í milli um það efni, þó að hann telji að vísu, að það þurfi að viðhalda núgildandi lögum til að tryggja þennan rétt og undanskilja aðeins þéttbýlið, því að ella mundi þetta vald vera í höndum ráðh. Sannleikur málsins er sá, að í dag er þetta í höndum ráðh., hvað sem líður allri lagaskyldu. Það er í höndum ráðh. og fjárveitingavaldsins hverju sinni, hvort embættisbústaðir eru reistir eða ekki, þannig að það auðvitað breytir ekki á nokkurn hátt aðstöðu þessara embættismanna. Það liggur í augum uppi, að það er áhugamál hvers rn, að tryggja það, að hægt sé að þjóna þeim embættum sem undir það heyra, og ef það kemur í ljós, að það er ekki hægt nema með því móti að tryggja embættisbústaði á viðkomandi stað, er áreiðanlega ekkert minni trygging fyrir embættismanninn að fá embættisbústað, þó að það að forminu til sé í höndum ráðh. að ákveða það. Að vísu er það nú ekki í höndum ráðh. að því leyti til, að það er gert ráð fyrir, eins og ég sagði áðan, að fjárveiting þurfi að vera fyrir hendi frá Alþ. til þess að byggja umrædda bústaði, og felst þá í því um leið að sjálfsögðu viðurkenning á því, að bústaðurinn skuli byggður. Ég held þess vegna, að það breyti ekki neinu varðandi aðstöðu embættismanna úti á landi, þó að þessi nýskipan sé á höfð, sem hér er gert ráð fyrir, og ég mundi telja það mjög óeðlilegt, að það væri farið að halda við öllum þessum gömlu lagaákvæðum, sem eru margs konar og lítið samræmi þeirra í milli í einstökum atriðum, heldur sé rétt að setja um þetta eina almenna reglu.

Varðandi svo hitt atriðið, sem hann minntist á, að eðlilegast væri að tilgreina í l. sjálfum, hvaða svæði það væru, þar sem ætti að hætta að byggja embættisbústaði, vil ég benda á það, að l. er auðvitað ætlað að gilda um langan tíma. En það kann að breytast, eftir því sem tímar líða, hvaða svæði verði talin þéttbýlissvæði út frá þessu sjónarmiði, og þess vegna getur það verið, að þar sem þykir eðlilegt að byggja embættisbústaði í ár, verði það ekki talið eðlilegt að ári eða næstu árin, svo að ef á að fara að festa það nákvæmlega í löggjöfinni, hvar þessa bústaði eigi að byggja, held ég, að það verði að verulegu leyti óheppilegt og óraunsætt, enda þótt það kunni að vera hægt að finna út þær reglur miðað við ríkjandi ástand í þjóðfélaginu í dag; það verði að taka, eftir því sem árin líða, til greina þær breytingar, sem verða í þessum efnum, og kunni þá að reynast óumflýjanlegt að breyta reglunum. Það er alveg rétt, að í grg. frv. er ekki slegið neinu ákveðnu föstu um þetta. Það er talað um, að sennilegt sé, að það muni einnig ná til Akureyrar og nágrennis. Það á eftir að meta það nákvæmlega. Það fer eftir því, hvað kemur á daginn við athugun á verðgildi húsa þar, kaupverði þeirra og söluverði, en það þykir hins vegar ljóst vera, að á aðalþéttbýlissvæðinu, Reykjavík og næsta nágrenni, þar muni þessi almenna regla eiga við, að embættisbústaðir skuli ekki reistir. Reglurnar um þetta hafa að sjálfsögðu ekki verið settar og verða ekki settar fyrr en frv. hefur orðið að lögum, og þá verður þessu meginsjónarmiði fylgt, sem frv. byggist á, og það ætti að vera nægilega ljóst til þess, að það ætti að vera hægt að setja skýrar og ákveðnar reglur um það, hvar embættisbústaði skyldi reisa og hvar ekki.

Varðandi svo það atriði, hvort þetta frv. geti orðið til þess að rýra aðstöðu embættismanna úti á landi, mundi ég halda alveg það gagnstæða, vegna þess að að svo miklu leyti sem embættisbústaðir eru taldir hlunnindi, sem er nú að vísu mjög vafasamt fyrir embættismennina, versnar hlutur embættismannanna hér í Reykjavík, sem ekki eiga eftir að fá neinn embættisbústað. En það hefur nú þótt brenna við, að flestir vildu hér gegna embættum. En aftur á móti verða þessi fríðindi, ef fríðindi skyldi kalla, veitt áfram á öllum þeim stöðum úti um land, þar sem sú aðstaða er fyrir hendi, að ekki er hægt með góðu móti að selja embættisbústaði aftur, ef húsnæði getur ekki talizt í fullu verði að staðaldri, og það eru einmitt þau svæði, þar sem erfiðast hefur reynzt hingað til að fá starfsmenn.