18.03.1968
Efri deild: 71. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það er rétt að taka það fram í byrjun, að það nál., sem ég mæli hér fyrir, er ekki sameiginlegt álit n., því að hún klofnaði í tvo hluta. Hún hafði þetta mál til meðferðar á nokkrum fundum, ræddi m.a. við stjórn Prestafélags Íslands, sem taldi málið eðlilega snerta sig mjög. En niðurstaðan af athugun n. varð sú, að hún gat ekki náð fullri samstöðu um málið, þannig að nál. liggur hér fyrir í tveim hlutum. Þó að full samstaða næðist ekki um málið, þá voru það tvö aðalatriði, sem samkomulag var um. Í fyrsta lagi það, að réttmætt væri að setja samræmda allsherjar löggjöf um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins, og í öðru lagi var ekki ágreiningur um það, eins og líka kemur fram í áliti hv. minni hl. n., að réttmætt væri, að ríkið seldi íbúðir fyrir starfsmenn sína á svonefndum þéttbýlissvæðum, eins og þau eru skilgreind í frv., svo að framvegis taki skylda ríkisins til þess að útvega starfsmönnum sínum íbúðarhúsnæði aðeins til staða utan þéttbýlisins.

Hins vegar var skoðanamunur um það, hvort fara ætti þá leið, sem frv. leggur til, að það sé lagt í vald ríkisstj. að ákveða, hvort ríkið skuli leggja starfsmönnum til íbúðarhúsnæði, þannig að minni hl. leggur til, að ákvæði núgildandi laga um þetta efni verði óbreytt. Í framkvæmdinni mundi það ekki gera svo mikinn mun, hvor leiðin yrði farin í þessu efni, sú sem frv. leggur til eða hv. minni hl., því eins og kunnugt er, þá verður það háð ákvörðun fjárveitingavaldsins hverju sinni, í hvað mikinn kostnað skuli leggja við byggingu slíks íbúðarhúsnæðis, en fjmrh. hlýtur auðvitað alltaf að hafa mikil áhrif á afgreiðslu fjárlaga eins og hún fer fram hverju sinni alveg óháð því, hvaða ríkisstj. kann að vera við völd. En á því er nú samt sá blæmunur, hvora þessa leið skuli fara, að af þessari ástæðu gat n. ekki orðið samferða um málið. Annars er rétt að taka það fram og undirstrika það, eins og kemur fram í áliti meiri hl., að einstakir nm. hafa óbundnar hendur um að flytja eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma, og á það þá líka við þær brtt., sem hv. minni hl. flytur eða kynni að flytja.

Það er rétt að lokum að taka það fram, að það sjónarmið kom fram í n., að vafasamt væri, að biskup hefði samsvarandi sérstöðu eins og forseti Íslands og sendiherrar Íslands erlendis, að réttmætt væri að ætla honum embættisbústað eftir að þessi breyting hefði verið gerð. Nú hef ég ekki orðið var við, að flutt hafi verið till. um breytingu á þessu, en ef hún yrði flutt, vil ég aðeins taka það fram að nm. hafa óbundnar hendur um afstöðu til slíkrar till. eins og annað, þannig að þingvilji verður þá úr því að skera.